Færsluflokkur: Samgöngur
18.3.2022 | 17:28
Vegagerðin í (Teigsskógi) Egilsstaðaskógi
Nú hillir undir að löngu tímabær framkvæmd verði að veruleika, Seyðisfjarðagöng. Allir í Múlaþingi eru ánægðir með það. Hins vegar eru skiptar skoðanir með gangamunnann Héraðsmegin og hefur Miðflokkurinn gagnrýnt það harðlega að upphaflegri áætlun hafi ekki verið fylgt, að vera með gangamunnann við Steinholt. Farið er undan í flæmingi þegar spurt er: Af hverju er gangamunnanum valinn staður við Dalhús? Þröstur Jónsson bæjarfulltrúi hefur ítrekað kallað eftir svönum án þess að hafa erindi sem erfiði. Hann skrifaði á Facebook:
"Já ég gerðist "fúll á móti" í þessu máli og bókaði harðort á síðasta sveitastjórnarfundi. Alla framtíðarsýn vantar ef S-leið verður valin.
Meira að segja Vegagerðin sjálf var ekki búin að átta sig á hvað byggingaland ég hef verið að tala um. Þeir héldu (eins og margir) að ég væri að tala um Suðursvæðið. Það er af og frá. Ég er að tala um svæðið sunnan Selbrekku inn í skóginn sunnan Norðfjarðarvegar. Þarna eru fallegar hæðir og ásar sem flestir snúa til S, eða SV. Sennilega einar fallegustu byggingalóðir á landinu. Auk þess er þetta svæði mun veðursælla en áætlað byggingaland norðan Eyvindarár sem líður fyrir SA-vindinn ofan af Dölum.
Þetta eru svo magnað byggingaland að ef það væri vel auglýst mundi það trekkja að fólk til búsetu í Múlaþingi .. og það er akkúrat það sem okkur sárvantar.
Þá furða ég mig á afstöðu þeirra 2ja Borgfirðinga sem sitja í sveitarstjórn, sem ætla að mæla með S-leið. Þeir eiginlega með þessu svíkja sitt eigið samfélag á Borgarfirði. N-leiðin er sú leið sem færir Borgarfjörð Eystri nær miðju sveitarfélagsins, og opnar skemmtilega heildarsýn þegar/(ef) Vopnafjörður verður hluti af Múlaþingi, með göngum gegnum Hellisheiði. Að fara S-leiðina gerir Borgarfjörð enn afskekktari en hann er í dag.
Ég hrósa hinsvegar Helga Hlyn Ásgrímssyni fulltrúa Borgafjarðar í sveitastjórn, hjá VG, sem var ekki sáttur við hvernig sveitarstjórn rasaði að illa grundaðri ákvörðun.
Menn verða að hafa "gut" til að horfa fram í tímann 50-100 ár þegar slík ákvörðun er tekinn. Hver vill þá búa ofan í alþjóðaflugvelli með mikilli traffík. Nei er ekki betra að byggja upp atvinnustarfsemi í kringum Flugvöllinn og færa samgöngukerfið á sama stað ... til norðurs.
Hvort sem okkur líkar betur eða verr verður hafin olíuvinnsla út af NA-landi. Olíuhreinsistöð í Finnafirði og þyrluvöllur á Egilsstöðum munu verða sennilega afleiðingar þess. Þetta mun æpa á jarðgöng undir Hellisheiði milli Vopnafjarðar og Héraðs. Við slíka sviðsmynd þarf vart að nefna að Norðurleiðin er LEIÐIN. Viljum við eyðileggja þessa sviðsmynd með lítt grundaðri S-leið?
Veglínu N-leiðar þarf hinsvegar að laga, einkum neðst þar sem hún fer allt of nálægt bökkum Eyvindarár þar sem er íbúðarhverfi handan ár. Að auki á hún að sjálfsögðu að fara í löngum sveig lengra út á Eyvindarártún og mæta Nesvegi í hringtorgi þar sem núverandi gatnamót flugvallar-vegar eru.
Þá kæmi einnig til greina að fara með línuna út fyrir bæinn Eyvindará til að ná góðri tengingu við nýja Lagarfljótsbrú utan flugvallar og halda núverandi brú fyrir innanbæjar-umferð.
Til hvers að troða nýrri brú þar sem hún varla kemst fyrir innan núverandi brúarstæðis?
Til þessa er nægur undirbúnings-tími, þar sem það tekur mörg ár að sprengja göngin og því ekkert komið að gerð þess hluta vegarins.
Ekki sitja föst í úreltu aðalskipulagi, opnum það og breytum eins og þarf.
HUGSUM FRAM Á VEGINN, HUGSUM STÓRT, DREYMUM STÓRT.
Ekki kúldrast í smáskammtalækningum og skammtíma-lausnum."
Þröstur Jónsson bæjarfulltrúi í Múlaþingi
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 17:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.3.2022 | 13:35
Brýrnar í Austurlandskjördæmi, ekki í Madison County
Vegakerfið okkar er nokkuð þolanlegt, en brýr ekki að sama skapi í takt við tímann.
- Lagarfljótsbrúin er í grunnin frá 1905, endurbyggð 1906 og gerð tvíbreið 1958. Brúin er háð þungatakmörkunum og er til ama fyrir eigendur þungavinnuvéla, sem flytja þarf á milli staða og þarf í nokkrum tilfellum að fara um Lagafossvirkjun til að koma þungu milli Fellabæjar og Egilsstaða. Aðal vandamál brúarframkvæmda eru undanfarnar bæjarstjórnir á Mið-Héraði, sem ekki geta höggvið á þann Gordíonshnút sem búið er að hnýta svo hressilega, um hvar brú yfir Lagarfljótið á að vera í framtíðinni. Það setur jafnframt lengingu Egilsstaðaflugvallar í uppnám, vegna þess að ekki er hægt að lengja flugvöllinn, nema færa Þjóðveg eitt um einn kílómeter til suðurs.
- Brúin á Gilsá í Skriðdal byggð 1958 og er einbreið og háð þungatakmörkunum.
- Jökulsá á Fjöllum á Þjóðvegi eitt, einbreið hengibrú byggð 1947.
- Brú í Öxarfirði, einbreið hengibrú byggð 1957.
- Brýr í Fjarðabyggð á Þjóðvegi eitt. Einbreiðar brýr og háðar þungatakmörkunum á Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði og Breiðdal.
Þetta er hluti af vandamálum fjórðungsins og verður á verkefnalista Miðflokksdeildarinnar í Múlaþingi að þoka áfram.
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 13:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)