7.3.2023 | 15:32
Að vera eða að ekki vera vanhæfur, þarna er efinn.
Mikið hefur gengið á og mikill pilsaþytur er í bæjarstjórn og þeim nefndum Múlaþings, þar sem ákveðinn einstaklingur hefur náð (hreðja-)tökum á þorra nefndarmanna (konur eru líka menn). Það í sjálfu sér er ekki vandamálið heldur hitt og öllu verra er að ekki má nein vitræn umræða eiga sér stað t.d. um hvað er best íbúum sveitarfélagsins í skipulagsmálum til framtíðar. Skynsemi meirihlutans hefur lent í einhverjum hrokafyllsta tætara sem sögur fara af.
Sérlega er viðkomandi fulltrúa uppsigað við fulltrúa Miðflokksins. Veira þessi virðist sérstaklega útbreidd veira innan Framsóknarflokksins, og nýtt er hvert tækifæri til að þagga niður í honum, þvert á lýðræðisleg vinnubrögð og fagleg.
Ekki er boði meirihlutans í Múlaþingi að eiga samtal við íbúa Egilsstaða um þungaumferð í bæjarfélaginu, þó meirihluti íbúanna hafi sagt sína skoðun á því máli í skoðanakönnun. Ævintýrið um Teigskóg er að endurtaka sig í boði Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins. Önnur framboð dragast í kjölsogið en aðeins er farið að örla á að örfáir séu farnir að andæfa þessu makalausa framferði meirihlutans.
Önnur sveitafélög eru að vakna til meðvitundar um að reyna að færa þungaumferðina út fyrir bæjarfélögin og er Borgarnes með tillögur í þá átt. Það er þvert á það sem gert var í upphafi þegar áherslan var lögð á umferð í gegnum bæjarfélög og mikil áhersla lögð á það í Borgarnesi. Nú stendur til að bjóða út að byggja brú við Selfoss, til að létta á umferðinni innanbæjar.
En Framsóknarskonnortan æðir stjórnlaus áfram upp í grjótgarðinn, við stjórnvölinn er skipstjóri með leppa fyrir augum.
Hver er vanhæfastur í sveitastjórn Múlaþings?
Er það fyrsti maður á lista Framsóknar?
(BVW)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:34 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.