Tilfinningaflugvallarklámið í Reykjavík?

Austurfrétt:

Ekki tilfinningaklám að segja sannar sögur af sjúkraflugi um Reykjavíkurflugvöll

Sveitarstjóri Múlaþings komst við þegar hún rifjaði upp persónulega reynslu er hún mælti fyrir ályktun um framtíð Reykjavíkurflugvallar á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í síðustu viku. Fulltrúar meirihlutans í borgarstjórn voru nærri einangraðir í andmælum við ályktuninni.

Að tillögunni stóðu tólf bæjarstjórar af landsbyggðinni en það var Dagmar Ýr Stefánsdóttir, sveitarstjóri Múlaþings, sem mælti fyrir tillögunni. Tíu bæjarstjóranna höfðu áður skrifað grein til að vekja athygli á mikilvægi flugvallarins.

„Við höfum öll persónulega reynslu af því hversu mikilvægur völlurinn er til að koma ástvinum í krítísku ástandi undir læknishendur. Sjálf á ég níu ára gamlan son sem ég ætti ekki hefði ég ekki komist á tæka tíð í Landsspítalann þegar hann fæddist tólf vikum fyrir tímann eftir fylgjurof,“ sagði Dagmar Ýr sem komst við þegar hún rifjaði þetta upp. „Fyrirgefið – en mér finnst ótrúlega erfitt að þurfa að rifja þetta upp.“

En hún vatt snarlega við blaðinu. „Við megum ekki fara að missa þetta út í tilfinningaklám,“ sagði hún og uppskar hlátur og klapp úr salnum.

 

Höfuðborgarbúinn getur líka þurft á sjúkrafluginu að halda

Dagmar kom inn á að þar sem Reykjavík væru höfuðborg landsins fylgdi því ábyrgð að tryggja aðgengi að grunnþjónustu. Þess vegna hefði það verði vonbrigði að lesa bókun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur, sem síðar var staðfest af meirihluta borgarstjórnar, um að trjáfellingarnar væru ekki í þágu borgarbúa. „Höfuðborgarbúinn getur líka verið á ferð á landsbyggðinni og fengið hjartaáfall eða lent í slysi,“ sagði Dagmar.

Dagmar sagði að flugvöllurinn væri ekki bara mikilvægur fyrir sjúkraflug, heldur atvinnulíf og starfsemi á landsbyggðinni sem stundum þyrfti á stuttum ferðatíma að halda. Hugmyndir um að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur lýstu þess vegna skilningsleysi á aðstöðu íbúa landsbyggðarinnar.

 

Tryggja þarf frið um Reykjavíkurflugvöll til lengri tíma

Síðustu vikur hefur verið unnið að því að fella trén, þótt flugbrautin hafi ekki verið opnuð. Dagmar sagði það ekki nóg heldur yrði að tryggja frið um flugvöllinn til lengri tíma. Í ályktuninni eru borgaryfirvöld hvött til að tryggja rekstrarskilyrði vallarins þannig að flugöryggi sé ekki ógnað. Það feli í sér að hvorki verið þétt byggð, komið upp nýjum mannvirkjum eða gróðri í nágrenni vallarins né á öryggissvæði hans, fyrr en raunhæf og skýr lausn sé kominn um nýjan völl sem uppfylli skilyrði um sjúkraflug í tengslum við Landspítalann.

Að ályktuninni stóðu einnig bæjarstjórarnir úr Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsveit, Vesturbyggð, Vestmannaeyjum, Norðurþingi, Þingeyjarsveit, Ísafjarðarbæ, Hörgársveit, Svalbarðsstrandarhreppi, Grýtubakkahreppi og Akureyri.

 

Miklir hagsmunir fyrir borgina að flugvöllurinn víki

Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akureyri, kom upp í kjölfar Dagmar og þakkaði henni fyrir að lýsa aðstæðum íbúa landsbyggðarinnar og mikilvægi flugsins. Hún lagði fram breytingartillögu þar sem ályktunin var stytt í að ekki yrðu breytingar gerðar á flugvellinum þar til annar eða betri kostur hefði verið tekinn í notkun. Hins vegar yrði sleppt að minnast á að hvorki yrði bætt við byggingum eða gróðri.

Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur, sagðist skilja hagsmuni landsbyggðarinnar en hagsmunir Reykvíkinga væru líka miklir. Um væri að ræða mögulega besta byggingarsvæði borgarinnar. Hins vegar væri öllum ljóst að markmið aðalskipulags um að völlurinn færi fyrir árið 2032 næðist ekki.

Þá sagði hann vísbendingar um að ekki dygði að fella trén í Öskjuhlíðinni, mögulega þyrfti að fella tré víðar, meðal annars í einkagörðum í Þingholtunum. „Okkur er annt um gróðurinn í bænum. Það er ekki sjálfsagt að sneitt sé ofan af þessum trjám.“

 

Borgin standi við sitt

Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata, sagði að róa þyrfti umræðuna í samfélaginu um flugvöllinn. Tré hefðu aldrei verið metin meira virði heldur en sjúkraflug. Hins vegar hefði borgin ekki fengið allar upplýsingar um stöðuna og hún spurt spurninga á borð við hvort hægt væri að stytta trén frekar en fella og hver skyldi borga. Hún hélt því einnig fram að miðað við ýtrustu viðmið um aðflugslínu ætti jafnvel að taka ofan af sjálfri Öskjuhlíðinni.

Hún sagði borgina standa heilshugar að baki samkomulagi um að flugvöllurinn yrði á sínum stað þar til annar og betri staður fyndist og að borgarbúar gerðu sér grein fyrir mikilvægi farþegaflugsins. Hún ítrekaði þó einnig hagsmuni borgarinnar af því að geta byggt á svæðinu.

Umræðan fór fram undir lok fundarins og hafði fundarstjóri, Helgi Kjartansson oddviti Bláskógabyggðar, beðið ræðumenn um að vera kjarnyrta. Alexöndru gekk það hins vegar illa þannig að Helgi eiginlega klippti á tölu hennar.

 

Eðlilegra að byggja víðar góð sjúkrahús?

Trúlega hefði hún betur átt að líta á það sem greiðasemi heldur en að lýsa óánægju og biðja um að fá að ljúka máli sínu, sem hún fékk rétt fyrir atkvæðagreiðsluna. Þar sagði hún tillöguna inngrip í skipulagsvald Reykjavíkur og óbreytt væri hún trúnaðarbrestur milli Reykvíkinga og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Steininn tók þó úr þegar Alexandra sagði að ósanngjarnt væri að staðsetning sjúkrahússins væri vopnvædd, að með því að eina alvöru sjúkrahús landsins væri byggt við Hringbraut væri það ábyrgð borgarinnar að viðhalda tengingu við þjónustuna. „Auðvitað eigum við að krefjast þess að góð sjúkrahús séu víðar á landinu. Er það ekki eðlilegri krafa í þessu samhengi,“ sagði Alexandra og lenti í orðaskaki við salinn áður en fundarstjóri batt öðru sinni enda á ræðu hennar sem komin var fram yfir tímamörk.

 

Meira annt um lífsbjargandi þjónustu en trjágróður

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, að allir vildu hafa fallegt í kringum sig en aðgengi að Landsspítalanum og lífsbjargandi þjónustu trompaði allar trjáplöntur, sama hvaða nafni þær nefndust. „Ég skil að borgarbúum þyki gaman að hafa tré en okkur sem skrifuðum greinina er meira annt um lífsbjargandi þjónustu.“

Fyrst ákveðið væri að allir skyldu læknast á Landspítalanum gengi ekki að sumir kæmust þangað en aðrir ekki. Talsmenn sveitarfélaganna í landinu hlytu að vera sammála um að allir landsmenn ættu að hafa sem jafnast aðgengi að lífsbjargandi þjónustu, sem annarri þjónustu sem byggð hefði verið upp í Reykjavík.

Hún bætti við umræða um nýjan flugvöll skyti skekkju við á sama tíma og talað væri um innviðaskuld. „Hvar í allri skuldinni er fókusinn á nýjan flugvöll. Hann kostar líka! Ég veit að borgarfulltrúum þykir líka vænt um landsbyggðina – þeir hafa bara aðeins of mikið af trjám í kringum sig!“

 

Reykvíkingar þekkja líka mikilvægi flugvallarins

Einar Þorsteinsson, fyrrum borgarstjóri, sagði að Reykvíkingar ættu líka sögur af mikilvægi flugvallarins. Hans var um bróður hans, sem hefði starfað sem sjúkraflutningamaður í Neskaupstað og þurft að hnoða lífi í mann alla leið upp í Egilsstaði í veg fyrir sjúkraflug. „Þess vegna er óheppilegt að segja að þetta sé ekki í okkar þágu.“

Kjartan Björnsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Árborg, sagði sögðu af eldri Vonfirðingi sem hann hefði kynnst og sagt honum að ef hann fengi hjartaáfall eystra þyrfti hann fyrst í Egilsstaði í veg fyrir flug og eftir það væri ekki gott að þurfa að fara til Keflavíkur og keyra þaðan til Reykjavíkur. Örlög Vopnfirðingsins hefðu reyndar orðið hjartaáfall við veiðar en Kjartan sagðist hafa verða hugsað til mannsins þegar rætt væri um flugvöllinn, enda hefði hann tekið af honum loforð um að styðja við veru vallarins. Við það stæði hann.

 

Borgarfulltrúar einangraðir í atkvæðagreiðslu

Fundarstjórinn vildi bera fyrst upp aðaltillöguna þar sem hún gengi lengra. Það sagðist hann hafa lært á námskeiði þegar hann byrjaði í sveitarstjórnarmálum árið 2010 þar sem Smári Geirsson úr Neskaupstað kenndi fundarsköp. Eftir athugasemdir úr salnum og að hafa rætt við lögfræðinga Sambandsins breytti Helgi ákvörðun sinni og bar breytingatillöguna upp fyrst.

Það skipti engu. Hún var kolfelld. Af upptöku má ráða að ríflega tíu fulltrúar hafi stutt hana, fyrst og fremst úr meirihlutanum í borginni. Aðaltillagan fékk hins vegar yfirgnæfandi stuðning.

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sex og ellefu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband