Opið bréf til ráðherra samgöngumála og forstjóra Vegagerðarinnar um Fjarðarheiðargöng

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig tilvonandi gangnaframkvæmd er verðlögð og hverju er hægt að klína af aukakostnaði á svona framkvæmd.

Vegur í Seyðisfirði

Er nauðsynlegt að breyta vegi frá gangnamunna niður að bæ?

Hvað kostar þessi breyting?

Þessu fylgir mikill auka kostnaður, ekki bara við breytingu á vegi því það þarf að færa golfvöll líka með ærnum tilkostnaði.

Ég, sem vegfarandi þarna flesta daga, kaupi það ekki sem rök að vegurinn í Seyðisfirði fyrir neðan Gufufoss sé vandamál í dag. Ég er viss um að undir þetta kvitta flestir heimamenn og flutningabílstjórar sem aka þarna um reglulega.

Það efni sem út úr göngum kemur Seyðisfjarðarmeginn væri hægt að nýta í ýmislegt annað en veg yfir gofvöll. Til dæmis landfyllingar og varnargarða svo eitthvað sé nefnt.

Vegur Egilsstaðamegin

Hvers vegna vill vegagerðin hafa gangnamunnann við Dalhús sem er með dýrustu tengingu sem völ er á?

Þarna þarf að leggja veg og byggja brú yfir Eyvindarárgilið svo ekki sé minnst á hugmyndir um Norðurleið eða Suðurleið, sem ég ætla alveg að láta liggja milli hluta. Þá umræðu tel ég bara alls ekki tímabæra eins og staðan er í dag.

Hvað mælir á móti því að gangnamunninn Héraðsmegin sé hafður fyrir ofan Steinholt þar sem hann getur verið nálægt núverandi vegi og tengst inn á hann og við notum þann veg sem notaður er í dag?

Umferð í gegnum Egilsstaði er einfalt og ódýrt að leysa til að tryggja öryggi vegfarenda.

Byrjum á hringtorgi á mótum Seyðisfjarðarvegar og Fagradalsbrautar. Þetta hringtorg er hægt að staðsetja þannig að leiðin upp á Fagradal nái sem beinastri línu í gegn til að greiða fyrir umferð upp í þá brekku sem er út úr þéttbýlinu á Egilsstöðum. Þetta hægir á umferð inn í bæinn.

Þá er hægt að gera undirgöng undir Fagradalsbraut við Tjarnarbraut og Miðvang ásamt hringtorgi á gatnamót Fagradalsbrautar og Vallavegar við Söluskála N1. Á neðri hluta Fagradalsbrautar er svo í lófa lagið að taka hámarkshraða niður í 30 km á klukkustund ef þurfa þykir. Umferð á Fagrdalsbraut er ekki vandamál í dag að mínu mati og kemur ekki til með að aukast við það eitt að umferð fari undir Fjarðarheiði en ekki yfir.

Efni það sem til fellur Héraðsmegin mætti til dæmis nýta í stækkun flughlaðs og gerð akstursbrautar við flugvöllinn. Við Íslendingar eigum t.d. opinbert hlutafélag sem heitir Isavia. Þatta félag getur keypt efnið og staðið straum af kostnaði við þennan þátt ef vilji er fyrir hendi. Eða er það svo að ef félagið er ohf þá hefur ráðherra samgöngumála og réttkjörin stjórnvöld ekki lengur stjórn á eigum okkar Íslendinga?

Nei - við þurfum ekki að keyra þessu efni öllu í gegnum Egilsstaði þar sem það er vegur niður með Eyvindará að norðanverðu. Vegagerðin hefur sýnt okkur það oftar en einu sinni að það er ekki lengi verið að henda upp bráðabirgðarbrú, svo þessa leið má auðveldlega nota. Nema kannski einhver finni það út að veginn norðan Eyvindarár þurfi þá að byggja upp minnst 8 metra breiðan með vegriðum og öryggissvæðum og guð má vita hvað kostnað er hægt klína á það.

Stóra spurningin er í mínum huga: Hvers vegna er verið að klína öllum þessum óþarfa aukakostnaði á Fjarðarheiðargöng?

Hver er raunverulegur kostnaður við að gera þessi göng með nauðsynlegum tengingum við Steinholt og Gufufoss?

Er kostnaður kostnaður við þessar tengingar sem engin þörf er á strax settur á Fjarðarheiðargöng til að ekki teljist gerlegt að byggja göngin vegna kostnaðar?

Með þessu leiðum sem ég bendi á er ekki búið að loka fyrir leiðir framhjá þéttbýlinu norður eða suður í framtíðinni þegar og ef raunveruleg þörf skapast.

Færeyingar byggðu tvenn göng

Eysturoyjartunnilin, 11.238 metra löng með 3 gangnamunnum 1 hringtorgi. Sanoytunnilinn, 10.785 mera að lengd.

Áætlaður kostnaður 2016 framreiknað til dagsins í dag 54,5 miljarðar íslenskra króna fyrir bæði göngin.

Fyrsta sprenging við Eysturoyartunnilinn var í febrúar 2017 og lokasprenging í janúar 2019. Göngin voru opnuð 19. desember 2020. Þau eru 10,5 metra breið og eru 189 metra undir sjávarmáli.

Áætlaður kostnaður við 13 km Fjarðarheiðargöng er um 60 milljarðar íslenskra króna.

Hvernig getur þetta passað?

 

Höfundur er Agnar Sverrisson
Greinin birtist á Austurfrétt:

https://www.austurfrett.is/umraedan/opidh-bref-til-radhherra-smgoengumala-og-forstjora-vegagerdharinnar-um-fjardharheidhargoeng

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband