Met í milljörðum talið

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2022/11/29/an_nokkurs_vafa_met_i_milljordum_talid/

„Raun­veru­lega sýn­ist mér því að hér sé verið að leggja til út­gjalda­auka á milli ára upp á 180 millj­arða. Þetta er án nokk­urs vafa met í millj­örðum talið í þróun út­gjalda rík­is­sjóðs á milli ára,“ sagði Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokks­ins, um til­lög­ur fjár­málaráðuneyt­is­ins sem voru kynnt­ar í gær.

Bergþór gerði til­lög­ur ráðuneyt­is­ins að breyt­ing­um við fjár­laga­frum­varpið að um­tals­efni við aðra umræðu um frum­varpið á þingi í dag. 

Hann seg­ir að þar hafi verið sagt frá því að lagðar séu til til­lög­ur sem kalli á 37 millj­arða út­gjalda­aukn­ingu fyr­ir rík­is­sjóð. Í til­kynn­ing­unni sé reynd­ar ekki tekið á því að þessi þróun mála kalli fram 14 millj­arða vaxta­greiðslur. Þetta komi til viðbót­ar 129 millj­arða kostnaðar­auka á milli ára þegar búið að taka til­lit til ein­skipt­is­kostnaðar vegna Covid í fyrra í fjár­lög­um upp á 50 millj­arða.

„Raun­veru­lega sýn­ist mér því að hér sé verið að leggja til út­gjalda­auka á milli ára upp á 180 millj­arða. Þetta er án nokk­urs vafa met í millj­örðum talið í þróun út­gjalda rík­is­sjóðs á milli ára. Maður taldi ólík­legt að nokk­urn tím­ann yrði viðlíka ár og þegar rík­is­stjórn Sjálf­stæðis­flokks og Sam­fylk­ing­ar gerði hér allt fyr­ir alla árið 2007 með mik­illi aukn­ingu út­gjalda á milli ára en þessi þróun er al­veg ör­ugg­lega að bæta mjög veru­lega í það,“ sagði Bergþór. 

Hann sagði enn frem­ur að stjórn­laust ástand ríkti í rík­is­fjár­mál­um og óskaði eft­ir því að fá tæki­færi til að eiga orðastað við fjár­málaráðherra vegna þessa.

 


Fyrsta flug vélar Nice Air um Egilsstaði

Súlur, vél norðlenska flugfélagsins Nice Air, flaug um Egilsstaðaflugvöll í fyrsta sinn í gær er hún flutti starfsfólk Loðnuvinnslunnar og fleiri til Glasgow í Skotlandi.

Um 300 manns voru á flugvellinum þegar mest lét í gær, því auk Skotlandsfara voru á sama tíma full áætlunarvél Icelandair frá Reykjavík. Samkvæmt upplýsingum frá Isavia gekk afgreiðsla vélanna vel þótt báðar væru fullar.

Tvær innritunarraðir voru, annars vegar fyrir Egilsstaði, hins vegar Glasgow. Farþegar innanlandsflugi biðu síðan og fóru út um sal þar sem farangursbelti flugstöðvarinnar eru meðan millilandafarþegarnir fóru í gegnum hefðbundna vopnaleit áður en þeir færðu sig yfir í aðalbiðsal stöðvarinnar.

Þetta er annað flug Nice Air um Egilsstaði en fyrir skemmstu annað það leiguflug fyrir starfsfólk Síldarvinnslunnar sem fór í árshátíðarferð til Póllands. Nice Air leigði vél í það verk en var nú með eigin vél.

Tekið var á móti Súlum með viðhöfn þar sem slökkvibílar sprautuðu vatni á hana þegar hún renndi upp að flugstöðinni. Flugið til Skotlands gekk vel, flugtíminn var 1 klukkustund og 44 mínútur.

Í samtali við Austurfrétt sagðist Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Nice Air, vonast til leiguflug um Egilsstaðaflugvöll væri vísirinn að áætlunarflugi síðar meir. Flugfélagið hafi fullan hug á að koma því á en það velti mikið á eftirspurn erlends ferðafólks.

 
 

Umframkostnaður við nýjan Landsspítala á við ný Seyðisfjarðagöng

Margt hefur verið ritað um Seyðisfjarðagöng og eftir því sem greina- og þáttargerðahöfundar búa fjær vettvangi því vitlausari þykir þeim framkvæmdin og dýr.  Nú er komið fram sem þingmenn Miðflokksins margbentu á, að staðsetning og umfang Landspítalans mundu leiða af sér fleiri vandamál en lausnir og umfram kostnaður myndi aukast verulega.

Júlí 2021
Nýbyggingar Landspítalans kosta 16,3 milljörðum króna meira en kostnaðarmat gerði upphaflega ráð fyrir. Heildarkostnaðurinn verður tæplega 80 milljarðar.

Þessi mikli aukakostnaður kom í ljós eftir fyrirspurn Bergþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins, sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra svaraði.
https://www.mannlif.is/frettir/nyr-landspitali-langt-fram-ur-aaetlun-rumir-16-milljardar-fjuka-aukalega/

Nóvember 2022
Verðbætur og hátt hrá­vöru­verð hafa gert það að verkum að kostnaður við byggingu nýs Land­spítala við Hring­braut hefur hækkað um­tals­vert. Kostnaðar­mat verk­efnisins var upp­fært árið 2017 en þá var gert ráð fyrir að spítalinn myndi kosta um 63 milljarða. Heildar­kostnaður er nú farinn að nálgast 90 milljarða, sem er 27 milljörðum yfir áður út­gefnu mati.

Ás­björn Jóns­son, sviðs­stjóri fram­kvæmda­sviðs hjá Nýjum Land­spítala (NLSH), segir stærstu verk­þætti spítalans enn innan þeirra skekkju­marka sem gert var ráð fyrir í upp­hafi. Ekkert bendi til annars en að verkinu verði lokið árið 2028 eins og á­ætlað var.
https://www.frettabladid.is/markadurinn/landspitali-tugi-milljarda-yfir-aaetlun/

Miðað við framvindu umframkostnaðar við Landsspítalann, má reikna með að framúrkeyrslan verði um 54 milljarðar, eða um tíu milljörðum meira en áætlað er að ný Seyðisfjarðagöng kosti tilbúin.

Var illa að verki staðið við byggingu Landsspítala í upphafi?
Var ekki hægt að fá norrænar teikningar af sambærilegu mannvirki?
Var staðsetningin vitlaus?
Er einhver ábyrgur?

Almennt þykir Fréttaveitum í Reykjavík þetta greinilega ekki það mikið, að það taki því að fjalla um.


Áleitnar spurningar um orkupakka

 Fjórði orkupakkinn sem inniheldur endurskoðun á helstu þáttum í orkulöggjöf ESB var samþykktur af Evrópuþinginu og ráði Evrópusambandsins í lok maí 2019.

 Reglugerðir og tilskipanir fjórða orkupakkans voru birtar í Stjórnartíðindum ESB sumarið 2019. Pakkinn tók við af þriðja orkupakka ESB en er víðtækari og nær til ákvarðana um endurnýjanlega orku, orkunýtni og slíkra þátta. Reyndar sýnist feimnismál að tala um fjórða orkupakkann og er hann af hálfu stjórnvalda kallaður hreinorkupakkinn, kannski í fegrunarskyni.

 Þriðji orkupakkinn var samþykktur á Alþingi 2. september 2019. Hann var umdeildur og lagðist ekki vel í þjóðina. Framganga stjórnvalda á þeim tíma vekur spurningar um upplýsingar af þeirra hálfu til Alþingis um lagabreytingar innan ESB á sviði orkumála.

Greining sérfræðinga á þriðja orkupakkanum
 Ítarleg lögfræðileg greining af hálfu lagasérfræðinganna Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar sem fylgdi þingályktunartillögu ríkisstjórnarinnar hafði vissa sérstöðu m.a. vegna samskipta þeirra og utanríkisráðuneytis meðan á samningu álitsins stóð. Þeir lýstu tveimur leiðum en lakari kosturinn að þeirra dómi var valinn af hálfu stjórnvalda.

 Megintillaga Friðriks Árna og Stefáns Más var að Ísland færi fram á undanþágu frá tveimur tilgreindum reglugerðum í orkupakkanum í heild, m.a. á þeirri forsendu að á Íslandi fari ekki fram raforkuviðskipti milli landa. Reglugerðirnar ættu því ekki við um aðstæður hér á landi.

 Hin tillagan var að setja lagalegan fyrirvara við samþykkt pakkans. Á fundi utanríkismálanefndar í ágúst 2019 sagði annar höfunda þetta næstbesta kostinn, sem skilja verður sem lakari kostinn af tveimur. Viðurkenndir lögfræðingar sögðu hinn lagalega fyrirvara haldlausan að þjóðarétti og aðeins til heimabrúks.

Viðvaranir lögfræðilegra ráðunauta
 Lögfræðilegir ráðunautar ríkisstjórnarinnar sögðu í álitsgerð sinni erlendri stofnun falið a.m.k. óbeint ákvörðunarvald um skipulag, ráðstöfun og nýtingu mikilvægra íslenskra orkuauðlinda. Þeir sögðu að hér ræddi um meira valdframsal af hálfu Íslendinga en dæmi væru um í 25 ára sögu EES-samningsins. Þeir líktu þeirri ákvörðun sem fyrir lá við að erlendri stofnun væri falið ákvörðunarvald um heildarafla á Íslandsmiðum.

 Lögfræðilegir ráðunautar ríkisstjórnarinnar vöruðu við hættu á samningsbrota- og skaðabótamáli sem gæti risið ef aðili sem legði sæstreng að landinu fengi synjun Orkustofnunar við beiðni um tengingu við íslenskt raforkukerfi. Staða Íslands yrði ekki vænleg í slíku máli.

Efni umdeildra reglugerða
 Umdeildasta reglugerðin í þriðja orkupakkanum (nr. 713/ 2009), sem lögð var fyrir Alþingi, kvað á um stofnun orkustofnunar Evrópu, ACER, sem hefði vald sem gæti að dómi lögfræðilegra ráðunauta ríkisstjórnarinnar falið í sér a.m.k. óbein áhrif á skipulag, nýtingu og ráðstöfun verðmætra íslenskra orkuauðlinda.

 Önnur reglugerð sem ráðunautar ríkisstjórnarinnar gerðu fyrirvara við er um raforkuviðskipti yfir landamæri (nr. 714/2009).

Brottfallnar reglugerðir
 Svo bar við að báðar þessar reglugerðir voru felldar brott af hálfu ESB með nýjum reglugerðum sem er að finna í fjórða orkupakkanum.

 Þegar ríkisstjórnin aflaði samþykkis Alþingis 2. september 2019 fyrir að taka í íslensk lög Evrópureglugerðir nr. 713 og 714 frá 2009 hafði hin fyrri eins og sjá má í lagasafni ESB misst gildi sitt tveimur mánuðum áður frá og með 4. júlí 2019. Löglærðir sérfræðingar verða að skýra réttaráhrif og lögfylgjur þessa. Hin síðari féll brott í lok árs 2019.

Lögleiðing brottfallinnar reglugerðar
 Eftir standa áleitnar spurningar. Vissi ríkisstjórnin ekki af því að nýjar reglugerðir kváðu á um brottfall hinna umdeildu reglugerða þriðja orkupakkans og að sú nr. 713 um evrópska orkustofnun og valdheimildir hennar var þá þegar fallin úr gildi? Óvarlegt sýnist að gera ráð fyrir að ekki hafi í ráðuneytum legið fyrir vitneskja um þetta atriði.

 Hvaða skýringar eru á því að ríkisstjórnin upplýsti ekki Alþingi um brottfall reglugerðanna og gildistöku nýrra áður en lagt var fyrir löggjafarþingið að samþykkja í atkvæðagreiðslu 2. september 2019 að veita þegar brottfallinni Evrópureglugerð nr. 713 lagagildi á Íslandi? Lögleiðing brottfallins orkupakka Enda þótt oftlega hafi verið óskað upplýsinga um væntanlegan fjórða orkupakka í umræðum um þriðja orkupakkann upplýsti ríkisstjórnin ekki Alþingi nema í almennum atriðum um fjórða pakkann. Hvaða skýringar eru á því að ríkisstjórnin upplýsti ekki Alþingi fyrir afgreiðslu þriðja orkupakkans um að fjórði orkupakkinn lægi þá þegar fyrir, hefði hlotið samþykki æðstu stofnana Evrópusambandsins og hefði þá þegar a.m.k. að umtalsverðu leyti leyst þann þriðja af hólmi?

Ólafur Ísleifsson, hagfræðingur og fv. alþingismaður.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 5.11.2022


Vindmyllur leysa engan vanda

Áhugaverð færsla af bloggsíðu Björns Jónssonar

https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2283678/

Björn Jónsson er rafmagnsverkfræðingur og starfaði í tæplega 35 ár við að breyta raforku í útflutningsvöru, en lét af þeim störfum 28. febrúar 2015.  Hann er fylgjandi einstaklingsfrelsi til orðs og æðis, þjóðfrelsi og markaðsbúskap með félagslegu ívafi (Sozial-Marktwirtschaft). 

----------------------------------

Danmörk er langmesta vindmylluland Norðurlandanna, og þar er raforkuverðið langhæst.  Danir hafa fjárfest gríðarlega í vindmyllum og auðvitað framleitt þær og selt út um allar jarðir. Hár fjárfestingarkostnaður, stuttur endingartími, tiltölulega hár rekstrarkostnaður og slitróttur rekstur veldur því, að vinnslukostnaður rafmagns er hár með vindmyllum, og á sama má segja, að aflið frá þeim sé annars flokks vegna óvissunnar, sem gætir um afhendingu þess.  Viðskiptavinur getur ekki reitt sig á þetta afl, og þess vegna hefur vindmylluaflið afar lítið gildi hjá viðskiptavini, sem verður fyrir tilfinnanlegu tjóni, ef hann fær ekki umsamið afl. 

Haukur Ágústsson, fyrrverandi kennari,

Erlendis er þetta leyst með því, að seljandi vindmylluorku semur við seljanda orku frá annars konar orkuveri, yfirleitt gaskyntu orkuveri, um að hlaupa fyrir sig í skarðið.  Hérlendis vill varla nokkur borga forgangsorkuverð fyrir vindmylluorku, nema seljandi vindorkunnar geti tryggt umsamda afhendingu.  Þannig nemur verðmæti einangraðrar vindmylluorku hérlendis aðeins verðmæti ótryggðrar raforku, sem er e.t.v. þriðjungur af verðmæti forgangsorkunnar. Þannig er vandkvæðum háð að gera samning við seljanda vindmylluorku til lengri tíma en nemur sæmilega öruggri veðurspá. 

Hins vegar gætu vindmyllur orðið verðráðandi hér á væntanlegum uppboðsmarkaði til eins sólarhrings, því að þar mun gilda, að fyrir öll viðskiptin ráði hæsta verðtilboð, sem tekið er.  Þetta fyrirkomulag Evrópusambandsins og annarra hefur nú komið Evrópumönnum hrottalega í koll á orkuskortstímum, og hefur forseti framkvæmdastjórnar ESB sagt fyrirkomulagið ekki vera á vetur setjandi. 

Nú væri hægt að láta alla þessa ókosti vindmylluraforkunnar liggja á milli hluta í nafni endurnýjanlegrar orkulindar og athafnafrelsis í landinu innan marka laganna, ef ekki fylgdi sá böggull skammrifi, að vindmyllur eru landfrekar, uppsetning þeirra kallar á tiltölulega umfangsmikil landspjöll og af þeim stafar ýmiss konar mengun. 

Haukur Ágústsson hefur skrifað greinar í Morgunblaðið, sem veigur er í.  Ein birtist 26. október 2022 undir fyrirsögninni:

   "Viðbrögð við vindmyllum":

"Samkvæm vorut samtökunum "StopTheseThings" (Stöðvið þetta) voru yfir 30 k vindmyllur í Þýzkalandi árið 2019.  [M.v. höfðatölu svarar þetta þó aðeins til 140 stk á Íslandi, en hérlendis hafa verið birt áform um mörg hundruð vindmyllur-innsk. BJo.] Margar þeirra eru svo bærri byggðu bóli, að mikið ónæði hlýzt af.  Því hafa fasteignir í nágrenni þeirra lækkað í verði og jafnvel orðið óseljanlegar, auk þess sem almenn andúð á þeim hefur vaxið.  Nú er svo komið, að sem næst engar nýjar vindmyllur eru reistar í Þýzkalandi, heldur horfa þýzkir fjárfestar til annarra landa og þá einkum Noregs."

Þýzkaland er 62 sinnum þéttbýlla en Ísland og þess vegna engin furða, þótt fórnarkostnaður af uppsetningu og rekstri vindmylla sé hár.  Þjóðverjar hafa á seinni árum verið afar seinheppnir með orkustefnu sína, sem nú á ófriðartímum hefur leitt þá í algerar ógöngur, eins og kunnugt er.  Höfuðsök þar ber fyrrverandi formaður CDU og kanzlari Þýzkalands, Angela Merkel, sem árið 2011 beitti sér fyrir lokun kjarnorkuvera og um 2015 fyrir banni við vökvaknúinni gasvinnslu úr jarðlögum (e. fracking) ásamt niðurgreiðslum á raforkukostnaði frá vindmyllum.  Afleiðingin er sú, að Þjóðverjar eru ósjálfbjarga, þegar kemur að öflun orku, og færðu Rússum lykilstöðu um orkuútvegun.  Þetta var svo mikill barnaskapur, ef ekki eitthvað verra, að engu tali tekur.

  "Samkvæmt vefsíðunni "The Local (Nágrennið) berjast menn víða gegn þessum framkvæmdum, t.d. í Norður-Noregi og Svíþjóð, þar sem Samar búa með hreindýra hjarðir sínar og segja dýrin fælast myllurnar, ef þær hafa verið byggðar [reistar] á haglendi þeirra.

Að sögn Energifakta Norge (Orkutölur Noregs) voru 53 vindmyllugarðar í Noregi í upphafi ársins 2021.  Árið 2019 voru stofnuð þar í landi samtök, sem fengu heitið "MotVind (Gegn vindorku).  Hliðstæð samtök eru til víðar, s.s. í Svíþjóð og öðrum Evrópulöndum.  Öll berjast þau gegn útbreiðslu vindmylla og telja þær skaðlegar náttúrulegu umhverfi og dýra- og mannlífi, auk þess sem þær dugi alls ekki til þess að koma í veg fyrir þær loftslagsbreytingar, sem ætlað er, að maðurinn valdi.  Barátta þessara samtaka hefur víða borið verulegan árangur og hefur í ýmsum tilvikum komið í veg fyrir uppsetningu vindmyllugarða."

Þess er skemmst að minnast, að fumbyggjar í Norður-Noregi unnu dómsmál í réttarkerfi Noregs gegn vindmyllueigendum og yfirvöldum, sem veitt höfðu framkvæmdaleyfi á hefðbundnum beitarsvæðum hreindýra. Þessi dómur gefur til kynna, að yfirvöldum sé að norskum rétti óheimilt að leyfa framkvæmdar, sem rýra umtalsvert hefðbundin lífsskilyrði íbúanna á svæðin.  Dómurinn kann að verða leiðbeinandi um meðferð dómsmála, ef sveitarstjórnir, t.d. á Vesturlandi, leyfa, að reistar verði vindmyllur í grennd (í áberandi sjónlínu) við íbúa eða jafnvel frístundabyggð, sem fallnar séu til að rýra lífsgæði íbúanna með einhverjum þeim hætti, sem hægt sé að færa sönnur á fyrir rétti.

Það er illskiljanlegt, að yfirvöld hérlendis skuli ljá vindmyllufyrirtækjum eyra í ljósi þess, að hérlendis verður alls engin þörf fyrir þessa dýru raforku, ef yfirvöld á borð við Orkustofnun og útgefendur framkvæmdaleyfa í héraði slá nú í nára truntunnar og keyra hana úr sporunum til að flýta virkjanaleyfum fyrir hefðbundnar íslenzkar virkjanir, sem almennt eru taldar sjálfbærar, og er þar auðvitað átt við vatnsaflsvirkjanir og jarðgufuvirkjanir.

Að lokum skrifaði Haukur Ágústsson:

"Þegar Kárahnjúkavirkjun var í byggingu, voru umhverfissinnar ötulir við að mótmæla virkjuninni.  Menn komu meira að segja erlendis frá til þátttöku í aðgerðunum, sem fólust m.a. í því að stöðva verk með því að setjast niður fyrir framan vinnuvélar.  Nú er rætt um yfir 30 vindmyllugarða á Íslandi.  Afar lítið, ef nokkuð, ber á mótmælum vegna þessara áætlana.  Þó eru umhverfisáhrifin sízt minni en af vatnsvirkjunum og miklu meira áberandi vegna afar hárra, gnæfandi turna og víðfeðmra spaða.  Ekki er heldur minnzt á áhrifin í högum sauðfjár og hreindýra [sbr téð norsk dómsniðurstaða - innsk. BJo] eða á þann skaða, sem áreiðanlega verður á fuglum og smærri flugdýrum [skordýrum - innsk. BJo] - hvað þá áhrifin á ferðamannageirann.  

Við Íslendingar búum enn við sæmilega óspillta náttúru.  Er mikið vit í því að skaða hana í þágu gróðafíknar fáeinna manna, sem hyggjast græða á því að fordjarfa hana - og virðast ýmsir auk þess vera á mála erlendra aðila, eins og í Noregi."

Þetta er vel skrifuð grein hjá kennaranum fyrrverandi með þörfum ábendingum og viðvörunum.  Án þess að gera vindmylluforkólfum upp hvatir (þeir ofmeta einfaldlega ávinninginn m.v. fórnarkostnaðinn) þá ber að beita sér einarðlega gegn leyfisveitingum fyrir vindmyllum á Íslandi um leið og yfirvöld eru hvött til að beita sér gegn þeirri vá, sem yfirvofandi raforkuskortur í landinu er fyrir hag landsmanna, með því að ýta undir nýjar hefðbundnar íslenzkar virkjanir.  Þær eru bæði nauðsynlegar og þjóðhagslega hagkvæmar, en vindmylluþyrpingar eru hvorugt.  

Ímynd vatnsorkuvera erlendis er dálítið lituð af því, að víða hefur þurft að beita fólk nauðungarflutningum af athafnasvæðum slíkra virkjana.  Það hefur ekki þurft í seinni tíð á Íslandi.  Þá er beizlun vindorkunnar erlendis einn af fáum endurnýjanlegum virkjanakostum víða.  Þetta hefur kallað fram ofstæki gegn vatnsaflsvirkjunum og doða gagnvart vindorkuverum, sem kann að hafa smitazt hingað. Þannig gera hvorki vindmylluforkólfar né virkjanaandstæðingar á Íslandi sér grein fyrir raunverulegum aðstæðum í landinu. 

 

 


Þegar lítil þúfa veltir þungu hlassi

Mikil fjárfestingarþörf er til uppbyggingar innviða í Múlaþingi. Takmarkaðir fjármunir eru til ráðstöfunar og því afar mikilvægt að fjárfestingum sé forgangsraðað rétt. Þegar kemur að forgangsröðun viljum við hjá M-listanum líta fyrst til þess sem er okkur dýrmætast, þ.e. barnanna okkar, grunnskóla, tónskóla, leikskóla og fleira.

M-listinn bókaði á 51. fundi Byggðaráðs Múlaþings, þann 19 apríl 2022 undir lið 4, sem varðar fjárfestingu í viðbyggingu og viðgerðir Safnahússins á Egilsstöðum:
„Þröstur Jónsson lagði fram eftirfarandi bókun:
Tel að forgangsraða verði framkvæmdum við húseignir sveitarfélagsins grunnskólum og tónlistarskólum í vil. Aðbúnaður barna í Múlaþingi vegur mun þyngra en geymsla muna liðinna forfeðra okkar. Leitað verði samninga ef með þarf við ríkið að fresta öðrum en bráðnauðsynlegum framkvæmdum við Safnahúsið svo hraða megi nauðsynlegum framkvæmdum við grunnskóla og tónlistaskóla í sveitarfélaginu eins og mest má verða.“

Ástæður þessa voru að við metum svo að það sé langt um mikilvægara að verja fjármunum í uppbyggingu skóla (á Seyðisfirði og Djúpavogi) heldur en húsnæði yfir „koppa og kirnur forfeðra okkar“.

Í fyrstu fannst mér ég tala fyrir daufum eyrum og til þess hefur verið vitnað að sveitarfélagið verði að standa við gerðan samstarfssamning við ríkið sem hefur komið með myndarlegt framlag til uppbyggingar menningarhúss/safnahúss sem að mestu hefur farið í lagfæringar á Sláturhúsinu umdeilda. Skv. þeim samning á sveitarfélagið að klára sitt framlag fyrir árslok 2023.
Ég tel hins vegar að það ætti að vera auðsótt fyrir sveitarfélagið að fara fram á það við ríkisvaldið að fresta okkar mótframlags-framkvæmdum við safnahúsið á grundvelli forgangsröðunar fyrir grunnskólana okkar og jafnvel tónskóla. Þar ætti ríkisvaldið að gæta sanngirni sem sjálft hefur nú slegið framkvæmdum í Múlaþingi á frest tam. Axarvegi.

Bókun og málflutningur okkar í þessum efnum hefur samt greinilega sáð fræjum hjá öðrum í sveitarstjórn, því á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings í síðustu viku (24. október) er meðal annars svo bókað við lið 1 er fjallar um fjárhagsáætlun 2023-2032:
„Ráðið beinir því jafnframt til byggðaráðs að leita leiða, meðal annars með samtali við ríkisvaldið, til þess að færa framkvæmdir við Safnahúsið á Egilsstöðum aftar í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins svo flýta megi framkvæmdum við grunnskólann á Seyðisfirði og björgunarmiðstöð á Djúpavogi.“
Bókun þessi var samþykkt einróma á fundi umhverfis og framkvæmdaráðs.

Við getum ekki annað en fagnað því að upphaflega bókun okkar og málflutningur, hefur orðið til þess að sennilega verður að þessari forgangsröðun og frestun framkvæmda (annarra en bráðnauðsynlegra) við safnahúsið.

Sannast hér máltækið „oft veltir lítil þúfa þungu  hlassi.“
Þannig mun M-listinn halda áfram af rökfestu og skynsemi að berjast af veikum mætti fyrir hag íbúa í Múlaþing.

Þröstur Jónsson
Sveitarstjórnarmaður í Múlaþingi.

https://www.austurfrett.is/umraedan/thegar-litil-thufa-veltir-thungu-hlassi


Stjórnmálaályktun Flokksráðsfundar Miðflokksins

Flokksráðsfundur Miðflokksins haldinn á Hótel Valaskjálf Egilsstöðum ályktar:

Flokksráðsfundur  Miðflokksins þann 29. okt. telur núverandi aðstæður kalla á ríkisstjórn sem bregst við stórum og aðkallandi úrlausnarefnum fremur en að hafa að markmiði að viðhalda völdum.  Aðstæður nú kalla á pólitíska stefnu og forystu.  Ákvarðanir skulu teknar af kjörnum fulltrúum með tilliti til gefinna loforða og þarfa samfélagsins í stað þess að embættismenn eða aðrir taki þær ákvarðanir.

Flokkráðsfundur Miðflokksins ályktar:

  • Um málefni hælisleitenda og öryggi á landamærum. – Miðflokkurinn hefur einn flokka varað við afleiðingum þess að Ísland sé nánast auglýst í útlöndum sem besti ákvörðunarstaður hælisleitenda. Afleiðingar stefnuleysis í málaflokknum blasa nú við. Fjöldahjálparstöðvum, sem í raun eru flóttamannabúðir, hefur verið komið upp og opinberar stofnanir eru í samkeppni um húsnæði við borgara í húsnæðisleit.  Nú þegar þarf að  afnema öll séríslensk ákvæði úr regluverki útlendingalaga. Þau ákvæða virka sem segull á fjölda umsókna um alþjóðlega vernd á Íslandi og gera okkur erfiðara fyrir að gera vel við þá sem eru í mestri neyð. Ísland má ekki verða andlag sölustarfsemi glæpagengja sem gera sér neyð fólks að féþúfu. 
  • Um löggæslu – Miðflokkurinn leggur sem fyrr mikla áherslu á eflingu löggæslu. Skipulögð glæpastarfsemi hefur haslað sér völl á Íslandi, ofbeldisbrotum fjölgar og þau verða sífellt alvarlegri. Stórfelld fíkniefnabrot eru fleiri og stærri en verið hefur. Miðflokkurinn vill bæta úrræði lögreglu og tryggja að um leið og rannsóknarheimildir séu efldar sé eftirlit með aðgerðum lögreglu með þeim hætti að gagn sé af.
  • Um heilbrigðismál. – Miðflokkurinn telur að forvarnir séu grundvöllur að öflugu heilbrigði þjóðarinnar. Eitt af höfuðbaráttumálum flokksins er gjaldfrjáls skimun fyrir alla.  Miðflokkurinn telur ríkjandi biðlistaómenningu óþolandi. Miðflokkurinn vill að nú þegar verði gengið til samninga við einkareknar sjúkrastofnanir þar sem það á við til þess að vinna bug á biðlistum. Miðflokkurinn vill að horfið verði frá samþjöppun þjónustu og hún færð nær notendum þjónustunnar.
  • Um aldraða – Miðflokkurinn vekur athygli á stefnu sinni í öldrunarmálum - ,,Frá starfslokum til æviloka.” Þar er lögð til samfelld einstaklingsmiðuð þjónusta við aldraða.  Þar er  einnig kveðið á um aukna heimaþjónustu og búsetuúrræði sem brúi bilið milli heimilils og hjúkrunarheimila. Jafnframt minnir Miðflokkurinn á stefnu flokksins sem gengur lengra en nokkur önnur við að draga úr skerðingum vegna annarra tekna lífeyrisþega.
  • Um öryrkja – Miðflokkurinn vill að nú þegar verði staðið við fyrirheit til öryrkja, meðal annars varðandi skerðingar á bótum. Jafnframt verði núverandi örorkumat endurskoðað með tilliti til mismunandi þarfa öryrkja. 
  • Um landbúnaðarmál og fæðuöryggi – Miðflokkurinn vísar til framkominnar þingsályktunartillögu flokksins um stóreflingu innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar. Mikilvægara er nú en nokkru sinni fyrr að tryggja fæðuöryggi og aðgengi landsmanna að heilnæmum afurðum. Neysla heilnæmrar fæðu bætir heilsu, eykur lífsgæði og er öflug forvörn. Miðflokkurinn hafnar öllum áætlunum Matvælaráðherra um samdrátt í innlendri kjötframleiðslu og takmörkunum á notkun áburðar til ræktunar lands.
  • Um byggðamál – Miðflokkurinn vísar til stefnu sinnar ,,Ísland allt.” Þar er á skýran hátt lýst hvernig efla megi byggð hvarvetna á Íslandi og tryggja að tækifæri landsmanna verði hin sömu óháð búsetu. Nauðsynlegt er að landsbyggðin komist í arðbæra sókn úr þeirri langvarandi kostnaðarsömu vörn sem hún hefur verið í.
  • Um fjármál ríkisins – Miðflokkurinn gagnrýnir harðlega þann vöxt sem hefur orðið í opinberum útgjöldum á liðnum árum. Miðflokkurinn vill að horfið verði frá gamaldags skattastefnu núverandi ríkisstjórnar sem m.a. viðheldur verðbólgu með árlegum hækkunum á ýmsum gjöldum sem bitna helst á þeim sem minnst mega sín. Miðflokkurinn geldur enn varhug við svokölluðum ,,grænum sköttum” sem bitna á fólki og fyrirtækjum og draga úr framtaki og framförum.
  • Um nýtingu orkuauðlinda. Á tímum þegar orkuskortur ríkir í heiminum og orkuverð er í hæstu hæðum er ekki rétt að hafna vinnslu á auðlindum í efnahagslögsögu Íslands.  Miðflokkurinn vill að þegar verði gefin út rannsóknar- og vinnsluleyfi til öflunar á gasi og olíu sem líkindi eru til að finnist í lögsögu Íslands. Einnig þarf að nýta allar orkulindir til lands og sjávar til atvinnuuppbyggingar ásamt orkuskiptum. Miðflokkurinn áréttar þá skoðun að Landsvirkjun verði í eigu ríkisins og að orkupakkar Evrópusambandsins henti ekki íslenskum aðstæðum.
  • Um einföldun regluverks – Núverandi ríkisstjórn er eins og flestum er kunnugt kerfisstjórn sem þvælist fyrir fólki og fyrirtækjum og gerir þeim erfiðara fyrir við að vaxa og dafna. Óþolandi flækjustig fylgir því að hefja atvinnurekstur og þróa hann áfram. Afgreiðslutími erinda eftirlitsstofnana er iðulega of langur sem verður ítrekað til tafa og tjóns. Miðflokkurinn vísar til þingsályktunartillögu sinnar um einföldun regluverks.
  • Um menntamál – Ríkisstjórnin skilar auðu í menntamálum eins og víðar. Miðflokkurinn vill að nú þegar verði gerðar alvöru ráðstafanir til að efla iðn- og tækninám. Hundruð hafa ekki fengið inni í iðnnámi meðan skortur er á iðnmenntuðu fólki í nánast öllum greinum. Miðflokkurinn vill að lestrar- og móðurmálskennsla verði stórefld nú þegar. Miðflokkurinn leggur áherslu á gæði námsgagna fyrir öll börn og að þeim séu tryggð jöfn tækifæri í stafrænni þróun, fjölbreytni námsgagna og aðgang að þeim.  Miðflokkurinn vill tryggja menntun fyrir alla og að skólinn sé öruggur staður fyrir öll börn.Koma þarf í veg fyrir gengisfellingu iðnnáms með því að verja löggildingu og koma í veg fyrir að einstaklingar án réttinda gangi í störf fagmanna.
  • Ferðamál. Síaukinn ferðamannastraumur veldur miklu álagi á viðkvæma náttúru Íslands.  Miðflokkurinn leggur til að gjald verði lagt á alla farmiða til Íslands með það að markmiði að standa straum af nauðsynlegri uppbyggingu  og verndaraðgerðum.  
  • Um samgöngumál. Miðflokkurinn leggst gegn veggjöldum sem munu stuðla að mismunun milli landsmanna. Miðflokkurinn styður áframhaldandi veru Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri sem er hvorttveggja í senn nauðsynleg tenging landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins og varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll. Miðflokkurinn minnir á að hlutverk flugvallarins er mikilvægara nú en áður vegna óheppilegrar samþjöppunar sjúkrastofnana og sérfræðiþjónustu á Höfuðborgarsvæðinu.

Þau mál sem Miðflokkurinn hefur frá stofnun sett á oddinn eru nú flest í miðju umræðunnar. Hvort sem horft er til útlendingamála, orkumála, fæðuöryggis eða tjáningarfrelsis einstaklingsins,  hafa sjónarmið og stefna Miðflokksins aldrei verið mikilvægari en einmitt núna. Það munar um Miðflokkinn.

Öflugt atvinnulíf er forsenda þess að hægt sé að styðja við og efla þau velferðarkerfi sem eru landsmönnum svo mikilvæg. Án öflugrar verðmætasköpunar verður okkur sniðinn þrengri stakkur en annars væri hvað útgjöld til velferðarmála varðar.

Skynsamleg nýting auðlinda landsins verður að vera í forgangi til að íslenskt samfélag vaxi, dafni og eflist. Ísland allt!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband