Múlaþing. Á að hengja bakara fyrir smið eða skjóta sendiboðann?

Meirihlutinn í Múlaþingi eru í sérkennilegri vegferð gegn heilbrigði umræðu og ákvarðanatöku og var það tilefni greinar í Austurfrétt.  Er meirihlutinn í Múlaþingi að fara á skjön við stjórnarskrá Íslands og þverbrjóta grein hennar um tjáningar- og skoðanafrelsi?

 

Harðar deilur um hæfi fulltrúa í umræðum um veglínur frá Fjarðarheiðargöngum

Austurfrétt •Höfundur: Gunnar Gunnarsson • Skrifað: 06. júlí 2022.

Tveir fulltrúar Miðflokksins í ráðum Múlaþings voru í gær ákvarðaðir vanhæfir vegna ættartengsla af meirihluta ráðum í málum sem snúa að veglagningu frá Fjarðarheiðargöngum á Héraði. Fulltrúarnir eru ósammála og hafa ákveðið að leita réttar síns hjá innanríkisráðuneytinu. Minnihlutinn gagnrýndi málsmeðferðina við umræður í sveitarstjórn.

Málið kom fyrst upp á sveitarstjórnarfundi fyrir viku þar sem vakin var athygli á mögulegu vanhæfi Þrastar Jónssonar, fulltrúa Miðflokksins. Þröstur er bróðir Gunnars Jónssonar, bónda og skráðs eiganda Egilsstaðabýlisins en mögulegar veglínur liggja bæði um land þess sem og Dalhúsa, sem býlið á hluta í.

Þröstur er einnig áheyrnafulltrúi í byggðaráði. Þar var hann ákvarðaður vanhæfur í atkvæðagreiðslu í gær. Þriðji bróðirinn, Sveinn, sat fund umhverfis- og framkvæmdaráðs í gær sem áheyrnarfulltrúi Miðflokksins og var einnig ákvarðaður vanhæfur.

Deilur hafa verið um veglínurnar. Væntanlegur munni Fjarðarheiðarganga verður í landi Dalhúsa en þaðan liggja vegir annað hvort beint í Egilsstaði, norður fyrir þéttbýlið eða suður fyrir. Fulltrúar Miðflokksins hafa talað fyrir Norðurleiðinni meðan samstaða hefur virst meðal annarra fulltrúa í sveitarstjórn um Suðurleiðina, sem Vegagerðin mælir með. Allar leiðirnar liggja að einhverju leyti um land Egilsstaðabýlisins.

Um vanhæfi
Um vanhæfi fulltrúa í sveitarstjórnum og ráðum er fjallað í 20. grein sveitarstjórnarlaga. Er þar talað um að fulltrúar teljist vanhæfir til að fjalla um mál sem varði náið venslafólk sem þeir séu skyldir í beinan legg, eins og í þessu tilfelli. Síðan er bætt við um að vanhæfið eigi við ef ætla megi að viljaafstaða fulltrúans mótist af einhverju leyti þar af. Tekist er á um þessa túlkun.

Samkvæmt lögunum er ætlast til þess að fulltrúar veki sjálfir máls á vanhæfi, án tafar. Sé vafi um vanhæfi eru greidd um það atkvæði. Má fulltrúinn þá ekki hafa áhrif á meðferð eða afgreiðslu málsins með neinum hætti og skal ávallt yfirgefa fundarsal.

Ströng túlkun á líkum á vanhæfi
Á sveitarstjórnarfundinum lá fyrir álit lögfræðings Múlaþings, Jóns Jónssonar, á hæfi Þrastar. Í áliti sínu tekur lögfræðingurinn tvö dæmi. Annað er úrskurður ráðuneytis um hæfi fulltrúa í Mýrdalshreppi frá 2009, oft notað sem dæmi fyrir sveitarstjórnarfólk. Þar átti fulltrúi tvær jarðir sem tengdust veglínum sem meta þurfti inn á aðalskipulag. Ráðuneytið taldi að landareign ein og sér við meðferð almenns máls sem aðalskipulags ylli ekki vanhæfi. Hins vegar gæti verðmætarýrnun eða aukning eignanna ráðið viljaafstöðu og þar með valdið vanhæfi, þótt ekki lægi fyrir hve mikil hún væri.

Hitt dæmið var úrskurður Úrskurðarnefndar í umhverfis- og auðlindamálum frá 2020 um hæfi fulltrúa hjá Reykhólahreppi í máli Teigsskógar. Var þar horft til þess að um væri að ræða fámennt sveitarfélag og framkvæmd sem skipti alla íbúa þess máli. Hagsmunir fulltrúar í því máli voru ekki taldir það ríkir að þeir kölluðu á vanhæfi.

Í áliti sínu segir lögfræðingur Múlaþings að val á veglínum geti falið í sér umtalsverða fjárhagslega hagsmuni fyrir landeigendur á svæðinu, fyrir utan önnur áhrif framkvæmda. Lögfræðingurinn segir ekki verið að ræða almennt skipulag heldur einstakar veglínur og umfangið sé slíkt að það geti haft „einhver áhrif“ á afstöðu skyldmenna Þrastar. Eins geti þátttaka fulltrúar í afgreiðslunni „valdið efasemdum út á við“ vegna tengslanna. Lögfræðingurinn telur því „nokkrar líkur“ á að Þröstur teldist vanhæfur. Mögulegt vanhæfi Sveins sé á sömu forsendum.

Samkvæmt gögnum sem Austurfrétt hefur undir höndum óskaði Björn Ingimarsson, sveitarstjóri, eftir álitinu þann 22. júní síðastliðinn og það barst daginn eftir. Á fundinum þann 29. júní var málinu frestað, eftir miklar umræður og gagnrýni og leitað álits lögfræðings Sambands íslenskra sveitarfélaga. Sá svarar degi síðar að lögmaður sveitarfélagsins hafi náð vel utan um máli en bætir við að Mýrdalsmálið gefi efni til að Múlaþing beiti „fremur strangri túlkun“ í sínu máli.

Skammur fyrirvari
Á sveitarstjórnarfundinum í síðustu viku sagðist Þröstur fyrst hafa heyrt af því rúmum sólarhring fyrir fund að fyrir lægi álit um hæfi hans. Hann kvaðst hafa mætt til fundar með forseta sveitarstjórnar, sveitarstjóra og lögmanninum með sinn eigin lögmann sem lagt hefði fram aðra túlkun og að meira væri gert úr málinu en efni væru til.

Þröstur sagði blóðtengsl ein ekki duga til vanhæfis, heldur yrði hann að hafa verulega hagsmuni af tengslunum. Þeir væru ekki til staðar, hann væri til dæmis ekki lögerfingi af jörðunum. Hann varaði við að málið gæti gefið hættulegt fordæmi. Hægt væri að ræða vanhæfi í ýmsum öðrum málum þar sem tengingar fulltrúa veittu oft dýrmæta þekkingu við umræðurnar.

Fulltrúar minnihlutans sögðust aðeins hafa verið látnir vita af mögulegu vanhæfi kvöldið áður og gagnrýndu harðlega hversu langur tími hefði liðið frá því álitið lá fyrir þar til annars vegar Þresti sjálfum var tilkynnt um það, hins vegar þeim.

„Það er með ólíkindum að Þröstur hafi heyrt af þessu fyrst í gær. Ég skil ekki hvað fólki gengur til að ræða málið ekki fyrst við hann heldur fela lögmanni að vinna álitið,“ sagði Helgi Hlynur Ásgrímsson, fulltrúi Vinstri grænna. Hann gagnrýndi einnig að keypt hefði verið vinna af lögmanni sem starfi á einkastofu og selji sveitarfélaginu vinnu sína samkvæmt tímaskýrslu frekar en leita beint til Sambands sveitarfélaga.

„Ég er rasandi bit yfir þessu. Mér finnst fyrir neðan allar hellur að þeir aðilar sem álitið fjallar um fái ekki að vita af þessu fyrr. Síðan er búinn að vera oddvitafundur, minnihlutafundur, meirihlutafundur. Þessi vinnubrögð eru ekki til neinnar fyrirmyndar,“ sagði Eyþór Stefánsson, Austurlista.

Opnun ormagryfju?
Eyþór benti einnig á að fulltrúar sem tengdust ættinni hefðu áður ekki talist vanhæfir í umfjöllun um skipulagsmál Egilsstaðaþorps þótt býlið nánast umlyki það. Sjálfur var Gunnar bæjarfulltrúi á árunum 2006-2020, þar af áratug í meirihluta. „Ég velti fyrir mér hvaða ormagryfju við kunnum að vera opna ef ef þeir sem hafa tengsl við Egilsstaði mega ekki hafa skoðun á skipulaginu á Egilsstöðum.“ Ívar Karl Hafliðason, Sjálfstæðisflokki, sagði mikilvægara að horfa fram á við og gera hlutina rétt héðan í frá frekar en hugsa um fortíðina.

Bæði Eyþór og Helgi Hlynur bentu einnig á að Þröstur hefði haft uppi hvað harðasta gagnrýni á Suðurleiðina innan sveitarstjórnarinnar. Að úrskurða hann vanhæfan nú, þegar málið hafi verið til meðferðar í tvö ár, líti út eins og verið sé að þagga niður í gagnrýni. Þeirra mat væri að afstaða Þrastar markaðist ekki af tengslunum. „Ég held að Þröstur hafi fengið brautargang inn í sveitarstjórn vegna þessa máls. Það er mjög alvarlegt ef við ætlum að þagga niður í þeirri rödd,“ sagði Helgi Hlynur.

Ásrún Mjöll Stefánsdóttir, fulltrúi VG, spurði út í hvers vegna Þröstur hefði ekki fengið að vita af álitinu fyrr og hvers vegna frekar hefði verið leitað til lögmanns sveitarfélagsins fremur en Sambandsins. Björn svaraði að almennt hefði verið leitað til lögmanns sveitarfélagsins í álitamálum, það væri ekki nýtt. Ekki væri nýtt að vanhæfi fulltrúa vegna fjölskyldutengsla væri rætt og þeir þyrftu að víkja. Björn sagði sér hafa borist umræða um mögulegt vanhæfi og hann þá lagt til að fá álitið. Að lokinni kynningu á því fyrir meirihlutanum hafi honum verið falið að ræða við Þröst. Það hafi hann reynt tveimur dögum fyrir fundinn en þeir ekki náð saman.

Nauðsyn að fá vissu
Þröstur, sem aðrir fulltrúar minnihlutans, sögðu lögfræðiálitið loðið og enga skýra niðurstöðu að finna í því. Fulltrúar meirihlutans vöruðu við mögulegt vanhæfi gæti valdið því síðar meir að ferlið yrði ógilt. Slíkt gæti reynst bagalegt á sama tíma og verið sé að reyna að herða á gangnagerðinni. Þeir sögðu einnig að málið væri nú komið á annað stig, af kynningarferli yfir í að taka þyrfti bindandi ákvarðanir og það yrði þar með viðkvæmara. „Við viljum vera viss um að ekkert geti komið aftan að okkur um að málsmeðferð sveitarfélagsins sé ekki eins og vera ber,“ sagði Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar og oddviti Framsóknarflokks. „Þótt blóðið sé ekki alltaf þykkt er almennt litið svo á að einhver tengsl geti haft áhrif,“ bætti hún við.

Fulltrúar meirihlutans sögðu engan skemmtun að þurfa að taka þessa ákvörðun. Þeir höfðu ásökunum um að verið væri að þagga niður gagnrýni, þeir gerðu sér vel grein fyrir alvarleika þess að hindra hæfan fulltrúa til umræðu með vanhæfisákvörðun, nokkuð sem Þröstur hafði eftir sínum lögmanni að væri enn alvarlegra en að vanhæfur fulltrúi tæki þátt. Meirihlutinn benti hins vegar á að Þröstur ætti rétt á að kalla til varamann sem fylgt gæti eftir stefnu Miðflokksins.

„Það er ótrúlegt hve stór orð falla hér, um að við í meirihlutanum séum að leggja upp eitthvert leikrit. Það er ekki í gangi. Því fer fjarri að það sé það sé óskhyggja okkar að Þröstur sé vanhæfur,“ sagði Berglind Harpa Svavarsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins sem jafnframt lét þess getið að ýmsar ábendingar Þrastar í umræðum hefðu bætt málsmeðferðina. Það breytti því þó ekki að fara þyrfti að lögum. Helgi Hlynur svaraði því að stór orð væru eðlileg. „Þótt fólki gangi gott eitt til þá er þetta léleg framkvæmd.“

Leita úrskurðar ráðuneytis
Við umræðurnar bar Eyþór upp tillögu að umræðu yrði frestað. Sex greiddu atkvæði með henni, fimm sátu hjá. Í kjölfarið var sem fyrr segir leitað álits lögfræðings Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það lá fyrir þegar umhverfis- og framkvæmdaráð annars vegar og byggðaráð hins vegar funduðu í gær. Á fundum þeirra beggja greiddu atkvæði Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Austurlista atkvæði með vanhæfi bræðranna Þrastar og Sveins en fulltrúar VG sátu hjá.

Í bókunum bræðranna segir að ráðin hafi kosið þá vanhæfa, þrátt fyrir aðvörun lögfræðings sambandsins um að túlka skuli lög um vanhæfi strangt (þröngt). Þeir lýsa því yfir að þeir muni leita úrskurðar innanríkisráðuneytisins eða eftir föngum dómstóla og þar til endanleg niðurstaða fáist sé eðlilegt að fresta allri frekari málsmeðferð. Ábyrgð þeim sem töfum sem það geti valdið á verkinu sé alfarið þeirra sem greitt hafi atkvæði með vanhæfinu.

Í bókun Þrastar tekur hann enn fremur fram að ekkert hafi komið fram í hans tilfelli sem sýni að afstaða hans kunni sérstaklega að mótast af blóðböndunum, sem ein og sér dugi ekki til vanhæfis. Þá telur hann það til vansa að kosningu um vanhæfi hans hafi verið frestað á opnum sveitarstjórnarfundi en fari fram á lokuðum fundi byggðaráðs.

Hjá byggðaráði var vanhæfið afgreitt þegar tekin var til umræðu bókun heimastjórnar Seyðisfjarðar til sveitarstjórnar Múlaþings um að hraða ákvörðun leiðarvals frá gangamunna Héraðsmegin svo framkvæmdir tefjist ekki. Bókunin var lögð fram til kynningar. Örn Bergmann Jónsson, varafulltrúi, sat liðinn í stað Þrastar.

Á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs lá fyrir vinnslutillaga um breytingu á aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs vegna ganganna. Samþykkt var samhljóða að auglýsa og kynna tillöguna, með því skilyrði að Vegagerðin leggi fram upplýsingar um tilfærslu á suðurleið sem kynnt hafi verið kjörnum fulltrúum á fundi í síðustu viku og henni bætt inn í tillöguna. 

 

https://www.austurfrett.is/frettir/hardhar-deilur-um-haefi-fulltrua-i-umraedhum-um-veglinur-fra-fjardharheidhargoengum

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband