28.2.2024 | 18:15
Er maðkur í mysunni hjá Múlaþingi?
Sveitarstjórnarfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Múlaþingi hyggst leita álits innviðaráðuneytisins eftir að hafa verið úrskurðaður vanhæfur við meðferð máls þar sem félagasamtök, sem hann fer fyrir, sendu inn umsögn um málið.
Ásrún Mjöll Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi VG, var úrskurð vanhæf á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings í gær. Til umræðu var deiliskipulag vegna sumarhúsabyggðar á Eiðum.
Ásrún Mjöll er formaður Náttúruverndarsamtaka Austurlands (NAUST) en samtökin skiluðu inn athugasemd við skipulagið. Formaður ráðsins, Jónína Brynjólfsdóttir, bar upp vanhæfið og það var samþykkt með fjórum atkvæðum meirihluta gegn þremur atkvæðum minnihluta. Þeirra á meðal var Ásrún sjálf en samkvæmt reglum geta fulltrúar kosið um eigið hæfi.
Ásrún Mjöll nýtti líka rétt sinn til að gera grein fyrir hvers vegna hún teldi sig ekki vanhæfa og lagði fram bókin. Þar segir hún telja ákvörðunina ólögmæta, að hún brjóti gegn skoðanafrelsi og feli í sér mismunun sem sé brot á stjórnarskránni. Þess vegna muni hún kæra ákvörðunina til innviðaráðuneytisins, sem sér um sveitastjórnarmál.
Ásrún Mjöll lagði einnig til að afgreiðslu deiliskipulagsins yrði frestað þar til niðurstaða ráðuneytisins lægi fyrir. Sú tillaga var felld eftir línum minni- og meirihluta. Ásrún vék þá af fundi og kallaði inn varamann.
Minnisblað um hæfi fyrirfram
Umræða um hæfi Ásrúnar sem kjörins fullrúa í ljósi formennsku hennar í NAUST er ekki ný. Í desember urðu miklar deilur á fundi sveitarstjórnar þegar lagt var fram minnisblað frá lögmanni um mögulegt hæfi hennar. Minnihlutinn gagnrýndi þá meðal annars að ráðgjöf var fengin frá utanaðkomandi lögfræðingi sem einnig starfi fyrir Arctic Hydro, sem áformar virkjanir í Múlaþingi. Einnig var deilt á að óskað hefði verið eftir minnisblaðinu án hennar vitundar. Sveitarstjóri sagðist treysta lögfræðingnum enda sinnti hann ýmsum málum fyrir sveitarfélagið.
Í byggðaráði í síðustu viku var á dagskrá mögulegt vanhæfi sveitarstjórnarfulltrúa. Málið var fært í trúnaðarmálabók en málsnúmerið er hið sama og á málinu í desember. Innanhúss lögfræðingur Múlaþings sat þann lið.
Vanhæfi vegna Fjarðarheiðarganga
Deilur um hæfi fulltrúa hafa sett svip sinn á störf sveitarstjórnar og ráða í Múlaþingi á kjörtímabilinu. Kveikjan var þegar Þröstur Jónsson, fulltrúi Miðflokksins, var úrskurðaður vanhæfur við umfjöllun um veglínur Fjarðarheiðarganga. Bróðir hans á töluvert land þar undir. Þröstur kærði ákvörðunina til innviðaráðuneytisins sem sagðist ekki gera athugasemdir við afgreiðslu sveitarstjórnar.
Síðasta haust var áheyrnarfulltrúi Miðflokksins í umhverfis- og framkvæmdaráði, Hannes Karl Hilmarsson, einnig úrskurðaður vanhæfur í sama máli þar sem hann hafði sem einstaklingur sent inn athugasemd við málið í skipulagsferli. Í minnisblaði lögmanns til Múlaþings var vísað til fordæma úr úrskurðum sem innviðaráðuneytið hafði skrifað í sambærilegum málum.
Þrjú lýstu sig mögulega vanhæf
Í janúar varð nokkur reikistefna í fjölskylduráði þegar lagt var fram erindi frá foreldrum tilvonandi fyrstu bekkjar nemenda á Egilsstöðum þar sem óskað var eftir breytingu á sumarfríi leikskólans Tjarnarskógar. Þrír fulltrúar í ráðinu, Jóhann Hjalti Þorsteinsson og Eyþór Stefánsson af Austurlista og Björg Eyþórsdóttir úr Framsóknarflokki, vöktu athygli á mögulegu vanhæfi sínu. Vanhæfi Jóhanns Hjalta var samþykkt samhljóða og vanhæfi Eyþórs með fjórum atkvæðum gegn þremur sem sátu hjá en vanhæfi Bjargar fellt með fjórum atkvæðum meðan þrír sátu hjá.
Þá voru einnig greidd atkvæði á fundi byggðaráðs í síðustu viku þegar erindi barst um námskeið fyrir leiðsögumenn með hreindýraveiðum. Hildur Þórisdóttir af Austurlista vakti þar athygli á mögulegu vanhæfi Ívars Karls Hafliðasonar. Það var fellt. Tveir fulltrúar meirihlutans voru á móti meðan fulltrúar minnihlutans og Ívar Karl sjálfur sátu hjá.
Hvað varðar deiliskipulagið á Eiðum þá var samþykkt að uppfæra skipulagstillögu í samræmi við minnisblað sem lá fyrir fundinum, þar sem brugðist er við athugasemdum og umsögnum sem borist hafa. Fulltrúar minnihlutans voru á móti þar sem þeir töldu svörin ekki fullnægjandi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:18 | Facebook
Athugasemdir
Já hið merkilegasta mál. Lítur út fyrir að sveitarstjónr Múlaþings hafi ekkert annað gera en að ákveða menn vanhæfa. Líkist einræðis tilburðum.
Björn Ármann Ólafsson (IP-tala skráð) 28.2.2024 kl. 22:52
Maður veltir því fyrir sér, hvað er grímulaust hægt að fokkast í lýðræðinu?
Það er hægt að vera allt í kringum borðið og vera hæfur til þess að vera „hlutlaus“ og koma að ákvarðanatöku hvítþveginn með nýskrúbbaðan og gljáfægðan geislabaug á sporbaug um höfuðið.
Áheyrnarfulltrúi er kosinn vanhæfur hjá sama sveitarfélagi, þó hann hafi ekki atkvæðisrétt, einungis tillögurétt og málfrelsi.
Halló!
Hvað er í gangi?
Er furða þó maður efist um heilbrigða hugsun í þorra kjörinna fulltrúa í nefndum og ráðum Múlaþings.
Uni danski (IP-tala skráð) 29.2.2024 kl. 14:19
Gæsalapparugl í blogginu.
Taka tvö:
Maður veltir því fyrir sér, hvað er grímulaust hægt að fokkast í lýðræðinu?
Það er hægt að vera allt í kringum borðið og vera hæfur til þess að vera hlutlaus og koma að ákvarðanatöku hvítþveginn með nýskrúbbaðan og gljáfægðan geislabaug á sporbaug um höfuðið.
Áheyrnarfulltrúi er kosinn vanhæfur hjá sama sveitarfélagi, þó hann hafi ekki atkvæðisrétt, einungis tillögurétt og málfrelsi.
Halló!
Hvað er í gangi?
Er furða þó maður efist um heilbrigða hugsun í þorra kjörinna fulltrúa í nefndum og ráðum Múlaþings.
Uni danski (IP-tala skráð) 29.2.2024 kl. 14:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.