Eftirlitsnefnd gerir enn athugasemdir við ársreikninga Múlaþings

Austurfrétt/Albert Örn Eyþórsson • Skrifað: 06. nóvember 2024.

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EFS) gerir athugasemdir við ársreikning Múlaþings á síðasta ári enda standist reikningurinn ekki þau lágmarksviðmið sem nefndin gerir. Athugasemdir komu líka fram í fyrra.

Það þrennt sérstaklega sem nefndin finnur að. Í fyrsta lagi er hálfs milljarðs króna rekstrarhalli Múlaþings 2023 þar sem viðmiðið er að staðið skuli á sléttu. Í öðru lagi er framlegð í hlutfalli við rekstrartekjurnar afar lágt eða aðeins 5,5% meðan lágmarkviðmið EFS sé 9,8%. Að síðustu sé skuldahlutfall A-hluta sveitarfélagsins of hátt en hlutfallið er 128% meðan viðmið EFS sé undir 100%. Til A-hlutans telst öll starfsemi sveitarfélagsins sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum.

Leggur nefndin í bréfi sínu áherslu á að Múlaþing leiti allra leiða sem fyrst til að uppfylla umrædd lágmarksviðmið.

Í anda þess sem unnið er að

Fram kom í máli Björns Ingimarssonar, sveitarstjóra, við umræður um bréfið á síðasta sveitarstjórnarfundi, að sjálfur liti hann á viðvörunina sem hvataábendingu enda niðurstaða A-hlutans lengi verið í lakari kantinum.

„Það er alveg ljóst að sveitarfélagið er að vinna samkvæmt fjárhagslegum viðmiðum sveitarfélagslaganna og við erum alveg að standast þau viðmið. Þau snúa að hlutföllum í ákveðnum stærðum í niðurstöðu samstæðureiknings sveitarfélagsins og þau erum við að standast. Nefndin hefur sett sér ákveðin önnur viðmið þar sem eru eingöngu er verið að horfa til A-hluta og ég get alveg verið sammála því að það er mikilvægt að, eins og kemur fram í þeim viðmiðum sem þeir eru að horfa til, að sveitarfélög setji sér markmið og stefni að því að ná þeim. Þetta er alveg í anda þess sem við erum að vinna. Ef við horfum til þess sem mun koma skýrar í ljós þegar við tökum endanlega afgreiðslu okkar fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár og langtímaáætlunina þá sjáum við þessa þróun.“

Það er því magnað að lesa aðra frétt í sama miðli, um hve taktlaus meirihlutinn er í fjáraustri í verkefni, sem hvorki eru lögboðin né bráðnauðsynleg á meðan sveitarfélagið er jafn skuldsett og raun ber vitni.

Múlaþing samþykkir að greiða hluta löggæslumyndavéla í Fellabæ

Austurfrétt/Albert Örn Eyþórsson • Skrifað: 05. nóvember 2024.

Meirihluti umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings hefur samþykkt að veita leyfi til uppsetningar á löggæslumyndavélum í Fellabæ og jafnframt að sveitarfélagið greiði helming kostnaðar við að koma þeim fyrir.

Það var embætti Lögreglustjórans á Austurlandi sem óskaði eftir heimild til að koma fyrir slíkum vélum í síðasta mánuði en lögregluyfirvöld fóru einnig þess á leit að sveitarfélagið greiddi allan kostnað vegna þess.

Fjórir af sjö nefndarmönnum ráðsins féllust á beiðnina að hluta til fyrr í vikunni og skal taka kostnaðinn við kaup og uppsetningu inn í fjárhagsáætlun næsta árs. Ekki stendur þó til að greiða fyrir rekstur vélanna né heldur uppsetningu fleiri slíkra véla í framtíðinni. Rökin að þessu sinni þau að með þessu móti væri komið á samstarf milli sveitarfélagsins og lögreglu til að auka öryggi borgaranna ekki síður en leggja lögreglunni lið.

Einn nefndarmaður, Ásdís Hafrún Benediktsdóttir og áheyrnarfulltrúinn Benedikt V. Warén, létu bæði bóka óánægju með að sveitarfélagið tæki þátt í slíku enda sé það á forræði ríkisins að fjármagna slík verkefni. Nóg væri af öðrum brýnum verkefnum sem hægt væri að nota peninga til.

Svo því sé haldið haga féllu atkvæði þannig:

  • Já - Jónína Brynjólfsdóttir formaður B
  • - Eiður Gísli Guðmundsson aðalmaður B
  • - Þórhallur Borgarson varaformaður D
  • - Björgvin Stefán Pétursson aðalmaður D
  • Nei - Ásdís Hafrún Benediktsdóttir aðalmaður L
  • Nei - Ásrún Mjöll Stefánsdóttir aðalmaður VG
  • Nei - Þórunn Hrund Óladóttir varamaður VG
  • Hefur ekki atkvæðisrétt - Benedikt V. Warén áheyrnarfulltrúi M

Bókun áheyrnarfulltrúa Miðflokksins er eftirfarandi:

BVW leggur fram eftirfarandi bókun:
Undirritaður telur það í verkahring löggjafans að gæta að öryggi íbúa landsins og það á ekki að vera sveitarfélagsins að fjármagna slík verkefni.


Bloggfærslur 6. nóvember 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband