4.7.2024 | 14:18
Ritröð um bílastæðagjöld flugvalla
Sérstæð ritröð birtist á veftímaritinu austurfrett.is. Þar var farið yfir sérkennilegt veiðileyfi ISAVIA á landsbyggðafólk, að virðist í boði ríkisstjórnar Íslands, þvert á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og almenn siðferðisleg gildi þjóðarinnar. Svo til að réttlæta gjörninginn og til að gæta sanngirnis við íbúa landsbyggðarinnar, leggur ISAVIA til að Reykjavíkurflugvöllur sé einn af þeim flugvöllum, sem lendir í skattheimtu ISAVIA. Það er gert án þess að fram komi hvert er hlutfall borgarbúa í að greiða þennan kostnað.
Það skal fullyrt hér, að megnið af kostnaði við bílastæðagjöldin í Reykjavík komi beint úr pyngju landsbyggðarinnar vegna þess að stór hluti þeirra, sem frá Reykjavík fara, eru að þjónusta landsbyggðina, íbúa og fyrirtæki þeirra og greiða þar af leiðandi gjald fyrir þá þjónustu og þar með talin þjónustugjöld (skatta) sem ISAVIA telur sig hafa heimild til að innheimta.
Sérkennilegt er að lesa áðurnefnda ritröð sem finna má glefsur úr hér að neðan, en má lesa í fullri lengd í austurfrett.is
Sammerkt með umræddum höfundum greinanna er að þau eru öll í samstarfi í ríkisstjórn Íslands, en virðast ekki ná eyrum ráðamanna í ríkisstjórnargrúppunni (ríkisstjórninni). Annað er upp á borðinu þegar kemur að þeim hluta að soga fjármagn frá Austurlandi í hringavitlaus verkefni sitjandi ráðherra.
==================
Bílastæðagjöld á Akureyri og á Egilsstöðum
Höfundur: Ingibjörg Isaksen Skrifað: 31. maí 2024. https://www.austurfrett.is/umraedan/bilastaedhagjoeld-a-akureyri-og-a-egilsstoedhum
Síðustu misseri hef ég bæði í greinum og í fyrirspurnum á Alþingi lýst áhyggjum mínum af síhækkandi verði á innanlandsflugi síðustu misseri. Flugsamgöngur innanlands skipta þá sem búa á landsbyggðinni miklu máli og mikilvægt er að þær séu raunhæfur kostur fyrir þá sem þar búa.
Enn á ný berast fregnir af aukinni gjaldtöku sem mun nú fyrst og fremst verða íþyngjandi fyrir íbúa landsbyggðarinnar, það er gjaldtaka á bílastæðum við flugstöðvarnar á Akureyri, Egilsstöðum og Reykjavík. Nógur er kostnaðurinn nú fyrir.
===================
Landsbyggðarskattur í uppgangi
Höfundur: Jódís Skúladóttir Skrifað: 12. júní 2024. https://www.austurfrett.is/umraedan/landsbyggdharskattur-i-uppgangi
Skilningsleysi á stöðu fólks og fyrirtækja á landsbyggðinni virðist síst vera að minnka. Nærtækt er að nefna ófullnægjandi heilbrigðisþjónustu, fullkomlega óboðlegar vegasamgöngur víða um land, óheyrilegan flutningskostnað á vörum og skerta þjónustu svo sem á póstflutningum og í bankarekstri. Nýjasta útspilið er svo landsbyggðaskattur í formi bílastæðagjalda á flugvöllunum í Reykjavík, á Akureyri og á Egilsstöðum.
Það hljómar kannski eins og jafnræði að þessir þrír stóru flugvellir séu felldir undir sama hatt en það er svo sannarlega ekki staðan.
Um flugvöllinn á Egilsstöðu fara til að mynda einstaklingar sem þurfa að fljúga til Reykjavíkur til þess að sækja lífsnauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Það hentar kannski fólki sem er búsett nálægt flugvellinum að geyma bílinn heima og láta skutla sér á völlinn. Egilsstaðaflugvöllur þjónar hins vegar gríðarlega stóru svæði og íbúar tveggja stórra sveitarfélaga, Fjarðabyggðar og Múlaþings, telja yfir 10.000, sem mörg hver hafa um langan veg að fara til að nýta sér flugsamgöngur. Nú hafa bæði þessi sveitarfélög bókað andstöðu sína við þá ómanneskjulegu ákvörðun að leggja á gjöld sem eru gróf mismunun gagnvart landsbyggðarfólki.
=====================
Frítt að leggja í fimm daga
Höfundur: Njáll Trausti Friðbertsson Skrifað: 20.júní 2024
https://www.austurfrett.is/umraedan/fritt-adh-leggja-i-fimm-daga
Það hefur löngum þótt dýrt að fljúga innanlands og með tilkomu fyrirhugaðra bílastæðagjalda leggjast enn frekari álögur á flugfarþega í innanlandsflugi. Vandamálið sem líklega er verið að reyna að sporna við er það að bílum sé ekki lagt á flugvöllunum vikum eða mánuðum saman. Ég hef séð það persónulega þegar bílum er lagt til vetrardvalar, sem gengur auðvitað ekki upp og eðlilegt væri að yrði rukkað fyrir því það er mikilvægt að bílastæðin nýtist sem allra best fyrir flugfarþega.
Fjármálaráðherra hefur nú sagt að þessi gjaldtaka megi hefjast en beinir því til stjórnar að taka tillit til þeirra sem fara í dagsferð í læknisheimsókn. Þetta skilningsleysi á stöðunni er í besta falli hjákátlegt enda verður ógerningur fyrir kerfið að vita hvaða bílnúmer eru komin til að fara í nauðsynlega læknisheimsókn og hver ekki. Það er ekki skynsamlegt ef farþegar þurfa að skila inn upplýsingum, t.d. læknisvottorði, og fá svo endurgreidd bílastæðagjöldin.
4.7.2024 | 12:44
Þrýsta á framkvæmdir við nýja brú yfir Jökulsá á Fjöllum
https://www.austurfrett.is/frettir/thrysta-a-framkvaemdir-vidh-nyja-bru-yfir-joekulsa-a-fjoellum
Höfundur: Albert Örn Eyþórsson Skrifað: 04. júlí 2024.
Samtök sveitarfélaga á Austurlandi hefur falið framkvæmdastjóra sínum að þrýsta á um að undirbúningi og framkvæmdum við nýja brú yfir Jökulsá á Fjöllum verði fram haldið nú þegar.
Bókun þessa efnis kom upphaflega fram hjá áheyrnarfulltrúa á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings snemma í síðasta mánuði. Þar fór Hannes Karl Hilmarsson úr Miðflokknum þess á leit að ráðið samþykkti bókun um að ýtt skyldi á eftir gerð nýrrar brúar þrátt fyrir að brúin sé ekki innan marka Múlaþings.
Brúin sem um ræðir er einbreið hengibrú sem opnuð var umferð árið 1947 eða fyrir 76 árum síðan. Búið var að vinna töluvert að undirbúningi nýrrar brúar og nánast komið að útboði verksins þegar mikið krapaflóð í byrjun árs 2021 setti þær áætlanir í uppnám og þær verið á ís síðan.
Hannes Karl lét bóka að brúin sé mikilvægur hlekkur í samgöngukerfi Austurlands en þungatakmarkanir hafa lengi haft áhrif á flutninga til og frá Austurlandi með tilheyrandi tekjutapi og neikvæðu kolefnisspori enda algengt að bílar með þungan farm þurfi beinlínis að sneiða hjá núverandi brú og fara krókaleiðir með farm sinn.
Undir þetta tók umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings einum rómi og hvatti bæði samtök sveitarfélaga á Austurlandi og Norðurlandi eystra til að þrýsta á um málið. Undir þetta tók stjórn samtaka sveitarfélaga á Austurlandi á fundi sínum síðar og framkvæmdastjóri þess vinnur það nú áfram með kollegum af Norðurlandi eystra.
4.7.2024 | 08:52
Stefnumörkun undir hæl ISAVIA
https://www.austurfrett.is/umraedan/stefnumoerkun-undir-hael-isavia
Höfundur: Jón Jónsson Skrifað: 28. júní 2024.
Nú liggur fyrir að ISAVIA innanlandsflugvellir ehf. hefur hafið gjaldtöku á bílastæðum við Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöll. Í fyrri greinum hef ég fjallað um álitamál um lögmæti gjaldtökunnar. Aðrar hliðar málsins hafa veitt forvitnilega innsýn í hvernig hlutirnir gerast á eyrinni.
Frumkvæði að innheimtu bílastæðagjalda kemur frá ISAVIA og fyrirmyndin starfsemi á Keflavíkurflugvelli sem ISAVIA hefur sérstök og lögákveðin umráð yfir. Staða innanlandsflugvalla er önnur og byggir á því að ríkið gerir þjónustusamning við ISAVIA. Ríkinu ber að ákveða hvaða þjónusta er veitt á innanlandsflugvöllum og hlýtur útfærsla þess að hvíla á lögum og samgönguáætlun. Hingað til hefur verið boðið upp á gjaldfrjáls bílastæði við innanlandsflugvelli. Ný samgönguáætlun var ekki samþykkt á Alþingi og merkileg niðurstaða að telja forsendur til þess að breyta þjónustu flugvalla í slíku tómarúmi.
Málið hefur verið sótt fast af ISAVIA, jafnvel þótt þjónustusamningar við félagið hafi verið útrunnir um tíma í ársbyrjun 2024 og einnig nú á vormánuðum. Allir þræðir hafa verið í höndum ráðherra innviða og fjármála, jafnvel þótt engin viðbrögð hafi komið frá þeim lengi framan af.
Í raun hafa ráðherrarnir tekið ákvörðun um að breyta þjónustustigi á þremur innanlandsflugvöllum, þótt samgönguáætlun eða Alþingi hafi ekkert sagt um málið. Hætt verður að bjóða upp á gjaldfrjáls bílastæði. Hægt er að segja að ekki sé um háar fjárhæðir að ræða, en ákvörðunin er hins vegar grundvallarbreyting. Hvar verða bílastæðagjöld tekin upp næst? Væntanlega á öðrum flugvöllum, við Landeyjarhöfn eða víðar? Málið er allt hið furðulegasta út frá samræmi og jafnræði. Nefna má að ríkið hefur nýlega veitt fjármunum í bílastæði við Ísafjarðarflugvöll, þannig að ekki þarf að safna fyrir malbiki þar! Það má því segja að Egilsstaðaflugvöllur hafi dregið stutta stráið, því skattfé ríkisins hafði ekki verið ráðstafað í uppbyggingu bílastæða áður en ISAVIA fór að leita nýrra tekjuleiða.
Það er reyndar eðlilegt upp að ákveðnu marki að ISAVIA hugi að öflun tekna. Ekki má hengja bakara fyrir smið. Það er hins vegar ríkið sem ákveður hvaða þjónusta skuli veitt á flugvöllum. Málið sýnir í raun stefnuleysi ráðherra í samgöngumálum. Það er í raun ekkert einsdæmi, enda birtist sú staða á fleiri sviðum að stjórnmálin eru stefnulítil, en fyrirsvarsmenn ríkisstofnana/fyrirtækja ráða för. Tillögur ráðherra um útfærslu gjaldtökunnar voru nánast hlægilegar og endanleg útfærsla í 14 tíma gjaldfrelsi skyndiákvörðun, sem gagnast Austurlandi mun minna en Norðlendingum. Fæstir ná að reka erindi sín innan þessa tíma í ljósi flugáætlunar um Egilsstaðaflugvöll.
Í mínum huga á ríkið auðvelt með að halda uppi því þjónustustigi að leggja til bílastæði við alla innanlandsflugvelli. Allur samanburður ber um sanngirni þess. Nefna má að ríkið veitir hundruðum milljóna á ári til uppbyggingar ferðamannastaða, þ.m.t. bílastæða. Samfélagslegt mikilvægi slíkra stæða er lítið í samanburði við grunnsamgöngukerfi landsins. Lítil takmörk eru á því hvað forgangsröðun ríkisins í útgjöldum út frá samfélagslegum hagsmunum er tilviljanakennd.
Sjálfur teldi ég þessa útfærslu sanngjarna og næstum ásættanlega í framkvæmd bílastæðagjalda við innanlandsflugvelli:
Á öllum innanlandsflugvöllum hafi flugfarþegar rétt til að geyma bíl gjaldfrjálst í 5-7 daga. Framkvæmdin væri einfaldlega sú að bókunarnúmer og nafn væri skráð inn í bílastæðaappi. Eftirlit er einfalt enda stígur enginn upp í flugvél nema nafngreindur.
Einungis bókunarnúmer vegna innanlandsflugs veitti gjaldfrjálsan bílastæðarétt.
Sama framkvæmd væri á öllum flugvöllum, þ.m.t. Reykjavíkurflugvelli. Einnig öðrum flugvöllum landsins, m.a. þar sem ríkið hefur nýlega malbikað bílastæði, og við ferjuhafnir.
Það er mikill skaði fyrir samgöngumál Austurlands og Norðurlands að taka eigi upp bílastæðagjöld við Reykjavíkurflugvöll rétt eins og við heimaflugvellina. Bílastæði við flugvelli ættu að vera hugsuð fyrir notendur flugvalla og útfærsla ISAVIA nú takmarkar með engu móti að bílum verði lagt í 14 tíma við flugvöll, án þess að notkun tengist nokkuð flugvellinum.
Stefnumörkun í samgöngumálum á ekki að ráðast af ákvörðunum stjórnenda þeirra fyrirtækja sem veita þjónustu á vegum ríkisins. Bílastæðamál við samgöngumiðstöðvar hljóta að koma til umfjöllunar í samgönguáætlun í haust og spennandi er að sjá hvort hún komist undan hæl ISAVIA.
Höfundur er hæstaréttarlögmaður