Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði í Dagmálum að sér hefði brugðið óþægilega lítið við að vera líkt við Hitler og Mussolini í kennslustund í framhaldsskóla. Þetta skýrði hann svo að hann hefði svo oft mátt þola að sér væru gerðar upp skoðanir að þetta hefði ekki komið mikið á óvart. Og ef til vill kemur það ekki heldur mikið á óvart að slíkt efni skuli haft til kennslu í framhaldsskólum landsins, en nýlega hafa komið upp tvö dæmi þar sem kennarar fara langt yfir eðlileg mörk í því sem á að vera kennsla í stjórnmálafræði.
Bæði dæmin snúa að ógeðfelldri umfjöllun um Íslendinga á hægri væng stjórnmálanna, íhaldsstefnu og þjóðernishyggju. Því er haldið fram af talsmönnum skólanna að slík dæmi séu einnig til um vinstri hlið stjórnmálanna, en athygli vekur að þau hafa ekki komið fram. Og þó að þau fyndust yrði kennslan síst betri við það.
Þá hefur því verið haldið fram glærurnar hafi verið teknar úr samhengi, en það ekki útskýrt nánar, enda í besta falli vandséð hvaða samhengi gæti verið eðlilegt. Eina samhengið sem fyrir liggur er að þetta efni er notað í kennslustundum í íslenskum skólum og er varla hægt að ímynda sé verra samhengi.
Viðbrögð skólastjórnendanna eru mikil vonbrigði en þeir hafa enn tækifæri til að bæta ráð sitt. Það gera þeir ekki með þögninni eða með því að verja óverjandi kennsluefni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.