29.2.2024 | 18:05
Bílastæðadrama á Egilsstaðaflugvelli
Til að auka upplifun rándýrra fargjalda frá Egilsstöðum í Mekka menningar, lista og hágæða heilbrigðisþjónustu, hefur ISAVIA komist að því að hægt er að auka á fjárhagslega vellíðan og upplifun, með því eina að skella inn aukakostnaði á farþega með því að skella á svokölluðm bílastæðisgjöldum.
Eflaust verður upplifunin mest við að leggja bílunum á ómalbikuðu bílastæðin og geta þar að auki fengið aukaupplifun, að sjálfsögðu gegn hóflegu gjaldi, að ösla drullupollana heim að flugstöðinni dragandi ferðatöskuna á eftir sér. Það sér hver heilvita maður að það kostar meira að fá slíka drulluháleista inn á hreint gólfið í flugstöðinni og einhver verður að borga þrifin.
Á fundi flugmálayfirvalda með sveitastjórn Múlaþings um þetta tiltekna mál, virtist ekki vera mikil samstaða milli fulltrúa meirihlutans og því tilefni til vangaveltna um hvort meirihlutinn sé jafnvel sprunginn. Það lá nærri í Fjarðabyggð sl. sólahring, þegar einn í meirihlutanum var á móti ríkjandi rangri hugmyndafræði og greiddi atkvæði af einskærri rökhugsun.
Slíkt mun seint gerast í Múlaþingi undir stjórn B og D, að skynsemin verði sett í öndvegi í þessu máli, sérstaklega þegar það er haft í huga að Innviðaráðherrann er í B Framsóknarflokki og staðfestir leyfin til ISAVIA og Fjármálaráðherrann er í D Sjálfstæðisflokki sem er handhafi hlutabréfsins í ISAVIA.
Rúsínan í pylsuendanum er að það þarf að stofna sérstaka innheimtudeild hjá ISAVIA til að sjá um utanumhaldið og það mun kosta meira en innkoman og því verður að fresta enn frekar öllum framkvæmdum á Egilsstaðaflugvelli.
Þetta er náttúrulega bara tær markaðsleg snilld.