Ísland 41 –Danmörk 2 –Stjórnlaus staða

Dönum varð ljóst fyrir nokkrum árum að staðan í málefnum hælisleitenda væri orðin stjórnlaus. Og hvað gerðu Danir? Jú, þeir brugðust við undir forystu krata, sem þá höfðu yfirtekið stefnu Danska þjóðarflokksins í málefnum útlendinga.

Til upprifjunar var Pia Kjærsgaard um tíma formaður Danska þjóðarflokksins og þótti ýmsum hið versta mál þegar hún var heiðursgestur á Þingvöllum, í boði Alþingis, vegna aldarafmælis fullveldisins. Það er auðvitað svolítil kaldhæðni í því fólgin að danskir kratar hafi tekið upp stefnu Danska þjóðarflokksins, jafn mikið og sú stefna og sá flokkur var fyrirlitinn um stund.

Nú liggja fyrir nýjar tölur á upplýsingavef verndarmála um fjölda umsókna um alþjóðlega vernd á Norðurlöndum fyrir hverja 10 þúsund íbúa (samanburðarhæfar tölur). Þegar bornar eru saman tölur fyrir fyrstu 10 mánuði ársins 2022 kemur ótrúleg þróun í ljós þegar flóttafólk frá Úkraínu er ekki talið með. Fjöldi umsókna fyrir hverja 10 þúsund íbúa er hæstur á Íslandi, langhæstur.

41 umsókn barst hingað til lands fyrir hverja 10 þúsund íbúa. Sambærileg tala fyrir Danmörku er 2! Munurinn er rúmlega tvítugfaldur! Á milli Íslands og Danmerkur liggja svo hin Norðurlöndin. Svíþjóð með 14 umsóknir, Finnland með átta og Noregur með sex. Ísland í öllu tilliti með hlutfallslega langmesta fjöldann.

Hvers vegna skyldi þróunin vera þessi? Séríslenskirseglar hafa sín áhrif. Og svo eru það auðvitað skilaboðin sem stjórnvöld senda frá sér. Dönsk stjórnvöld hafa einsett sér að enginn komi til Danmerkur til að sækja um alþjóðlega vernd, heldur sæki fólk í neyð um danska vernd á nærsvæðum sínum og dönsk stjórnvöld velji úr þann hóp sem þau telja sig ráða við að taka á móti.

Í því felst engin mannvonska, heldur þvert á móti felst í því mildi að hlífa fólki við löngu og erfiðu ferðalagi, upp á von og óvon. Oft undir handarjaðri glæpagengja sem hafa gert sér neyð þess að féþúfu.

Annað sem nauðsynlegt er að ræða er að þeir fjármunir sem varið er til málaflokksins hér á Íslandi gætu gert mun meira gagn fyrir fleiri á nærsvæðum þess fólks sem finnur sig á flótta, mun meira gagn en hér heima, í einu dýrasta landi í heimi. Fjöldi þeirra sem hingað sækja alþjóðlega vernd og eru með ríkisfang í Venesúela er síðan kapítuli út af fyrir sig. Sé horft til síðustu þriggja mánaða sóttu fleiri frá Venesúela um vernd á Íslandi en hingað leituðu frá Úkraínu.

Í öðru landinu er stríð, þar sem hús og híbýli eru sprengd í loft upp, í hinu landinu er vinstristjórn. Blasir ekki við að einhvers staðar höfum við misstigið okkur? Litla-útlendingamálið leysir í öllu falli ekki þann vanda sem við blasir. Regluverk útlendingamála þarfnast heildarendurskoðunar. Sú vinna þarf að hefjast strax.

Bergþór Ólason þingflokksformaður Miðflokksins.


Fjarðarheiðargöng fyrir fáa?

Á Seyðisfirði búa um 600 manns. Þar er önnur af tveim aðal farþega-millilandagáttum landsins, eina höfnin á Íslandi með reglulegum áætlanasiglingum farþega-ferju milli Íslands og Evrópu. Auk þess fer mikill út- og innflutningur um höfnina.

Sú höfn er tengd við þjóðvegakerfið með erfiðum fjallveg um Fjarðarheiði, sem oft er farartálmi um vetur. Hinumegin við heiðina er einn af þrem varaflugvöllum landsins, Egilsstaðaflugvöllur, afar vannýttur innviður í þessu landi. Mitt á milli þessara tveggja innviða er Eyvindarárstöð, aðveitustöð Landsnets, rétt norðan núverandi þéttbýlis á Egilsstöðum. Eyvindarárstöð hefur undanfarið verið efld mjög og er nú afhendingar-öruggur tengipunktur Landsnets fyrir raforku til atvinnurekstrar. Litlu innar í dalnum er stærsta vatnsaflsvirkjun í Evrópu, Fljótsdalsvirkjun, oft rangnefnd Kárahnjúkavirkjun.

Ráðgert er að grafa lengstu jarðgöng á Íslandi undir Fjarðarheiði, 13km. Um er að ræða mjög dýra framkvæmd sem núverandi áætlun slagar hátt í 60 milljarða með tengivegum. Mörgum finnst í of mikið lagt fyrir 600 manns að greiða nær 100 milljónir á hvern íbúa Seyðisfjarðar.

Það gleymist hins vegar í þeirri umræðu að í nánasta nágrenni við göngin eru áður taldir mikilvægir innviðir þessa lands. Fjarðarheiðargöng eru ekki eingöngu ætluð til að leysa samgönguvanda íbúa beggja vegna heiðarinnar. Miklu fremur eru þau ætluð til að efla og auka notagildi annarra dýrra innviða sem eru í dag vannýttir. Auk þess auka göngin möguleika á aukinni atvinnu-uppbyggingu ef rétt er haldið á spöðunum.

Óvíst er um pólitískan vilja stjórnvalda að fara í framkvæmdir við göngin og þeim gengur erfiðlega að fjármagna þau. Auk þess er mikil pressa á aðrar dýrar samgönguframkvæmdir í landinu. Samkeppnin um fjármagn og athygli stjórnvalda er því mikil.

Það er ekki síst hlutverk sveitarstjórnar Múlaþings að halda á lofti þjóðhagslegri arðsemi af göngunum. Núverandi sveitarstjórn hefur hrapalega mistekist það verk. Í stað þess að tala upp verkefnið og hátta skipulagsmálum þannig að göngin nýtist sem best, hafa þau aðallega farið með betlistaf til ráðherra sem engu getur lofað, auk þess að skipuleggja leiðarval frá göngunum Héraðs megin án nokkurrar framtíðarsýnar í skipulags- og atvinnumálum. Um er að ræða tvær leiðir frá göngum sem þarf að velja á milli; Norður- og Suðurleið. Vegagerðin mælti með S-leiðinni fyrst og fremst út frá vegtæknilegum ástæðum og kostnaðargreiningu. Leiðarval Vegagerðarinnar er gagnrýnt í nýrri skýrslu Skipulagsstofnunar. Staðháttakunnugir heimamenn hafa líka gagnrýnt leiðarvalið harðlega. Þá er út frá náttúruverndarlögum hætt við að S-leiðinni verði „Teigsskógur 2“. Þrátt fyrir þetta hefur sveitarstjórn Múlaþings í óðagoti og án mikillar umræðu, ákveðið að fara að ráðleggingum Vegagerðarinnar og velja S-leiðina og þar með hafnað N-leiðinni.

N-leiðin á hinn bóginn tengir á stystan mögulegan hátt innviðina þrjá, flugvöll, höfn og aðveitustöð. Á það hefur verið bent af sérfræðingum að kostnaðarmat Vegagerðarinnar við þá leið er stórlega ofmetið og leiðin illa frumhönnuð. Með vali á N-leið opnast nýtt og stórt tækifæri á uppbyggingu öflugra atvinnufyrirtækja norðan núverandi byggðar á Egilsstöðum sem gætu nýtt sér þessa innviði. Stutt og greiðfær leið milli millilanda-flugvallar og hafnar í nálægð við öruggan tengipunkt rafmagns-netsins, svo ekki sé talað um vaxandi umsvið skemmtiferðaskipa sem skipta út áhöfnum og farþegum með flugi.

Mikill skortur er á ákjósanlegum iðnaðarlóðum á Egilsstöðum og því brýnt að geta boðið lóðir nærri aðveitustöðinni sem fyrst.

Ný skoðanakönnun Gallup sýnir yfirgnæfandi vilja íbúa að N-leið verði valin, eða 63,4% þeirra sem tóku afstöðu. Vonandi verður sú niðurstaða íbúa til þess að sveitarstjórn hugsi sig tvisvar um áður en hún heldur áfram á sinni vegferð og taki tillit til þessa í nýju aðalskipulagi sem brátt fer í þróun hjá sveitarfélaginu. Að taka stóra ákvörðun í trássi við vilja íbúa getur vart talist góð stjórnsýsla.

Það er mikilvægt að efla innviði og draga að fleira fólk á Austurland út frá öryggissjónarmiðum í eldvirku landi. Með því að velja N-leiðina verða Fjarðarheiðargöng ekki bara fyrir 600 Seyðfirðinga heldur 376 þúsund Íslendinga, álitlegur fjárfestingarkostur fyrir alla landsmenn.

Þröstur Jónsson sveitastjórnarfulltrúi í 1. sæti M-listans í Múlaþingi.


Egilsstaðaflugvöllur – flug og heilbrigðisþjónusta

Egilsstaðaflugvöllur er mjög mikilvægur þegar kemur að heilbrigðisþjónustu, en er lítils virði ef flugið sem um hann fer þjónustar ekki íbúa landshlutans,  flugþjónusta er léleg og óáreiðanleg.

Þetta á sérstaklega við þegar talað eru um Icelandair, versnaði við sameiningu Flugfélags Íslands og Icelandair, þó var hún ekki góð fyrir. Feld eru niður flug í tíma og ótíma, flugvélum skipt út þannig að færri komast með en hafa bókað sig, endurgreiðslur fást ekki þegar flug er fellt niður eða breytt, svo kostar offjár að fá bókun breytt þó breytingin hafi orsakast af aðgerðum Icelandair, flugbrúin fellur niður og fæst ekki notuð fyrir einstaklinginn (flugfélagið væntanlega hirðir samt greiðsluna frá ríkinu), bókaðar gistingar fást ekki endurgreiddar og bókaðir tíma á sjúkrahúsum eða hjá sérfræðingum falla niður og fást ekki aftur fyrr en mánuðum síðar.

Þetta er heilbrigðisþjónustan sem okkur er boðið uppá á Austurlandi og kostar okkur jafnvel hundruða þúsunda að fara í eina læknis vitjun, sem sjúkratryggingar endurgreiða ekki, auk þess þarf að draga það sem þeim ber að borga út úr þeim með töngum og tekur jafnvel mánuði að ganga í gegn.

Hér koma lýsingar nokkra aðila sem birtust á Facebook:

Petra Lind Sigurðardóttir· 

Örsaga af Icelandair í dag:

Maðurinn minn átti löngu pantað flug ásamt syni okkar í fyrramálið, 17. Feb. að heimsækja fjölskyldu okkar fyrir sunnan auk þess að fara í læknaferð. Í gær kemur sonur minn veikur heim af leikskólanum svo ég reyni að hafa samband við Icelandair í morgun og fá fluginu breytt og ætla að senda dóttur okkar með pabba sínum í staðinn.

Ég opnaði netspjallið kl. 9 í morgun og var í samskiptum þar til kl. 10:30 en þar bað ég um aðstoð við að bóka dóttur okkar í flug þar sem ég gat ekki gert það sjálf enda aðeins 2 ára og hefði allaf þurft að vera í fylgd fullorðins og flugfélagið býður ekki upp á að bæta við miða innan sama bókunarnúmers.

Aðstoðin sem ég fékk virtist vera að ganga eftir góðan einn og hálfan tíma og þá spyr þjónustuaðilinn á chattinu hvort hann megi bjalla þegar hann hefur lokið við að græja bókunina. Hann var í vandræðum að bóka heimferðina því flugið heim á þriðjudag var fullt en hann virtist ekki geta "strokað" sætið hjá syni mínum út og bætt dóttur minni við. Það er skemmst frá því að segja að það símtal kom auðvitað aldrei.

Ég hringdi í Icelandair sjálf rétt fyrir kl. 13 og bað um aðstoð við sama mál og lýsti þar að auki yfir vonbrigðum þess að fá ekkert símtal því ég væri orðin stressuð að ná ekki inn miða í þetta morgunflug. Nafnabreyting er að sjálfsögðu ekki í boði svo að til þess að koma dóttur minni suður í þessa 4 daga ferð borgaði ég 25 þúsund krónur, með því að nýta loftbrúnna samt sem áður.

Kl. 13:15 eða rúmum 4 klukkutímum eftir að ég náði fyrst sambandi náðist loks að græja flugmiðann.

Kl. 18 fær maðurinn minn símtal frá Icelandair þar sem honum er tjáð að verið væri að skipta út stórri vél í fyrramálið fyrir litla vél og hann spurður hvort hann geti stokkið í kvöldvél klukkan 20. Hann er á kvöldvakt á Reyðarfirði og barnið staðsett í Neskaupstað svo augljóslega gekk það ekki upp. Hann lætur vita að hann sé á leið í læknisferð og starfsmaðurinn lætur hann vita að það sé verið að forgangsraða í litlu vélina í fyrramálið og að hann verði látinn vita hvernig flugið fer.

Kl. 20:15 koma skilaboð frá Icelandair að fluginu hans í fyrramálið sé aflýst og hann hafi verið endurbókaður kl. 16:05 – skilaboðin komu eftir að hægt er að ná sambandi við Icelandair enda lokar þjónustuborðið kl. 20. Nú er fjögurra daga ferðin orðin að þriggja daga ferð, læknatíminn farinn fyrir bý og samt greiddi ég himinhátt verð til að svissa dóttur okkar eftir mikið stapp í símann og spjallið í allan dag.“

Heimir Snær Gylfason

Jæja enn eitt vesenið og bara kaos á vellinum. Bilun var valdur því að a endanum var fluginu aflýst í gærkvöldi. Heyrði á mörgum að nú tæki við önnur 3ja mánaða bið eftir læknistíma. Hjá mér að breyta vinnuplönum er lítilræði miðað við það. En þetta er mjög óþægilegt, að fá svo engin svör fyrr en miðja nótt hvað verður gert í málinu er ekki gott. Verra er að það er ekki fyrr en á hádegi í dag. Hefði verið skárra með fyrsta flugi í morgun. Loksins þegar veður er skaplegt þá er það bilun.“

Unnar Erlingsson

Öryggisþáttur innanlandsflugs fyrir okkur sem búum fjærst þjónustunni þarf meiri fókus. Má halda að við séum orðin of vön slæmri þjónustu og úrræðaleysi að við gerum lítið til að biðja um það sem réttlátt er.“

Kolbrún Nanna Magnúsdóttir

Sonur okkar átti að mæta í aðgerð í morgun aflýst alltof seint svo eina leiðin var að keyra í nótt, eða bíða með aðgerð einmitt í 3 mánuði það var líka seinkun til Akureyrar en flugið þangað en ekki austur“

Svona er ástandið dag eftir dag og ekki hægt að bjarga nokkrum hlut. Hér þarf hið opinbera að grípa inní, eða byggja heilbrigðisþjónustu á Austurlandi þannig upp að hún nýtist íbúunum. Tekjuöflun Austurlands fyrir þjóðarbúið er margfalt það sem notað er á Austurlandi, náttúruauðlindir okkar nýttar þannig að allur arðurinn af þeim fer í þjóðarhítina en ekki ein króna kemur á Austurland.

Hvar er jafnræðið í þessu landi?

Björn Ármann Ólafsson
4.maður á lista Miðflokksins í Múlaþingi


Öxi – Þáttur samgangna í heilbrigðisþjónustu – Samgöngur og önnur þjónusta

Heilbrigðisþjónusta hefur verið þjappað í Heilbrigðisstofnun Austurland (HSA) og á eitt fjórðungssjúkrahús. Ef það dugar  ekki eru sjúklingar fluttir til Akureyrar í sjúkrabíl eða sjúkraflugi, eða  til Reykjavíkur með sjúkraflugi. Þetta segir okkur að samgöngur verða að vera í lagi, vegir opnir styðstu leið á heilsugæslu eða sjúkrahús. Samgöngur eru hluti heilbrigðisþjónustu á Austurlandi.

Öxi spilar stóran þátt í þessu. Vegalengd til Egilsstaða frá Djúpavogi er 85 km um Öxi en ef þú þarft að fara um firði þá eru það 152 km eða 67 km munur. Þegar farið er á Neskaupstað eru það 152 km um Öxi en 157 km um firði. Talað er um að Öxi sé fjallvegur og því geti brugðið til beggja vona um færð. En hæsti hluti Öxi er ekki nema 10 km og bara ófært í verstu veðrum sem er ekki daglegt brauð. Akstur um firði er um annes þar sem stormar eru algengir og oft ófært þess vegna, veginum lokað. Einnig falla skriður, krapahlaup og snjóflóð á þeirri leið. Þegar neyðin kallar er því nauðsynlegt að hafa fleiri enn einn möguleika á að komast í heilbrigðisþjónustu, annaðhvort á Fjórðungssjúkrahúsið eða með sjúkraflugi til Akureyrar. Fagridalur getur oft verið ófær vegna veðurs og þá oft skriðuhlaup í leysingum og einnig sjóflóð úr Grænafjalli sem gerist nokkrum sinnum á hverjum vetri.

Önnur öryggisþjónusta sem þarf að fara um þessa vegi eins og slökkvilið, þarf að komast  þá á sem skemmstum tíma. Aðalstöðvar Brunavarna Múlaþings eru á Egilsstöðum í samvinnu við brunavarnir á Egilsstaðaflugvelli og þjóna svæðinu frá Vopnafirði til Djúpavogs. Á stöðum eins og  Djúpavogi, Seyðisfirði. Borgarfirði eystri og Vopnafirði er aðeins búnaður fyrir fyrsta undirbúningsútkall meðan liðið frá Brunavörnum Múlaþings er á leiðinni. Vegur um Öxi tryggir að alltaf er möguleiki á fleiri en einni leið milli staða til að tryggja öryggi.

Auk þessa er Egilsstaðaflugvöllur mjög mikilvægur í heilbrigðisþjónustu og aðgengi að honum þarf því alltaf að vera tryggt.

Björn Ármann Ólafsson
4.maður á lista Miðflokksins í Múlaþingi


Sigmundur Davíð og Bergþór á ferð og flugi

Miðflokkurinn á undir högg að sækja og er magnað að fylgjast með hvernig pólitískt einelti viðgengst gegn góðum málflutningi Miðflokksmanna.  Þar leiðir RÚV eineltið, ýmist með þöggun eða japplar á síendurteknu efni.

Áður hefur á þessari síðu verið fjallað um vanhæfissirkusinn í Múlaþingi gegn Þresti Jónssyni, Miðfokksmanni í sveitastjórn, rugli sem engan endi virðist ætla að taka.  Meirihlutinn er kominn í bullandi vörn með málið og Innviðaráðuneytið reynir að kaffæra bjálfaganginn í flokksmönnum sínum, með 13 blaðsíðna greinagerð til sveitarfélagsins með engri vitrænni niðurstöðu um vanhæfi Þrastar. 

Barátta Miðflokksins í skipulagsmálum er að bera árangur, en fram að þessu hefur ekki verið tekið undir beiðni flokksins að setja málið í almenna kosningu, er varðar leiðarval umferðar um bæjarfélagið. 

Iðurlega er gert lítið úr málflutningi flokksmanna og síðan snúa andstæðingarnir skyndilega við blaðinu og gera málflutning Miðflokksins að sínum.

Um þetta og margt fleira verður fjallað um á sunnudaginn. 

Vertu velkominn.

 

Auglýsing Miðflokkur 145x108mm


Heilbrigðiskerfið – Sjúkratryggingar – Austurland

Staðreyndin varðandi heilbrigðiskerfið er að samgöngur eru orðnar hluti þess, vegna þess að það er bara í Reykjavík og á Akureyri sem hægt er að fá þjónustu sem virkar.

Á Austurlandi er Fjórðungssjúkrahús, þangað koma sérfræðingar frá Akureyri og Reykjavík til að þjónusta allt Austurland. Egilsstaðir, í póstnúmerinu 700 eru 3000 íbúar sem þurfa að sækja þessa þjónustu á Neskaupstað sem er 134 km fram og til baka. Sérfræðingur frá Akureyri kemur á Fjórðungssjúkrahúsið á Neskaupstað en þar hefur hann ekki þann búnað sem þarf til að ljúka þeirri rannsókn sem fer fram og ákveður því að sjúklingurinn verði að koma til Akureyrar til að hægt sé að ljúka henni. Úthlutað er tíma á Akureyri einum og hálfum mánuði síðar og sjúklingurinn verður að fara á þeim degi til Akureyrar og vona að veður og færð leyfi það, þar sem þetta er í janúarmánuði. Akstur til Akureyrar er fram og til baka 496 km. Sjúklingurinn hefur því ekið út af þessari rannsókn 630 km sem er jafn langt og önnur leiðin til Reykjavíkur. Sjúklingurinn þarf að hafa með sér fylgdarmann og gæti þurft að gista á Akureyri með auka kostnaði upp á ca. 25.000 kr.  Samkvæmt reiknivél Stjórnarráðs Íslands kostar þessi 630 km akstur 84.420 kr.  Hlutur sjúklings í komunni á Sjúkrahúsið á Akureyri er 16.787 kr. Þá er kostnaður við fyrstu mætingu á Neskaupstað ekki inni í dæminu. Samtals greiðir sjúklingurinn fyrir þessa rannsókn kr 101.207, þar sem hann slapp við að gista. Ferðin yfir fjöllin var mjög erfið vegna vetrarveðurs, en slapp til.

Síðan kemur að Sjúkratryggingum Íslands sem eiga að taka þátt í ferðakostnaði, en sú þáttaka er bara hluti af þeim kostnaði eða 31,34 kr/km núna í janúar eða 19.744 kr sem tæplega dugir fyrir eldssneyti. Alls konar takmarkanir eru á kostnaðarþáttöku SÍ, sem þýðir að einstaklingur á Austurlandi ber miklu hærri kostnað af heilbrigðisþjónustu en fólk í öðrum landshlutum, þrátt fyrir að tekjuöflun Austurlands í þjóðarbúið sé langt umfram það sem hið opinbera notar á Austurlandi (sbr skýrslu  HA june 26th 2013 on http://www.irpa.is)  Auk þessa þurfum við að búa við það að læknirinn á að sækja um endurgreiðsluna  en gerir það ekki nema með fortölum og eftirrekstri. Svo leyfa Sjúkratryggingar sér að véfengja þörfina fyrir að sækja heilbrigðisþjónustuna og beita öllum brögðum til að komast hjá því að borga. Þeir jafnvel brígsla þér um að þú sért að fjármagna skemmtiferð með þessari endurgreiðslu. Hvers eigum við að gjalda sem höldum að við búum í samfélagi jafnræðis og réttlætis.

Varðandi samgöngur sem eru hluti heilbrigðiskerfisins í dag,  þá er ekki farið í samgöngubætur nema mjög takmarkað og ef ákveðið er að fara í þær þá er þeim oftast frestað svo áratugum skiptir. Samgöngur í ólagi þýða engin heilbrigðisþjónusta.

Björn Ármann Ólafsson
4.maður á lista Miðflokksins í Múlaþingi

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband