Innviðaráðherra taki orð sín til baka um Fjarðarheiðargöng

https://www.austurfrett.is/umraedan/innvidharadhherra-taki-ordh-sin-til-baka-um-fjardharheidhargoeng

AF719C7F-1E4A-4582-AC57-A206645C3546_4_5005_cFjarðarheiðargöng eru í sviðsljósinu og umræða komin á einkennilegan stað eftir staðhæfingar innviðaráðherra sem komu fram á fundi á Egilsstöðum. Sérstaklega skal nefna staðhæfingu um að það taki aðeins tvö til þrjú ár að rannsaka og hanna göng milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar. Þetta svæði er órannsakað veðurfarslega, jarðfræðilega og hvað varðar ofanflóð (snjóflóð og aurskriður). Einnig má nefna þau fráleitu orð hans um að ekki þurfi að standa við áætlanir og samninga.

Til eru skrif og annálar um snjóflóð og aurskriður á svæðinu, en það er órannsakað. Gangaleið um Mjóafjörð er því órannsökuð, en vitað er um stór snjóflóð úr Króardal sem er í fjallgarðinum milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar. Snjóflóð úr Króardal koma fram rétt utan við bæinn Fjörð, þar sem þau hafa tekið af mannvirki í eigu Fjarðar á fyrri tíð. Skriðuföll eru algeng rétt innan við Fjörð milli bæjanna Fjarðar og Fjarðarkots (Innri-Fjarðar). Þau hafa ítrekað eyðilagt tún þessara jarða. Skriðuföll eru þekkt á Asknesi. Þar féll krapaflóð á hvalstöðina og í hlíðunum þar fyrir innan hafa fallið skriður. Friðheimur var byggður eftir að hús tók af við hvalstöðina í Hamarsvík innst í Mjóafirði.

Fannardalur er lítt eða ekki rannsakaður hvað snjóalög, snjóflóð og skriðuföll varðar, að sögn veðurfræðings (kom fram í útvarpsviðtali). Þær rannsóknir sem þarf að fara í taka langan tíma til að hægt sé að ákvarða legu ganganna og síðan hönnun þeirra eftirá. Síðast en ekki síst skal nefna umhverfismat sem tekur langan tíma. Ég myndi giska á að þetta tæki ca 10–15 ár.

Fyrir skömmu varð ófært vegna snjóflóðahættu frá Norðfjarðargöngum út í Neskaupstað og því ekki hægt að koma hjálparliði til Norðfjarðar nema sjóleiðina frá Seyðisfirði, eftir að brotist hafði verið yfir Fjarðarheiði. Ekki var hægt að fljúga á þyrlu vegna veðursins og Fagridalur lokaður vegna snjóflóða og skriðufalla. Hólmanes var einnig lokað vegna snjóflóða. Fram kemur í annálum að skriðuföll hafi oft eyðilagt tún og engi á prestssetrinu forna, Hólmum, auk skriðufalla norðan í Hólmatindi.

Innviðaráðherra virðist láta nokkrar hjáróma raddir sem gagnrýna Fjarðarheiðargöng gefa sér ástæðu til að ekki skuli farið í framkvæmdina án þess að hugsa um öryggismál. Það sama virðist ekki eiga við þegar Borgarlína er gagnrýnd.

Að framan sögðu tel ég að innviðaráðherra eigi að taka orð sín til baka og standa við gefin loforð við sameiningu Múlaþings.



Björn Ármann Ólafsson,  4. maður á lista Miðflokksins í Múlaþingi.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og sextán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband