4.7.2024 | 08:52
Stefnumörkun undir hæl ISAVIA
https://www.austurfrett.is/umraedan/stefnumoerkun-undir-hael-isavia
Höfundur: Jón Jónsson Skrifað: 28. júní 2024.
Nú liggur fyrir að ISAVIA innanlandsflugvellir ehf. hefur hafið gjaldtöku á bílastæðum við Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöll. Í fyrri greinum hef ég fjallað um álitamál um lögmæti gjaldtökunnar. Aðrar hliðar málsins hafa veitt forvitnilega innsýn í hvernig hlutirnir gerast á eyrinni.
Frumkvæði að innheimtu bílastæðagjalda kemur frá ISAVIA og fyrirmyndin starfsemi á Keflavíkurflugvelli sem ISAVIA hefur sérstök og lögákveðin umráð yfir. Staða innanlandsflugvalla er önnur og byggir á því að ríkið gerir þjónustusamning við ISAVIA. Ríkinu ber að ákveða hvaða þjónusta er veitt á innanlandsflugvöllum og hlýtur útfærsla þess að hvíla á lögum og samgönguáætlun. Hingað til hefur verið boðið upp á gjaldfrjáls bílastæði við innanlandsflugvelli. Ný samgönguáætlun var ekki samþykkt á Alþingi og merkileg niðurstaða að telja forsendur til þess að breyta þjónustu flugvalla í slíku tómarúmi.
Málið hefur verið sótt fast af ISAVIA, jafnvel þótt þjónustusamningar við félagið hafi verið útrunnir um tíma í ársbyrjun 2024 og einnig nú á vormánuðum. Allir þræðir hafa verið í höndum ráðherra innviða og fjármála, jafnvel þótt engin viðbrögð hafi komið frá þeim lengi framan af.
Í raun hafa ráðherrarnir tekið ákvörðun um að breyta þjónustustigi á þremur innanlandsflugvöllum, þótt samgönguáætlun eða Alþingi hafi ekkert sagt um málið. Hætt verður að bjóða upp á gjaldfrjáls bílastæði. Hægt er að segja að ekki sé um háar fjárhæðir að ræða, en ákvörðunin er hins vegar grundvallarbreyting. Hvar verða bílastæðagjöld tekin upp næst? Væntanlega á öðrum flugvöllum, við Landeyjarhöfn eða víðar? Málið er allt hið furðulegasta út frá samræmi og jafnræði. Nefna má að ríkið hefur nýlega veitt fjármunum í bílastæði við Ísafjarðarflugvöll, þannig að ekki þarf að safna fyrir malbiki þar! Það má því segja að Egilsstaðaflugvöllur hafi dregið stutta stráið, því skattfé ríkisins hafði ekki verið ráðstafað í uppbyggingu bílastæða áður en ISAVIA fór að leita nýrra tekjuleiða.
Það er reyndar eðlilegt upp að ákveðnu marki að ISAVIA hugi að öflun tekna. Ekki má hengja bakara fyrir smið. Það er hins vegar ríkið sem ákveður hvaða þjónusta skuli veitt á flugvöllum. Málið sýnir í raun stefnuleysi ráðherra í samgöngumálum. Það er í raun ekkert einsdæmi, enda birtist sú staða á fleiri sviðum að stjórnmálin eru stefnulítil, en fyrirsvarsmenn ríkisstofnana/fyrirtækja ráða för. Tillögur ráðherra um útfærslu gjaldtökunnar voru nánast hlægilegar og endanleg útfærsla í 14 tíma gjaldfrelsi skyndiákvörðun, sem gagnast Austurlandi mun minna en Norðlendingum. Fæstir ná að reka erindi sín innan þessa tíma í ljósi flugáætlunar um Egilsstaðaflugvöll.
Í mínum huga á ríkið auðvelt með að halda uppi því þjónustustigi að leggja til bílastæði við alla innanlandsflugvelli. Allur samanburður ber um sanngirni þess. Nefna má að ríkið veitir hundruðum milljóna á ári til uppbyggingar ferðamannastaða, þ.m.t. bílastæða. Samfélagslegt mikilvægi slíkra stæða er lítið í samanburði við grunnsamgöngukerfi landsins. Lítil takmörk eru á því hvað forgangsröðun ríkisins í útgjöldum út frá samfélagslegum hagsmunum er tilviljanakennd.
Sjálfur teldi ég þessa útfærslu sanngjarna og næstum ásættanlega í framkvæmd bílastæðagjalda við innanlandsflugvelli:
Á öllum innanlandsflugvöllum hafi flugfarþegar rétt til að geyma bíl gjaldfrjálst í 5-7 daga. Framkvæmdin væri einfaldlega sú að bókunarnúmer og nafn væri skráð inn í bílastæðaappi. Eftirlit er einfalt enda stígur enginn upp í flugvél nema nafngreindur.
Einungis bókunarnúmer vegna innanlandsflugs veitti gjaldfrjálsan bílastæðarétt.
Sama framkvæmd væri á öllum flugvöllum, þ.m.t. Reykjavíkurflugvelli. Einnig öðrum flugvöllum landsins, m.a. þar sem ríkið hefur nýlega malbikað bílastæði, og við ferjuhafnir.
Það er mikill skaði fyrir samgöngumál Austurlands og Norðurlands að taka eigi upp bílastæðagjöld við Reykjavíkurflugvöll rétt eins og við heimaflugvellina. Bílastæði við flugvelli ættu að vera hugsuð fyrir notendur flugvalla og útfærsla ISAVIA nú takmarkar með engu móti að bílum verði lagt í 14 tíma við flugvöll, án þess að notkun tengist nokkuð flugvellinum.
Stefnumörkun í samgöngumálum á ekki að ráðast af ákvörðunum stjórnenda þeirra fyrirtækja sem veita þjónustu á vegum ríkisins. Bílastæðamál við samgöngumiðstöðvar hljóta að koma til umfjöllunar í samgönguáætlun í haust og spennandi er að sjá hvort hún komist undan hæl ISAVIA.
Höfundur er hæstaréttarlögmaður
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.