24.3.2022 | 17:52
Egilsstaðaflugvöllur 2030?
Hvað segja Framsóknarmenn í Múlaþingi?
Hverju er Sigurður Ingi Jóhannsson ítrekað búinn að lofa með uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar?
Eru Framsóknarmenn í Múlaþingi sáttir við framgöngu formanns síns í flugvallarmálum?
Þögn Framsóknarmanna í Múlaþingi er ærandi, þegar kemur að flugmálum í sveitarfélaginu!
Hvassahraunsvöllur tilbúinn 2040? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.3.2022 | 14:33
Er Austurfrétt að hagræða í frétt?
Í Austurfrétt er fjallað um lið 6. Í fundargerð Sveitastjórnar Múlaþings 9.3. sl.
Fyrir lá erindi frá framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem komið er á framfæri samþykkt stjórnar Sambandsins, dags. 25.02.2022, þar sem tekið er undir yfirlýsingu Evrópusamtaka sveitarfélaga um að sveitarstjórnarmenn fordæmi brot á sjálfstæði og sjálfræði Úkraínu og lýsi yfir stuðningi og samstöðu með sveitarfélögum í Úkraínu og íbúum þeirra.
Þröstur Jónsson lagði fram eftirfarandi tillögu:
Sveitarstjórn Múlaþings harmar stríðsástand í Úkraínu sem og annars staðar í heiminu og lýsir yfir samkennd og samhug með almennum borgurum þar sem og annarsstaðar sem þurfa að búa við ofbeldi og yfirgang stjórnvalda, innlendra sem erlendra. Sveitastjórn Múlaþings hvetur alla deiluaðila að leggja niður vopn og setjast að samningaborði, hlusta á kröfur hvers annars, með hag og öryggi almennra borgara að leiðarljósi. Sveitarstjórn Múlaþings lýsir sig reiðubúna til að greiða götu fólks á flótta en leggur til að vanda sé til verka, þannig að fjármunir nýtist sem best í stuðningi við flóttafólkið.
Tillagan felld með 9 atkvæðum en 1 greiddi atkvæði með (ÞS), einn sat hjá (HHÁ).
https://www.austurfrett.is/frettir/sagdhi-fordaemingu-mulathings-gegn-russlandi-of-harkalega
Fréttin er hroðvirknislega unnin, m.a. er skrifað um að "bókun" hafi verið felld. Rétt er af fréttamanni að kynna sér muninn á bókun og tillögu.
Annað er ekki síður athyglivert. Ekki er tekið á þessum níu, sem vilja eingöngu bóka um hörmungar í Úkraínu, en ekki nefna það í sömu andránni að það eru hörmungar víðar, sem eru jafn skelfilegar og í Úkraínu. Flóttamenn að flýja heimalönd sín og eignir. Þeir eru jafnframt ofurseldir glæpagengjum, sem eru að innheimta gjald til að koma þeim á betri stað. Sumir ná aldrei landi.
Allir eiga rétt á friðsælu lífi.
Er það ekki útgangspunkturinn í tillögu Þrastar?
Eru flóttamenn ekki sama og flóttamenn?
Hvað með Jón og Séra Jón?
20.3.2022 | 11:02
Hin kalda hönd meirihlutans í Múlaþingi
Í miðju húsnæðisskorts taldi meirihlutinn í Múlaþingi vænlegast að rífa átta íbúðir til að byggja aðrar á sama stað. Ekki var hægt að sannfæra meirihlutann um að byggja fyrst íbúðir fyrir a.m.k. þá sem urðu að rýma umræddar íbúðir. Eftirfarandi eru um gjörninginn í nefnd bæjarfélagsins.
25. fundur Umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings 16. júní 2021 kl. 14:00 - 18:40 á Skjöldólfsstöðum
- Deiliskipulagsbreyting, Egilsstaðir, Lagarás 21-39
Málsnúmer 202101236
Fyrir umhverfis- og framkvæmdaráði liggja drög að uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á vegum Ársala bs. við Lagarás 21-39. Taka þarf afstöðu til málsmeðferðar. Málið var áður til afgreiðslu nefndarinnar þann 2. júní síðastliðinn og er tekið upp að nýju í samræmi við framkomnar upplýsingar.
Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkir að gerð verði óveruleg breyting á deiliskipulagi norðvestursvæðis Egilsstaða í samræmi við fyrirliggjandi tillögu og að fram fari grenndarkynning á áformum umsækjanda í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Kynnt verði fyrir eigendum við Blómvang 1, Lagarás 19, 22, 24 og 26, Hörgsás 2 og 4, Selás 25 auk Sóknarnefndar Egilsstaðakirkju. Umsagnaraðilar verði Öldungaráð Múlaþings, Brunavarnir Austurlands, HEF veitur, HAUST og Minjastofnun Íslands. Umhverfis- og framkvæmdaráð heimilar að kynningartími verði styttur í samræmi við 3. mgr. 44. gr. laga nr. 123/2010. Málinu er vísað til heimastjórnar Fljótsdalshéraðs til afgreiðslu.
Umhverfis- og framkvæmdaráð vísar innkomnum athugasemdum til stjórnar Ársala bs. til umfjöllunar.
Samþykkt með handauppréttingu, einn (ÁHB) sat hjá.
Áheyrnarfulltrúi Múlaþings leggur fram eftirfarandi bókun:
Á tímum skorts á húsnæði, er undarlegt að fara í að rífa húsnæði, sem gæti verið í notkun, til að rýma fyrir nýju á sama stað. Hér með er lagt til að allar hugmyndir um Lagarás 21-39 verði slegnar út af borðinu og farið í að vinna að byggingu á allt að sjö hæða fjölbýlishúsi með 25-30 íbúðum í mismunandi stærðum og fjölbreyttu notagildi. Slíkt fjölbýlishús mundi mæta þörf markaðarins um húsnæði og þörf eldri borgara, sem eru til í að minnka við sig.
B.V.W.
18.3.2022 | 17:28
Vegagerðin í (Teigsskógi) Egilsstaðaskógi
Nú hillir undir að löngu tímabær framkvæmd verði að veruleika, Seyðisfjarðagöng. Allir í Múlaþingi eru ánægðir með það. Hins vegar eru skiptar skoðanir með gangamunnann Héraðsmegin og hefur Miðflokkurinn gagnrýnt það harðlega að upphaflegri áætlun hafi ekki verið fylgt, að vera með gangamunnann við Steinholt. Farið er undan í flæmingi þegar spurt er: Af hverju er gangamunnanum valinn staður við Dalhús? Þröstur Jónsson bæjarfulltrúi hefur ítrekað kallað eftir svönum án þess að hafa erindi sem erfiði. Hann skrifaði á Facebook:
"Já ég gerðist "fúll á móti" í þessu máli og bókaði harðort á síðasta sveitastjórnarfundi. Alla framtíðarsýn vantar ef S-leið verður valin.
Meira að segja Vegagerðin sjálf var ekki búin að átta sig á hvað byggingaland ég hef verið að tala um. Þeir héldu (eins og margir) að ég væri að tala um Suðursvæðið. Það er af og frá. Ég er að tala um svæðið sunnan Selbrekku inn í skóginn sunnan Norðfjarðarvegar. Þarna eru fallegar hæðir og ásar sem flestir snúa til S, eða SV. Sennilega einar fallegustu byggingalóðir á landinu. Auk þess er þetta svæði mun veðursælla en áætlað byggingaland norðan Eyvindarár sem líður fyrir SA-vindinn ofan af Dölum.
Þetta eru svo magnað byggingaland að ef það væri vel auglýst mundi það trekkja að fólk til búsetu í Múlaþingi .. og það er akkúrat það sem okkur sárvantar.
Þá furða ég mig á afstöðu þeirra 2ja Borgfirðinga sem sitja í sveitarstjórn, sem ætla að mæla með S-leið. Þeir eiginlega með þessu svíkja sitt eigið samfélag á Borgarfirði. N-leiðin er sú leið sem færir Borgarfjörð Eystri nær miðju sveitarfélagsins, og opnar skemmtilega heildarsýn þegar/(ef) Vopnafjörður verður hluti af Múlaþingi, með göngum gegnum Hellisheiði. Að fara S-leiðina gerir Borgarfjörð enn afskekktari en hann er í dag.
Ég hrósa hinsvegar Helga Hlyn Ásgrímssyni fulltrúa Borgafjarðar í sveitastjórn, hjá VG, sem var ekki sáttur við hvernig sveitarstjórn rasaði að illa grundaðri ákvörðun.
Menn verða að hafa "gut" til að horfa fram í tímann 50-100 ár þegar slík ákvörðun er tekinn. Hver vill þá búa ofan í alþjóðaflugvelli með mikilli traffík. Nei er ekki betra að byggja upp atvinnustarfsemi í kringum Flugvöllinn og færa samgöngukerfið á sama stað ... til norðurs.
Hvort sem okkur líkar betur eða verr verður hafin olíuvinnsla út af NA-landi. Olíuhreinsistöð í Finnafirði og þyrluvöllur á Egilsstöðum munu verða sennilega afleiðingar þess. Þetta mun æpa á jarðgöng undir Hellisheiði milli Vopnafjarðar og Héraðs. Við slíka sviðsmynd þarf vart að nefna að Norðurleiðin er LEIÐIN. Viljum við eyðileggja þessa sviðsmynd með lítt grundaðri S-leið?
Veglínu N-leiðar þarf hinsvegar að laga, einkum neðst þar sem hún fer allt of nálægt bökkum Eyvindarár þar sem er íbúðarhverfi handan ár. Að auki á hún að sjálfsögðu að fara í löngum sveig lengra út á Eyvindarártún og mæta Nesvegi í hringtorgi þar sem núverandi gatnamót flugvallar-vegar eru.
Þá kæmi einnig til greina að fara með línuna út fyrir bæinn Eyvindará til að ná góðri tengingu við nýja Lagarfljótsbrú utan flugvallar og halda núverandi brú fyrir innanbæjar-umferð.
Til hvers að troða nýrri brú þar sem hún varla kemst fyrir innan núverandi brúarstæðis?
Til þessa er nægur undirbúnings-tími, þar sem það tekur mörg ár að sprengja göngin og því ekkert komið að gerð þess hluta vegarins.
Ekki sitja föst í úreltu aðalskipulagi, opnum það og breytum eins og þarf.
HUGSUM FRAM Á VEGINN, HUGSUM STÓRT, DREYMUM STÓRT.
Ekki kúldrast í smáskammtalækningum og skammtíma-lausnum."
Þröstur Jónsson bæjarfulltrúi í Múlaþingi
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 17:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.3.2022 | 18:15
Hið skítuga leyndarmál vindorkunnar
Eru vindmyllur grænar og hagkvæmur orkukostur?
Árið 2014 gaf Alþjóðlega orkustofnunin (IEA) út skýrslu er sagði að 0,46% af orkuþörf heimsins væri framleidd með vindorku. Árið 2018 var vindorka samkvæmt IRENA (International Renewable Energy Agency), 16% allrar loftslagsvænnar endurnýjanlegrar orku í heiminum. Samkvæmt tölum IEA hefur útblástur koldíoxíðs (CO2) per höfðatölu í Evrópu minnkað um 29% frá árinu 1990, samhliða aukningu orkuneyslu um 27%. Í Asíu hinsvegar hefur útblástur CO2 aukist um 134%, einkum vegna kolakynntra orkuvera og orkuneyslan aukist um 418%.
Á hverju ári er talið að orkuþörf heimsins aukist um 2%. Gefum okkur að grænu vindmyllur heimsins eigi að fóðra þessa árlegu aukningu. Dæmigerður þéttleiki vindmylla í vindorkugarði er talinn vera um 20-35 hektarar per megawatt. Því yrði að reisa fleiri hundruð þúsund vindmyllur ár hvert, sem myndi spanna landsvæði á stærð við Bretlandseyjar og um helmingi af núverandi árs kolaframleiðslu Evrópusambandsins þyrfti til að byggja þær. Og munið að þetta er eingöngu til að fóðra 2% árlegu orkuaukninguna, ekki til að taka yfir jarðefnaeldsneyti sem nú er notað til að fullnægja um 80% af orkuþörf heimsins.
Helvíti á jörðu
Eru vindmyllur í raun umhverfisvænar? Í segla hverfla (túrbína) vindmylla er notaður léttmálmurinn Neodymium sem framleiddur er að mestu í Kína, sem framleiðir um 90% allra fágætustu steinefna jarðar (rare earth metals). Tveir þriðju þeirra koma frá iðnaðarborginni Baotou í Innri-Mongólíu. Samkvæmt MIT er áætlað að í hverri 2 MW vindmyllu séu rúmlega 360 kg af Neodymium. Við vinnslu þess losnar geislavirkur úrgangur sem er meðal 7.000.000 tonna eiturefnaúrgangs á ári hverju, sem dælt er út í manngert, risastórt og sístækkandi stöðuvatn sem er lítið annað en svört leðja. Eiturefni og þungmálmar hafa smitast yfir í grunnvatnið þannig að hvorki menn, skepnur né plöntur þrífast þar, en Baotou gengur undir nafninu helvíti á jörðu.
Samkvæmt IAGS er áætlað að fyrir hvert tonn af unnum fágætum málmum er framleitt um eitt tonn af geislavirkum úrgangi.
Með háværari kröfum svokallaðra umhverfisverndarsinna um fleiri vindorkugarða hefur eftirspurnin eftir Neodymium rokið upp. Svo meðan mótmælt er hástöfum notkun á kjarnorku, olíu og kolum vegna þeirra neikvæðu áhrifa sem þau hafa á umhverfið, kjósa menn að horfa í hina áttina gagnvart þeim gríðarlegu og margfallt meiri umhverfisskemmdum sem framleiðsla vindmylla er.
Óstöðugar og tug milljónir tonna af úrgangi safnast upp
Vindmyllur eru yfirleitt hannaðar til að endast minnst 20 ár í erfiðu umhverfi eins og raka, hita, kulda, sandstormum og salti en þegar betur er skoðað er meðallíftíminn um 13-14 ár. Uppfæra þarf skrúfuna og blöðin á 10 ára fresti. Það veldur uppsöfnun þeirra sem oftast enda sem landfyllingarefni eða eru send til landa eins og Afríku. Þrátt fyrir að unnið sé að þróun grænstáls og endurvinnslu á spöðum þurfum við þó að horfast í augu við að fyrir árið 2050 munu safnast upp tug milljónir tonna af gömlum vindmylluspöðum.
2ja megawatta vindmylla er um 250 tonn að heildarþyngd (71-79% stál, 11-16% trefjagler, plast eða trjákvoða, 5-7% járn eða steypujárn, 1% kopar og 0-2% ál).
Til að búa til 1 tonn af stáli þarf u.þ.b. ½ tonn af kolum. 25 tonn í viðbót af kolum þarf til að framleiða sementið í undirstöðurnar. Þetta eru um 150 tonn af kolum per vindmyllu.
Spaðar vindmyllu eru framleiddir úr trefjagleri sem nánast útilokað er að endurvinna og yfir líftíma þeirra dreyfist ógrynni af örplasti og trefjum út í umhverfið.
Vindmyllur eru óstöðug orkuvinnsla og geta eingöngu fangað tæplega 60% vindorkunnar. Þá á eftir að reikna þá orku sem tapast vegna loftflæðis og þeirrar ókyrrðar sem túrbínan sjálf myndar, sem getur dregið framleiðsluna niður í 30-40%, þegar blæs. Annars stoppar hún!
Gylliboð erlendra auðhringja
Okkur Íslendingum er annt um ómengaða náttúru okkar og fuglalíf sem dregur til landsins milljónir ferðamanna árlega, auk þess sem við sjálf viljum njóta þessara gæða. Því er mikilvægt að standa í lappirnar gagnvart gylliboðum erlendra auðhringja til sveitastjórna víða um land, varðandi leyfi til að setja upp svo kallaða vidmyllugarða með tugi sjónmengandi vindmylla, með fölskum loforðum um bætt lífskjör og atvinnuuppbyggingu. Auk þessa stafar fuglalífi okkar veruleg hætta af þessu eins og verulegur dauði arna í Noregi hefur leitt í ljós.
Ísland er einhver ríkasta þjóð heims af umhverfisvænni og endurnýjanlegri orku sem aðrar þjóðir öfunda okkur af. Við seljum þekkingu á þessu sviði til annarra landa þeim til aðstoðar við uppbyggingu loftslagsvænnar orkuframleiðslu. Því er það merkileg staðreynd að vinstri öfl landsins eru á góðri leið með að friða stóran hluta okkar grænu orku svo við getum ekki nýtt okkur hana. En nýting þeirrar orku með tilheyrandi umhverfisvænum iðnaði væri okkar stærsta raunverulega framlag til að bæta loftslag heimsins.
Núna herja stórfyrirtæki eins og Qair Group á Ísland til þess að græða á loftlagsstefnu vinstri aflanna, sem þjóna hagsmunum okkar Íslendinga á engan hátt. Í þessu ljósi þykir mér fyrirsögn greinar Tryggva Þórs Herbertsonar, framkvæmdastjóra Qair Iceland Vindur á Íslandi leysir kolabrennslu í Evrópu af hólmi umhugsunarverð en óskynsamleg og óraunhæf, en sýnir þó að taka þarf þessum hugmyndum um mengandi vindmyllur alvarlega því erlendir aðilar með íslenskum leppum eru farnir að sýna þessu áhuga víða um land með tilheyrandi þrýstingi og fagurgala. Ekki verður þörf fyrir þessa dýru vindorku innanlands svo þessir aðilar munu leita allra leiða til að flytja orkuna úr landi með sæstrengjum fjármögnuðum af öðrum aðilum.
Leggja ber heldur áherslu á að ljúka þróun á djúpborunarverkefnum til umhverfisvænnar orkuvinnslu sem hefur litla sem enga sjónmengun í för með sér í náttúrunni.
Já horfum okkur nær: Það er hinn sári sannleikur að umhverfisvernd hefur lítið að gera með að bjarga umhverfinu því menn eru allt of viljugir að fórna umhverfinu fyrir hugmyndafræði sína. (Damien Murphy)
Því var áhugavert að heyra Bjarna Benediktson formann sjálfstæðismanna lýsa því yfir í leiðtogaumræðum á RÚV þann 31. ágúst síðastliðinn að vindorka sé eitthvað sem þurfi alvarlega að skoða hér á landi í tengslum við græna orkugjafa.
Miðað við þróun loftlagsmála- og náttúruverndarhugmynda hér á landi um nokkurt skeið óttast ég framtíðina á meðan haldið verður áfram að kasta skynseminni á dyr fyrir hugmyndafræðina eina.
Ágústa Ágústsdóttir
Höfundur skipar 4. sæti á lista Miðflokksins í Norðausturkjördæmi.
https://www.visir.is/g/20212154651d/hid-skituga-leyndar-mal-vindorkunnar
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 18:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.3.2022 | 13:35
Brýrnar í Austurlandskjördæmi, ekki í Madison County
Vegakerfið okkar er nokkuð þolanlegt, en brýr ekki að sama skapi í takt við tímann.
- Lagarfljótsbrúin er í grunnin frá 1905, endurbyggð 1906 og gerð tvíbreið 1958. Brúin er háð þungatakmörkunum og er til ama fyrir eigendur þungavinnuvéla, sem flytja þarf á milli staða og þarf í nokkrum tilfellum að fara um Lagafossvirkjun til að koma þungu milli Fellabæjar og Egilsstaða. Aðal vandamál brúarframkvæmda eru undanfarnar bæjarstjórnir á Mið-Héraði, sem ekki geta höggvið á þann Gordíonshnút sem búið er að hnýta svo hressilega, um hvar brú yfir Lagarfljótið á að vera í framtíðinni. Það setur jafnframt lengingu Egilsstaðaflugvallar í uppnám, vegna þess að ekki er hægt að lengja flugvöllinn, nema færa Þjóðveg eitt um einn kílómeter til suðurs.
- Brúin á Gilsá í Skriðdal byggð 1958 og er einbreið og háð þungatakmörkunum.
- Jökulsá á Fjöllum á Þjóðvegi eitt, einbreið hengibrú byggð 1947.
- Brú í Öxarfirði, einbreið hengibrú byggð 1957.
- Brýr í Fjarðabyggð á Þjóðvegi eitt. Einbreiðar brýr og háðar þungatakmörkunum á Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði og Breiðdal.
Þetta er hluti af vandamálum fjórðungsins og verður á verkefnalista Miðflokksdeildarinnar í Múlaþingi að þoka áfram.
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 13:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.3.2022 | 10:21
Orkuveita Múlaþings
Á fundi fundur Atvinnu- og menningarnefndar á Egilsstöðum haldinn 11. febrúar 2019, hvatti fulltrúi Miðflokksins til að gerð yrði ítarleg könnun á því, hvort hagkvæmt gæti verið að útvíkka starfsemi HEF (Hitaveitu Egilsstaða og Fella) þannig að til verði öflugt fyrirtæki, Orkuveita Fljótsdalshéraðs.
Í greinagerð var lagt til að starfsemi veitunnar tæki til eftirfarandi þátta; hitaveitu, kaldavatnsveitu, skólpveitu og gagnaveitu. Viðbótin átti að vara að bæta við starfsemi sína rafveitu.
Jafnframt var fjallað um það í greinagerðinni að Fljótsdalshérað hafi borið skarðan hlut frá borði vegna virkjunar Kárahnjúka, þrátt fyrir að leggja til landsvæði undir mikil mannvirki og uppistöðulón í sveitarfélaginu og þar að auki að taka við forugu vatni frá stíflunni, sem rennur til sjávar í gegnum Fljótsdalshérað endilangt.
Þótt seint sé, væri ekki nema sanngjarnt að sveitarfélagið fái fyrir það frekari bætur. Sanngjarnar bætur gætu m.a. falið í sér að Grímsár- og Lagarfossvirkjun yrðu lagðar inn í slíkt verkefni. Vegna jarðgangagerðar til Seyðisfjarðar, gæti skapast tækifæri til virkjunar og rétt að hafa í huga við hönnun þeirra, að skoða möguleika á virkjun inni í þeim göngum. Jafnframt verði kannað til þaula um öflun frekari orku í verkefni um smávirkjanir, í samráði við landeigendur og til hagsbóta fyrir svæðið allt, sem hugsanlega verður sameinað innan tíðar.
Sameiningin átti sér stað og því ekkert mál að aðlaga nafnið í Orkuveitu Múlaþings, en sveitastjórn tók sér ár í að koma erindinu til H.E.F., sem vísaði því til ákvarðanatöku eigenda Hitaveitunnar. Sem fyrr var lítið um ákvarðanatöku, enda stjórnendur sveitarfélagsins með eindæmum ákvarðanafælnir, nema þegar eyða á fé samborgaranna í verkefni sem engu meira skila til baka þó valin hefði verið ódýrari leið.
Nú hellist yfir sveitarfélagið óskir um raforkuframleiðslu í ám og með vindorku. Nú hefði verið gott að vera með styrka stoð, sem hefði verið í stakk búið að taka þátt í þeim verkefnum og byggja undir ný fyrirtæki sem nýta raforku og til orkuskipta.
Því miður eru of margir eins og konan sem sagði:
Ég skil ekkert í þessu fjasi um virkjanir, það er nóg rafmagn í tenglinum heima hjá mér.
13.3.2022 | 09:19
Sjúkrahús á Egilsstöðum
Fulltrúi Miðflokksins í Atvinnu- og menningarnefnd flutti tillögu í nefndinni.
"Tillaga um sjúkrahús á Egilsstöðum
Fundur Atvinnu- og menningarnefndar, haldinn 13. maí 2019, hvetur til að láta kanna möguleika á því að byggja sjúkrahús á Egilsstöðum, þar sem svipuð þjónusta yrði í boði og er á Ísafirði, Akureyri og í Vestmannaeyjum. Sérstaka áherslu skal lögð á að þar verði fullbúin bráða- og greiningadeild fyrir bráðveika og slasaða. Þar verði einnig sérfræðingasetur, þar sem fullkomin aðstaða verði fyrir sérfræðinga, sem koma að til að og sinna sjúklingum og sérstaklega til að hvetja þá sérfræðinga og styðja, sem vilja setjast hér að."
Ekki var hægt að samþykkja þessa tillögu, en sveitastjórnafulltrúi Sjálfstæðis flokksins hefur síðan verið að klifa á því að á Egilsstöðun væri "með bættum tækjakosti sé hægt að greina bráðavanda betur og senda veika beint í sjúkraflug suður", sem er að sjálfsögðu frábært fyrsta skref.
Þessi hugsun fellur ekki í kramið hjá stjórnendum H.S.A. þar sem ekki má hrófla við neinu innanhúss.
Réttur íbúa fjórðungsins víkur hér fyrir gamaldags hugsunarhætti.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2022 | 00:08
Hágæðaflugvöllur og hátæknisjúkrahús
Svo merkilegt sem það kann að hljóma þá virðist það vera í huga margra að þar sem sjúkrahús er staðsett þar skuli einnig vera fullbúinn flugvöllur. Víðast á Íslandi er þetta þannig.
Einn staður sker sig þó allhressilega úr, með einn best útbúna flugvöll á Íslandi en einungis slitrur af heilsugæslustöð. Flugvöllurinn er ekki grafinn milli hárra fjalla, hann er með þægilegt aðflug inn á báða enda og ekki er sérstök þörf á að koma ILS-aðflugi inn á þann enda, þá flogið er úr norðri. Flugvöllurinn er malbikaður og vegna aðstæðna í landslaginu er hann sá flugvöllur sem sjaldnast er ófær veðurfarslega séð, ef frá er talinn Keflavíkurflugvöllur. Keflavíkurflugvöllur hefur nauman vinning, eingöngu vegna þess að þar eru tvær flugbrautir. Ef Keflavíkurflugvöllur væri einungis með eina flugbraut stæði hann að baki þeim flugvelli sem hér er til umræðu.
Heimabær umrædds flugvallar er þannig í sveit settur að þar eru allar gerðir af náttúruvá í lágmarki, nema hugsanlega skógareldar. Hverfandi áhætta er af ágangi sjávar og hækkuð sjávarstaða mun seint hafa áhrif þar. Skriður, jarðskjálftar, eldgos, aur- og snjóflóð eru nær óþekkt á svæðinu. Vatnsflóð hafa ekki teljandi hættu í för með sér, þótt áður fyrr hafi þau haft lítilsháttar truflandi áhrif á dagleg störf íbúa svæðisins, en fráleitt lífshættu í för með sér. Þakplötur hafa þar ekki fokið síðan rifflaður þaksaumur var fundinn upp. Staðurinn er þar af leiðandi ekki einungis kjörinn til að taka víð íbúum annarra svæða þegar framangreindar hamfarir, einar eða fleiri hella sér yfir, heldur ætti það að vera markmið stjórnvalda að búa svo um hnútana að íbúar þessa lands ættu sér athvarf þar þegar náttúruvá knýr upp á hjá þeim. En merkilegt nokk þar er ekkert sjúkrahús.
Stefna stjórnvalda, eins og allir vita, er að koma allri stjórnsýslunni, menntastofnunum, menningarstofnunum, heilbrigðiskerfinu, almannavörnum o.s.frv. inn á eitt eldvirkasta landsvæði á Íslandi. Hver er rýmingaráætlun Reykjavíkur og nágrennis ef og þegar til hamfara kemur? Er það um Hvalfjarðargöngin einföld eða tvöföld? Er það um flugvöllinn í Hvassahrauni? Er það um ófæra Hellisheið eða Þrengsli. Hver er ábyrgur fyrir lífi og limum Reykvíkinga?
Er ekki rétt að staldra ögn við í þeirri vinnu að byggja nánast eingöngu upp í Reykjavík? Fram að þessu hefur Excel-sértrúarsöfnuðurinn haft það eina markmið að færa allt til Reykjavíkur án þess að þar hafi farið fram áhættumat á því fyrir íbúa þess svæðis, fyrirtæki né stofnanir. Það má varla skipta um þvottaefni á almenningssalerni úti á landi, án þess að gera um það áhættumat. Hvar er aðgengilegt áhættumat fyrir Reykjavík og nágrenni? Hvernig hefur það verið kynnt íbúum?
Hagkvæmni stærðarinnar er gjarnan flaggað til að rökstyðja samþjöppun valds og stofnana, en aldrei er fjallað um neitt í víðara samhengi, eins og aðgengi annarra íbúa landsins að þjónustu á vegum ríkisins. Þar eiga íbúar landsbyggðarinnar engan kassa í Excel-skjölum, enda er ævinlega lagt upp með fyrirframgefnar niðurstöður til að fá heppilega lausn. Ferðakostnaður eru fjármunir sem renna beint úr vasa skattgreiðenda utan höfuðborgarsvæðisins og ættu, jafnræðisreglum samkvæmt, að vera a.m.k. frádráttarbærir til skatts, nema allar slíkar ferðir væru greiddar af almannafé vegna ferða í stofnanir sem ekki hafa starfsstöð innan eitt hundrað kílómetra radíuss frá heimili íbúans.
Aftur að upphafi þessarar greinar. Bæjarfélagið sem hér er um rætt heitir Egilsstaðir. Flugvöllurinn er góður og væri enn betri ef hann væri lengdur strax, eins og áformað er, í tvö þúsund og sjö hundruð metra og breikkaður í sextíu metra. Leitun er að betri aðstæðum fyrir varaflugvöll á Íslandi, sem jafnframt er í fullum rekstri. Með markvissum hætti yrði lággjaldaflugi frá Evrópu vísað þangað til að minnka kolefnisspor ferðamanna á Íslandi. Egilsstaðir yrðu auk þess skilgreindir sem varahöfuðborg Íslands og fengju þar af leiðandi sérstaka meðhöndlun sem slík, t.d. með fullkomnu sjúkrahúsi og útstöðvum fyrir helstu stofnanir ríkisins.
Vandamálið í stóra samhenginu er Framsóknarflokkurinn og Vinstri Grænir. Framsóknarflokkurinn með Sigurð Inga Jóhannsson í samgönguráðuneytinu hefur ítrekað lofað framkvæmdum og jafnoft svikið þau. Þegar Öryggisnefnd íslenskra flugmanna varaði sterklega við að yfirborð flugbrautarinnar væri orðið stórhættulegt í bleytu var drifið í að setja á brautina nýtt yfirborð svo ekki þyrfti að takmarka flug við smærri vélar.
Vinstri Grænir er hér á heimavelli að vera á móti framförum og uppbyggingu. Þeir eru kolfastir í gömlu úreltu kerfi. Framsýni og heilbrigð hugsun er ekki til í orðabók þeirra en bera af öðrum í tvískinnungi.
BVW
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
10.3.2022 | 11:59
Fjarðarheiðagöng til Seyðisfjarðar
Á fundi sveitastjórnar Múlaþings, 9.3.2022 var farið yfir kynningarfund sem sveitarstjóri, fulltrúar í sveitarstjórn og umhverfis- og framkvæmdaráði áttu með fulltrúum Vegagerðarinnar, föstudaginn 4. mars sl., þar sem umfjöllunarefnið var aðalvalkostir Vegagerðarinnar og umhverfismat vegtenginga við fyrirhuguð Fjarðarheiðargöng.
Sveitarstjórn Múlaþings Þakkaði þá vönduðu vinnu er Vegagerðin hafði staðið fyrir varðandi umhverfismat og valkosti varðandi mögulegar vegtengingar við Fjarðarheiðargöng. Eitt og annað í þeirri vinnu heldur þó ekki vatni.
Umræður urðu um málið og greinilegt að samhljómur var með öllum nema fulltrúa Miðflokksins. Ekki er annað að sjá að meirihluti sveitastjórnar Múlaþings hafi ekki nokkra framtíðarsýn fyrir framtíðarskipulagi og sé þar að auki sama um að þverskera framtíðar útivista- og byggingasvæði í landi Egilsstaða.
Meirihluti sveitarstjórnar lýsti síðan yfir stuðningi við þær niðurstöður er koma fram í vinnugögnum varðandi verkefnið og leggur áherslu á að Skipulagsstofnun hraði afgreiðslu umsagnar vegna umhverfismatsskýrslu framkvæmdarinnar eins og frekast er unnt þannig að formlegt kynningarferli geti hafist sem fyrst.
Þröstur Jónsson, fulltrúi Miðflokksins, lagði fram eftirfarandi bókun:
Ég lýsi undrun minni á bókun sveitarstjórnar sem hrasar að þeirri ályktun að val Vegagerðarinnar á Suðurleið sé rétt áður en endanleg skýrsla er komin út og áður en nokkur umræða hefur farið fram um þetta stóra mál í samfélaginu.
Það eru mér mikil vonbrigði að Vegagerðin virðist ekkert tillit hafa tekið til athugasemda minna um verðmætt íbúðabyggingaland sem veglína Suðurleiðar sker og eyðileggur.
Það er í verkahring kjörinna fulltrúa að ákveða hvaða leið verður valin, en ekki embættismanna ríkisstofnunar.