Beitir Múlaþing íbúa sína skoðanakúgun?

fréttin 3.júlí 2023:

 

Í nýlegri auglýsingu Múlaþings vegna aðalskipulagsbreytingar, virðist sveitarfélagið ákveða skoðanir íbúanna með niðurlagsorðnum:

"Hver sá sem eigi gerir athugasemdir við tillöguna fyrir tilskilinn frest telst samþykkur henni".

Framar í auglýsingunni kemur réttilega fram skv. skipulagslögum:

"Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna".


Af þessum tveim setningum virðist sem sveitarfélagið Múlaþing hafi tekið sér óumbeðið forsjárvald yfir skoðunum fólks um aðalskipulagsbreytinguna, sérstaklega þeirra sem ekki geta skilað athugasemdum vegna hagsmunaleysis.

Sveitarstjórnarfulltrúi minnihluta Þröstur Jónsson, vekur athygli á þessu í fésbókarfærslu síðastliðinn sunnudag.

Um mjög umdeilda aðalskipulagsbreytingu er að ræða vegna svo nefnds leiðarvals frá Fjarðarheiðargöngum til Egillsstaða.

Meðal annars hefur komið fram í skoðanakönnun Gallups að mikill meirihluta íbúa á svæðinu er á móti þessari aðalskipulagsbreytingu og á annað hundrað íbúa hafa mótmælt leiðarvali sveitarstjórnar skriflega. Þá hefur Skipulagsstofnun gagnrýnt leiðarvalið sem skipulagsbreytingin nær til (sjá tam. kafla 5).

Fréttin sló á þráðinn til Þrastar og spurði hann út í fésbókarfærsluna.

Þröstur segir að Leiðalvarsmálið allt vera litað af skoðanakúgun, tilraunum til þöggunar og því hefði verið þrýst í gegnum umhverfis- og skipulagsráð án nauðsynlegrar umræðu. Þetta kristallist ekki síst í auglýsingum þar sem reynt er að taka forræði yfir skoðunum íbúa.

Þröstur telur að listi Framsóknarflokks fari fram með offorsi í þessu máli, og segist hafa það á tilfinningunni að Sjálfstæðismenn sem sitja í meirihluta með Framsókn fylgdu margir hverjir Framsókn með óbragðið í munninum.

Þá segir Þröstur að meirhlutinn hefði valið svo kallaða Suðurleið sem væri skipulagslegt og umhverfislegt stórslys í sveitarfélaginu, og rýrði mjög virði Fjarðarheiðarganga sem tækifæri til kröftugrar atvinnu-uppbyggingar á svæðinu sem hefði orðið ef svo nefnd, Norðurleið hefði verið valin.

Aðspurður um kostnað við göngin segir Þröstur það rétt að um mjög dýra framkvæmd sé að ræða, og það væri ekki til framdráttar fyrir göngin að minnka þjóðhagslegt virði þeirra með röngu leiðarvali Suðurleiðar.

Þetta viti flest heimafólk sem þekkir vel til og er því andsnúið vali meirihlutans á Suðurleið, segir Þröstur að lokum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband