4.11.2022 | 20:28
Þegar lítil þúfa veltir þungu hlassi
Mikil fjárfestingarþörf er til uppbyggingar innviða í Múlaþingi. Takmarkaðir fjármunir eru til ráðstöfunar og því afar mikilvægt að fjárfestingum sé forgangsraðað rétt. Þegar kemur að forgangsröðun viljum við hjá M-listanum líta fyrst til þess sem er okkur dýrmætast, þ.e. barnanna okkar, grunnskóla, tónskóla, leikskóla og fleira.
M-listinn bókaði á 51. fundi Byggðaráðs Múlaþings, þann 19 apríl 2022 undir lið 4, sem varðar fjárfestingu í viðbyggingu og viðgerðir Safnahússins á Egilsstöðum:
Þröstur Jónsson lagði fram eftirfarandi bókun:
Tel að forgangsraða verði framkvæmdum við húseignir sveitarfélagsins grunnskólum og tónlistarskólum í vil. Aðbúnaður barna í Múlaþingi vegur mun þyngra en geymsla muna liðinna forfeðra okkar. Leitað verði samninga ef með þarf við ríkið að fresta öðrum en bráðnauðsynlegum framkvæmdum við Safnahúsið svo hraða megi nauðsynlegum framkvæmdum við grunnskóla og tónlistaskóla í sveitarfélaginu eins og mest má verða.
Ástæður þessa voru að við metum svo að það sé langt um mikilvægara að verja fjármunum í uppbyggingu skóla (á Seyðisfirði og Djúpavogi) heldur en húsnæði yfir koppa og kirnur forfeðra okkar.
Í fyrstu fannst mér ég tala fyrir daufum eyrum og til þess hefur verið vitnað að sveitarfélagið verði að standa við gerðan samstarfssamning við ríkið sem hefur komið með myndarlegt framlag til uppbyggingar menningarhúss/safnahúss sem að mestu hefur farið í lagfæringar á Sláturhúsinu umdeilda. Skv. þeim samning á sveitarfélagið að klára sitt framlag fyrir árslok 2023.
Ég tel hins vegar að það ætti að vera auðsótt fyrir sveitarfélagið að fara fram á það við ríkisvaldið að fresta okkar mótframlags-framkvæmdum við safnahúsið á grundvelli forgangsröðunar fyrir grunnskólana okkar og jafnvel tónskóla. Þar ætti ríkisvaldið að gæta sanngirni sem sjálft hefur nú slegið framkvæmdum í Múlaþingi á frest tam. Axarvegi.
Bókun og málflutningur okkar í þessum efnum hefur samt greinilega sáð fræjum hjá öðrum í sveitarstjórn, því á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings í síðustu viku (24. október) er meðal annars svo bókað við lið 1 er fjallar um fjárhagsáætlun 2023-2032:
Ráðið beinir því jafnframt til byggðaráðs að leita leiða, meðal annars með samtali við ríkisvaldið, til þess að færa framkvæmdir við Safnahúsið á Egilsstöðum aftar í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins svo flýta megi framkvæmdum við grunnskólann á Seyðisfirði og björgunarmiðstöð á Djúpavogi.
Bókun þessi var samþykkt einróma á fundi umhverfis og framkvæmdaráðs.
Við getum ekki annað en fagnað því að upphaflega bókun okkar og málflutningur, hefur orðið til þess að sennilega verður að þessari forgangsröðun og frestun framkvæmda (annarra en bráðnauðsynlegra) við safnahúsið.
Sannast hér máltækið oft veltir lítil þúfa þungu hlassi.
Þannig mun M-listinn halda áfram af rökfestu og skynsemi að berjast af veikum mætti fyrir hag íbúa í Múlaþing.
Þröstur Jónsson
Sveitarstjórnarmaður í Múlaþingi.
https://www.austurfrett.is/umraedan/thegar-litil-thufa-veltir-thungu-hlassi
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.