Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son sagði í Dag­mál­um að sér hefði brugðið óþægi­lega lítið við að vera líkt við Hitler og Mus­sol­ini í kennslu­stund í fram­halds­skóla. Þetta skýrði hann svo að hann hefði svo oft mátt þola að sér væru gerðar upp skoðanir að þetta hefði ekki komið mikið á óvart. Og ef til vill kem­ur það ekki held­ur mikið á óvart að slíkt efni skuli haft til kennslu í fram­halds­skól­um lands­ins, en ný­lega hafa komið upp tvö dæmi þar sem kenn­ar­ar fara langt yfir eðli­leg mörk í því sem á að vera kennsla í stjórn­mála­fræði.

Bæði dæm­in snúa að ógeðfelldri um­fjöll­un um Íslend­inga á hægri væng stjórn­mál­anna, íhalds­stefnu og þjóðern­is­hyggju. Því er haldið fram af tals­mönn­um skól­anna að slík dæmi séu einnig til um vinstri hlið stjórn­mál­anna, en at­hygli vek­ur að þau hafa ekki komið fram. Og þó að þau fynd­ust yrði kennsl­an síst betri við það.

Þá hef­ur því verið haldið fram glær­urn­ar hafi verið tekn­ar úr sam­hengi, en það ekki út­skýrt nán­ar, enda í besta falli vand­séð hvaða sam­hengi gæti verið eðli­legt. Eina sam­hengið sem fyr­ir ligg­ur er að þetta efni er notað í kennslu­stund­um í ís­lensk­um skól­um og er varla hægt að ímynda sé verra sam­hengi.

Viðbrögð skóla­stjórn­end­anna eru mik­il von­brigði en þeir hafa enn tæki­færi til að bæta ráð sitt. Það gera þeir ekki með þögn­inni eða með því að verja óverj­andi kennslu­efni.