10.5.2022 | 20:59
Stefnuskrá Miðflokksins í Múlaþingi
Sveitastjórnarkosningar 2022
Margur er knár þó hann sé smár
Fulltrúar Miðflokksins hafa verið mjög virkir í sveitastjórn Múlaþings, þrátt fyrir að aðrir flokkar hafi gert það sem í þeirra valdi stóð að gera fulltrúum flokksins erfitt fyrir að vinna að framfararmálum sveitarfélagsins. Miðflokkurinn hefur undanfarið haft frumkvæði að ýmsum framfaramálum.
- Lagt var til að H.E.F. veitur, sæu um að kaupa varmadælur og gegn hóflegri greiðslu að afhenda þær á köldum svæðum þar sem hitaveitu nyti ekki við.
- Skorað var á Landsnet að rafmagn í sveitarfélaginu yrði það tryggt að bjóða mætti það fyrirtækjum sem þyrfti á tryggri, meiri og stöðugri orku að halda.
Til að þoka framfaramálum áfram má treysta á Miðflokkinn, því þurfum við á stuðningi þínum að halda.
Byggðamál
- Við ætlum áfram að leggja mikla áherslu á sveitarfélagið allt og að allir vinni saman sem ein heild en ýtt verði undir sérstöðu hvers samfélags eða svæðis.
- Við munum gera kröfu um að verkefnum á vegum þess opinbera, verði vistuð í Múlaþingi.
- Við munum mótmæla kröftuglega áformum Vinstri Grænna um að sameina Landgræðsluna og Skógrækt ríkisins, með því meginmarkmiði að leggja niður starfsemi Skógræktar ríkisins á Egilsstöðum.
- Við ætlum að láta styrk svæðisins liggja í fjölbreyttum búsetumöguleikum innan sama atvinnu, þjónustu-, afþreyingar- og markaðssvæðis. Langtímamarkmið okkar er að svæðið verði öflugasti landshlutinn þegar kemur að bestu búsetuskilyrðum fyrir fjölskyldufólk og fjölbreytt hátekjustörf.
- Við ætlum að ná fram meiri skilvirkni nefnda og ráða á vegum sveitarstjórnar. Miðflokkurinn vill vinna gegn ákvarðanafælni og töfum í meðferð sveitastjórnar á einstökum málum.
- Miðflokkurinn leggur áherslu á að plægja akurinn fyrir nýja starfsemi.
- Við viljum taka upp ásýndarverðlaun fyrir snyrtilegustu sveitabæina og í þéttbýli fyrir snyrtilegustu götuna.
Fjármál, atvinnumál og íbúaþróun
Almennt þarf að leita allra leiða til að auka tekjur sveitarfélagsins, sem eru of lágar í dag, til að standa undir ásættanlegri þjónustu við íbúa og framkvæmdum. Eina lausnin er langtímaáætlun sem gerir ráð fyrir að fjölga íbúum sveitarfélagsins og skapa eftirsótt störf með nýsköpun.
- Hagstofa Íslands spáir hægfara fólksfjölgun í sveitarfélaginu næstu árin.
- Mikilvægt er að búa til hvata til að fá nýtt fólk í sveitarfélagið. Sveitarfélagið þarf áhugasamt og viljugt fólk, fjölbreytta atvinnustarfsemi og réttar fjárfestingar til uppbyggingar. Með markmið okkar að leiðarljósi finnum við tækifærin bæði hér á landi, sem og í öðrum löndum. Slíkar aðgerðir miði meðal annars að því að ungt fólk í sveitarfélaginu þurfi ekki að flytjast brott til að fá störf við hæfi.
- Laxeldi er komið til að vera á Íslandi. Djúpivogur er leiðandi á því sviði. Við viljum vinna með þeim fyrirtækjum sem starfa við fiskeldi í að ná fram sínu besta í sátt við umhverfið og atvinnulífið í kring.
- Við ætlum að ráða atvinnumála- og markaðsfulltrúa til verka.
- Við ætlum að blása til sóknar fyrir dreifbýlið, þannig að landbúnaðurinn gleymist ekki og horft verði til framtíðar í þeim efnum. Bændafjölskyldur eru stoð í fæðuöryggi landsins og verður að tryggja að svo verði áfram.
- Við hvetjum Vegagerð ríkisins til að semja við bændur um að halda við girðingum með þjóðvegum í Múlaþingi.
- Tekjupóstar sveitarfélaga eru að mestu háðir útsvari og fasteignasköttum. - Við ætlum að kanna möguleika á rekstri arðvænlegra fyrirtækja í eigu sveitarfélagsins sem ekki eru í beinni samkeppni við einkafyrirtæki á svæðinu.
- Við ætlum að þrýsta á að stjórnvöld breyti úreltum lögum og hugsunarhætti, sem mismuna dreifbýli og þéttbýli að nauðsynjalausu. Dæmi: Flutningskostnaður raforku, verðlagning flugvélaeldsneytis og opinber störf.
- Miðflokkurinn mun þrýsta á að hvergi verði hvikað frá áformum um ljósleiðaravæðingu á svæðinu öllu.
Skipulags og umhverfismál
- Við ætlumst til að rammaskipulag sé unnið til langs tíma. Þannig er sköpuð alvöru framtíðarsýn fyrir sveitarfélagið. Dæmi: Ákvörðun staðsetningar á íbúðabyggð, atvinnustarfsemi og meginlínur samgangna.
- Við munum leggja áherslu á að ávallt verði nægjanlegt framboð lóða jafnt fyrir einstaklinga og fyrirtæki, stór og smá.
- Vegna hugmynda um stækkun Egilsstaðaflugvallar ætlum við að gæta þess að ekki verði þrengt að honum.
- Við ætlum að láta aðalskipulag ýta undir sérstöðu hvers svæðis fremur en draga úr henni.
- Aðal- og deiliskipulagi utan Eyvindarár verði breytt í atvinnusvæði og flugvallartengda starfsemi. Íbúðabyggð og þjónusta tengd henni verði á Suðursvæði.
- Við ætlum að gera tímasetta langtímaáætlun um uppbyggingu, umhirðu og verndun grænna svæða. Við ætlum að gæta þess að ásýnd samfélaga sveitarfélagsins, þéttbýlisstaða og dreifbýlis, verði þróuð með fagfólki, landlagsarkitektum og garðyrkjufræðingum.
- Við ætlum að bæta umhverfisstjórnun. Við erum fylgjandi sameiginlegri mengunarlausri sorpbrennslustöð fyrir allt landið. Okkur þykir það siðferðilega rangt að fara fram á það að sorpi frá Íslandi verði eytt í öðrum löndum. Eyðingin getur átt sér stað við óviðunandi aðstæður - jafnvel í þriðja heims ríkjum með tilheyrandi vandamálum fyrir íbúa viðkomandi svæðis.
- Sorphirða í sveitum hefur ekki verið nægjanlega markviss. Við viljum bæta þá þjónustu og koma þessum málum í fastar skorður og meiri skilvikni. Koma skal upp flokkunarsvæðum þar sem gámar verði fyrir timbur, járn og dýraleyfar.
- Við viljum hvetja til aukinnar landnýtingar undir ræktun og auka sjálfbærni sveitarfélagsins t.d. með repjurækt til manneldis.
- Við leggjum til að það verði reist moltustöð á Austurlandi í samstarfi sveitarfélagana í fjórðungnum, með það að markmiði til að selja moltu til íbúanna.
- Við ætlum að gæta meðalhófs í umhverfismálum við uppbygginu á atvinnustarfsemi. Náttúra og umhverfi okkar skal höfð að leiðarljósi en þess gætt að ekki sé þrengt að eðlilegri þróun atvinnustarfsemi.
Samgöngumál og ferðaþjónusta
- Horft skal til langrar framtíðar þegar kemur að stofnæðum og þjóðvegum. Haga skal skipulagi þannig að stofnæðar og þjóðvegir minnki ekki lífsgæði íbúa með því að leggja vegi í gegnum íbúðabyggðir.
- Þrýst verði á ríkisvaldið að velja leið norðan Eyvindarár um Melshorn og valin svonefnd norðurleið.
- Við krefjumst þess að staðið verði við gefin loforð um heilsárs vegtengingu um Öxi.
- Við viljum bæta vetrarþjónustu við sveitir og jarðir í Múlaþingi, sem hafa mátt sæta því að mæta afgangi í snjóruðningi. Við teljum að samningar við íbúa um verktöku, muni leysa þann vanda.
- Við krefjumst þess að ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar verði gerð út frá Egilsstaðaflugvelli.
- Við ætlum að láta markaðsfæra hafnirnar þrjár markvisst sem eina heild. Dæmi: Fyrir farþegaskip og millilandaskip.
- Við munum gera kröfu um landtengingu skemmtiferðaskipa og Norrænu í Seyðisfjarðahöfn.
- Við ætlum að auka áherslu á að Seyðisfjarðarhöfn verði höfn fyrir alþjóðavöruflutninga í tengslum við alþjóðaflugvöllinn á Egilsstöðum.
- Við köllum eftir því að alþjóðaflugvöllurinn á Egilsstöðum verði betur nýttur miðað við aukna þjónustuþörf á svæðinu.
- Við munum vinna að því að laga aðgengi að Skessugarði með því að leggja veg og bæta merkingar. Jafnframt þarf að vinna að því að gera Héraðssand að aðdráttarafli og útivistarsvæði. Leggja þarf veg þangað og koma upp bílastæðum.
- Góðar samgöngur er forsenda fyrir þróun sveitarfélagsins. Miðflokkurinn styður einkaframkvæmdir í samgöngumálum megi þær verða til þess að koma framkvæmdum af stað sem annars muni bíða um langan aldur með tilheyrandi óhagræði og vandamálum.
- Við viljum flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni, hann er anddyri landsbyggðar að sjúkrastofnunum, stjórnsýslu, háskólum og þeirri þjónustu og menningu, sem allir landsmenn taka þátt í að fjármagna.
Skólamál
- Við ætlum að samþætta tækniþróun við kennslu milli allra skóla.
- Við sjáum fyrir okkur að sveitarfélagið ýti undir samvinnu og sköpun í skólastarfi þar sem samstarf skóla byggist upp innan frá.
- Við ætlum að gera samfelldan skóla- og frístundadag barna að markmiði í hverjum byggðarkjarna fyrir sig.Hreyfingu og öðrum tómstundum verði þá sinnt eftir að venjulegu skólastarfi lýkur.
- Við ætlum að setja fram skýrar línur hvað varðar forvarnarmál og hafa öfluga stjórn í þeim efnum.
- Við ætlum að byggja ódýrar og hagkvæmar þjónustubyggingar og nýta sömu teikningar við uppbyggingu t.d. vegna grunn- og leikskóla þegar kemur að nýframkvæmdum. Hús í eigu samfélagsins eiga ekki að bera það með sér að vera minnismerki um fyrri ráðamenn.
- Við viljum að skólamötuneyti í sveitarfélaginu hafi, eins og við verði komið, matvörur úr heimabyggð til að styrkja matvælaframleiðslu í Múlaþingi.
- Við hvetjum fyrirtæki í því, fyrir sig og samfélagið, að taka þátt í starfskynningu námsfólks.
- Við viljum menntun heim í hérað. Við ætlum að vinna að því að núverandi fyrirkomulag sveinsprófa verði endurskoðað með það að markmiði að færa próftökuna til sveitarfélagsins (í dag þurfa nemendur að sækja nám til Reykjavíkur).
- Við ætlum að auka vægi Menntaskólans á Egilsstöðum fyrir sveitarfélagið allt.
- Til lengri tíma litið viljum við að Háskóli Austurlands verði staðsettur í sveitarfélaginu.
Íþrótta- og tómstundamál
- Sköpunargleðin kemur innan frá. Við ætlum að hvetja íbúa sem hafa áhuga á uppbyggingu tómstundastarfs og jaðarsports í sveitarfélaginu að koma með hugmyndir til úrbóta. Við teljum að þau sem lifa og hrærast í þessum málum séu betur til þess fallin en stjórnsýslan.
- Við teljum að almennt eigi sveitarfélagið að greiða leið tómstunda og jaðarsports þegar leitað er til þess um aðstöðu og félögin sjálf hafi frumkvæði að uppbyggingu.
- Við hjá Miðflokknum gerum okkur grein fyrir því að framtíð nýs sveitarfélags liggur í æsku Austurlands. Því viljum við að sjálfsögðu hlúa að henni sem best við getum og liður í því er að huga að forvörnum og allri umgjörð sem kemur þessum flokki við.
- Við ætlum að styrkja félagasamtök sem standa að forvarnarstarfi sem við best getum og vera þeim til halds og trausts.
- Við ætlum að bæta upplýsingaflæði og samstarf við ungmennaráð á hverjum stað, þannig að sjónarmið unga fólksins skili sér á sem flesta staði í sveitarfélaginu.
- Tvö af sveitarfélögunum eru hluti af heilsueflandi samfélagi, verkefni á vegum Embættis Landlæknis. Við leggjum til að sveitarfélagið allt tæki þátt í þessu verkefni.
Heilbrigðisþjónusta
- Við mótmælum harðlega að sparnaður og hagræðing bitni jafn harkalega á einstaklingum á landsbyggðinni og raun ber vitni.
- Afnema skal skömmtunarkerfi á landsmenn um endurgreiðslu Sjúkratrygginga Íslands, vegna ferðakostnaðar.
- Við ætlum að koma upp greiningarstöð á Heilsugæslunni á Egilsstöðum.
- Leitað skal leiða til að fjármagna kaup á sneiðmyndatæki. Nauðsynlegt er að nýjasta tækni við fjarlækningar standi íbúum til boða.
- Við munum leggja sérstaka áherslu á bætta þjónustu í geðheilbrigðismálum.
- Við munum gera kröfu um úttekt heilbrigðisráðherra á því hvar best sé að byggja nýtt hágæðasjúkrahús fyrir Austurland, ekki síst vegna endurtekinnar umræðu um að leggja niður Reykjavíkurflugvöll. Þar verði tekið mið m.a. af eftirfarandi:
- Um heppilega staðsetningu.
- Um greiðar landsamgöngur.
- Um góðan flugvöll.
- Um gæði innviða.
- Um möguleika til uppvaxtar og mennta.
- Um íbúatölu og fjölda ferðamanna.
- Um fjölbreytt atvinnutækifæri.
Matvælaframleiðsla í Múlaþingi
- Við viljum hvetja til nýtingar heita vatnsins í gróðurhús með því að markaðssetja heitu svæðin.
- Við viljum hvetja til að skoða bleikjurækt og nýta affalsvatn úr gróðurhúsum til þeirra nota.
- Við munum veita ívilnun til þeirra sem vilja byggja upp starfsstöðvar og nýta heita vatnið.
- Við viljum stuðla laxeldi í sjó í sátt við íbúa og að fengnum niðurstöðum ítarlegra rannsókna.
- Við viljum að rannsóknarstöð, vegna náttúrulegar áhrifa fiskeldis, verði byggð upp á Seyðisfirði til að meta áhrif á náttúruna.
Menning og listir
- Miðflokkurinn leggur áherslu á að styðja við listir og skapandi greinar. Má þar nefna þá viðburði sem sveitarfélögin eru nú þegar þekkt fyrir. Það er aldrei ofsagt hvað starf íbúa sem hafa lagt sitt af mörkum til að auðga mannlífið með listsköpun hvers konar er mikilvægt. Má þar nefna tónlistarviðburði og leiklist auk þeirra sköpunar sem á sér stað í myndlist.
- Miðflokkurinn ætlar að gera handverki íbúa hátt undir höfði. Í handverki og handbragði liggur menningararfur okkar og sköpun. Þeir sem stunda handverk hvers konar eiga skilið stuðning
Orkumál
Orka landsins er ein af stoðum innviða samfélagsins og á að vera í eigu samfélagsins og á kostnaðarverði.
- Við munum krefjast eðlilegra fasteignagjalda fyrir stíflumannvirki og uppistöðulón.
- Hrein orka og uppruni hennar verði eingöngu vottuð af yfirstjórn þess sveitarfélags sem mannvirki vegna orkuöflunar eru.Við munum krefjast þess að endurgjald vegna slíkra vottorða renni beint í viðkomandi sveitasjóð.
- Við munum krefjast þess að sama orkuverð sé í þéttbýli og dreifbýli.
- Við teljum að vindmyllur séu ekki sá orkugjafi, sem passar núna inn í okkar samfélag, hvorki á sjó eða landi.
- Við höfnum því að flytja raforku um sæstreng frá Íslandi.
- Við viljum hraða, sem frekar er unnt, byggingu Hamarsárvirkjunar.
- Við viljum að H.E.F. veitur, verði Orkuveita Múlaþings og fari að versla með raforku. Með Orkupakka 3 þarf að bregðast við svo íbúar Múlaþings verði ekki ofurseldir fjárglæframönnum og/eða fyrirtækjum, sem eru að sölsa undir sig orkukosti landsins. Slík fjandsamleg yfirtaka mun hækka orkuverð til íbúa Íslands.
--- o O o ---
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)