Hágæðaflugvöllur og hátæknisjúkrahús

Svo merkilegt sem það kann að hljóma þá virðist það vera í huga margra að þar sem sjúkrahús er staðsett þar skuli einnig vera fullbúinn flugvöllur. Víðast á Íslandi er þetta þannig.

Einn staður sker sig þó allhressilega úr, með einn best útbúna flugvöll á Íslandi en einungis slitrur af heilsugæslustöð. Flugvöllurinn er ekki grafinn milli hárra fjalla, hann er með þægilegt aðflug inn á báða enda og ekki er sérstök þörf á að koma ILS-aðflugi inn á þann enda, þá flogið er úr norðri. Flugvöllurinn er malbikaður og vegna aðstæðna í landslaginu er hann sá flugvöllur sem sjaldnast er ófær veðurfarslega séð, ef frá er talinn Keflavíkurflugvöllur. Keflavíkurflugvöllur hefur nauman vinning, eingöngu vegna þess að þar eru tvær flugbrautir. Ef Keflavíkurflugvöllur væri einungis með eina flugbraut stæði hann að baki þeim flugvelli sem hér er til umræðu.

Heimabær umrædds flugvallar er þannig í sveit settur að þar eru allar gerðir af náttúruvá í lágmarki, nema hugsanlega skógareldar. Hverfandi áhætta er af ágangi sjávar og hækkuð sjávarstaða mun seint hafa áhrif þar. Skriður, jarðskjálftar, eldgos, aur- og snjóflóð eru nær óþekkt á svæðinu. Vatnsflóð hafa ekki teljandi hættu í för með sér, þótt áður fyrr hafi þau haft lítilsháttar truflandi áhrif á dagleg störf íbúa svæðisins, en fráleitt lífshættu í för með sér. Þakplötur hafa þar ekki fokið síðan rifflaður þaksaumur var fundinn upp. Staðurinn er þar af leiðandi ekki einungis kjörinn til að taka víð íbúum annarra svæða þegar framangreindar hamfarir, einar eða fleiri hella sér yfir, heldur ætti það að vera markmið stjórnvalda að búa svo um hnútana að íbúar þessa lands ættu sér athvarf þar þegar náttúruvá knýr upp á hjá þeim. En merkilegt nokk – þar er ekkert sjúkrahús.

Stefna stjórnvalda, eins og allir vita, er að koma allri stjórnsýslunni, menntastofnunum, menningarstofnunum, heilbrigðiskerfinu, almannavörnum o.s.frv. inn á eitt eldvirkasta landsvæði á Íslandi. Hver er rýmingaráætlun Reykjavíkur og nágrennis ef og þegar til hamfara kemur? Er það um Hvalfjarðargöngin einföld eða tvöföld? Er það um flugvöllinn í Hvassahrauni? Er það um ófæra Hellisheið eða Þrengsli. Hver er ábyrgur fyrir lífi og limum Reykvíkinga?

Er ekki rétt að staldra ögn við í þeirri vinnu að byggja nánast eingöngu upp í Reykjavík? Fram að þessu hefur Excel-sértrúarsöfnuðurinn haft það eina markmið að færa allt til Reykjavíkur án þess að þar hafi farið fram áhættumat á því fyrir íbúa þess svæðis, fyrirtæki né stofnanir. Það má varla skipta um þvottaefni á almenningssalerni úti á landi, án þess að gera um það áhættumat. Hvar er aðgengilegt áhættumat fyrir Reykjavík og nágrenni? Hvernig hefur það verið kynnt íbúum?

Hagkvæmni stærðarinnar er gjarnan flaggað til að rökstyðja samþjöppun valds og stofnana, en aldrei er fjallað um neitt í víðara samhengi, eins og aðgengi annarra íbúa landsins að þjónustu á vegum ríkisins. Þar eiga íbúar landsbyggðarinnar engan „kassa“ í Excel-skjölum, enda er ævinlega lagt upp með fyrirframgefnar niðurstöður til að fá „heppilega“ lausn. Ferðakostnaður eru fjármunir sem renna beint úr vasa skattgreiðenda utan höfuðborgarsvæðisins og ættu, jafnræðisreglum samkvæmt, að vera a.m.k. frádráttarbærir til skatts, nema allar slíkar ferðir væru greiddar af almannafé vegna ferða í stofnanir sem ekki hafa starfsstöð innan eitt hundrað kílómetra radíuss frá heimili íbúans.

Aftur að upphafi þessarar greinar. Bæjarfélagið sem hér er um rætt heitir Egilsstaðir. Flugvöllurinn er góður og væri enn betri ef hann væri lengdur strax, eins og áformað er, í tvö þúsund og sjö hundruð metra og breikkaður í sextíu metra. Leitun er að betri aðstæðum fyrir varaflugvöll á Íslandi, sem jafnframt er í fullum rekstri. Með markvissum hætti yrði lággjaldaflugi frá Evrópu vísað þangað til að minnka kolefnisspor ferðamanna á Íslandi. Egilsstaðir yrðu auk þess skilgreindir sem varahöfuðborg Íslands og fengju þar af leiðandi sérstaka meðhöndlun sem slík, t.d. með fullkomnu sjúkrahúsi og útstöðvum fyrir helstu stofnanir ríkisins.

Vandamálið í stóra samhenginu er Framsóknarflokkurinn og Vinstri Grænir.  Framsóknarflokkurinn með Sigurð Inga Jóhannsson í samgönguráðuneytinu hefur ítrekað lofað framkvæmdum og jafnoft svikið þau.  Þegar Öryggisnefnd íslenskra flugmanna varaði sterklega við að yfirborð flugbrautarinnar væri orðið stórhættulegt í bleytu var drifið í að setja á brautina nýtt yfirborð svo ekki þyrfti að takmarka flug við smærri vélar.

Vinstri Grænir er hér á heimavelli að vera á móti framförum og uppbyggingu. Þeir eru kolfastir í gömlu úreltu kerfi.  Framsýni og heilbrigð hugsun er ekki til í orðabók þeirra en bera af öðrum í tvískinnungi.

BVW


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þetta er svona Akureyris samstöðuhugvekja Pelli, -eða er það ekki öruggt?

Magnús Sigurðsson, 11.3.2022 kl. 06:09

2 Smámynd: Benedikt V. Warén

Fyrst þú nefnir það Magnús, þá virðast nægir fjármunir í suma flugvelli landsins.

Lauslega reiknað verður búið að leggja a.m.k. sjö milljarða IKR í flugvöllinn sem þú nefnir, frá síðustu aldarmótum til 2025. Þá er engu til sparað.

Benedikt V. Warén, 11.3.2022 kl. 08:26

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Mér skildist þú vera að tala um fullboðlegan flugvöll, þar vantaði ekkert upp á, enda eru sjö milljarðar skítur á priki þegar tekið er mið af pestarpinnunum sem kostuðu yfir tíu milljarða á tæpum tveimur árum.

Hvar nákvæmlega myndirðu vilja hafa sjúkrahúsið?

Magnús Sigurðsson, 11.3.2022 kl. 16:25

4 Smámynd: Benedikt V. Warén

Sæll Magnús. Það er svo merkilegt, að stundum er til nægir fjármunir í verkefni ríkisins á einum stað, en ekki viðlit að fá krónu í annan í framhaldinu.  Pólitískur þrýstingur? Já líklega.  Þá spyr maður eru stjórnendur í Múlaþingi ekki að standa sig? Líklega ekki.

Svar við seinni spurningunni.  Á skipulagi er frátekinn staður fyrir utan Dyngju.  Þar vilja fulltrúar allra flokka, nema Miðflokksins, breyta skiplaginu svo hæft verði að hnoða þar niður íþróttavöllum. Það er gert að beiðni íþróttaelítunnar.

Aðrir staðir eru mun betur fallnir undir íþróttamannvirki.

Benedikt V. Warén, 11.3.2022 kl. 21:29

5 Smámynd: Benedikt V. Warén

...svo hægt verði að hnoða...

Benedikt V. Warén, 11.3.2022 kl. 21:30

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Ég spurði nú um þessa Akureyris hugvekju af öðrum ástæðum.

En ég skal vera beinskeyttur.

Erum við ekki með ágætis sjúkrahús í Neskaupastað?

Er það ekki frekar vegstytting undir fjöll sem við þurfum þangað?

Annars er ég sammála þér að svæðið utan við Dyngju er best tilfallið fyrir heilbrigðisstofnanir. Íþróttaelítan getur labbað á milli fót- og körfuboltavalla ef því er að skipta, nema hún vilji endilega sitja á rassgatinu á sama stað.

Magnús Sigurðsson, 11.3.2022 kl. 22:08

7 Smámynd: Benedikt V. Warén

Sæll enn og aftur.

Það er heppilegt að hafa sjúkrahús miðsvæðis og þar sem nær allta er hægt að komast í sjúkraflugi á betra sjúkrahús.

Það er einnig heppilegra að vera miðsvæðis til að koma veikum og slösuðum undir læknis hendi.

Betri samgöngur styðja það og styttri vegalengdir til stærri "markhóps".

Ef vegur verður ófær á stað sem einungis ein leið liggur til, eru allir hinir í vondum málum að komast.

Það er úrelt að hugsa um sjómenn sérstaklega í þessu sambandi, það eru til þyrlur.

Benedikt V. Warén, 12.3.2022 kl. 12:04

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það þarf fleira en gott aðflug til að reka flugvöll eins og þú veist manna best. Það sama á við sjúkrahús, veit af eigin raun hvaða mannauður liggur þar að baki, svo ekki ætla ég að taka undir þessa úreldingu með þér, þó svo að ég hefði ekki legið á liði mínu ef allt væri á leiðinni til Akuereyris. Vegni þér samt vel í leðjuboltanum niður á nesi.

Magnús Sigurðsson, 12.3.2022 kl. 15:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband