30.1.2023 | 18:01
Vindmyllur - vandamál
Nú er mikið talað um vindmyllur og vindmyllugarða. En lítið um þau vandamál sem þeim fylgja. Það er einnig talað um að þessi mannvirki teljist með háspennulínum og stíflumannvirkjum og greiði þar af leiðandi ekki skatt á Íslandi.
Raforkuver greiða skatt og í þeim er orkuframleiðslubúnaðurinn túrbínur og spennar. Vindmyllur eru mannvirki og tæknilegur vélbúnaður sem framleiðir raforku, þar eru mylluspaðar í stað túrbína og síðan spennar til að stjórna orkuflæðinu. Þær eru því samskonar og raforkuver og eiga í mínum huga að flokkast með þeim og greiða skatt eða aðstöðugjald samkvæmt því. Mikil umferð er um raforkugarða vegna vinnu við umsjón á búnaðinum (viðhald og eftirlit) þannig að vegasamgöngur við garðana þurfa að vera góðar, sem er ekki einfalt þegar garðarnir eru upp á fjöllum. Vegagerð og viðhald vega verður væntanlega í höndum Vegagerðarinnar og greidd af okkur skattgreiðendum.
Líftími vindmylla er 20-25 ár og því mjög ör endurnýjun á búnaði sem ekki hefur enn fundist leið til að endurnýta sem gerir það að verkum að þá myndast vandamálið hvernig á að farga úrganginum sem verður til við endurnýjun. Ég held við íslendingar eigum að staldra við og athuga okkar gang í þessu vindmyllu máli. Það virðist vera mikill umhverfissóðaskapur kringum vindmyllugarða.
Skýrsla sem greint var frá á fréttamiðlinum France24 segir að um það bil 8000 úreltar vindmyllur bíði þess að vera rifnar niður. Einnig segir þar að það sé áætlað að árið 2030 þá þurfi að eyða allt að 80.000 tonnum af úrgangi frá vindmyllum á ári. Vonandi forðar forsjónin okkur frá því að þurfa að taka þátt í slíku. Þær tilraunir með endurvinnslu sem hafa verið gerðar eru auk þess mjög orkufrekur iðnaður sem vekur spurninguna hvert sækjum við þá orku?
Auk þessa er það alvarlegur hængur á þessu máli að það eru útlendingar sem hafa áhuga á að koma upp þessum vindmyllugörðum á Íslandi. Það er að virkja vindorku á Íslandi og fjármagna með peningum sem koma frá sjóðum í þeirra eigu. Það þarf að búa þannig um hnútana að þessi uppbygging sé framkvæmd af innlendum aðilum (Landsvirkjun) í eigu almennings og innlendum fjárfestinga aðilum gefinn kostur á að fjármagna framkvæmdina til þess að arðinn komi inn í íslenskt samfélag en flæði ekki úr landinu. Þó tel ég æskilegast að leita annarra virkjunarkosta svo sem vatnsaflsvirkjanna.
Björn Ármann Ólafsson
4.maður á lista Miðflokksins í Múlaþingi