Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
13.11.2022 | 15:26
Áleitnar spurningar um orkupakka
Fjórði orkupakkinn sem inniheldur endurskoðun á helstu þáttum í orkulöggjöf ESB var samþykktur af Evrópuþinginu og ráði Evrópusambandsins í lok maí 2019.
Reglugerðir og tilskipanir fjórða orkupakkans voru birtar í Stjórnartíðindum ESB sumarið 2019. Pakkinn tók við af þriðja orkupakka ESB en er víðtækari og nær til ákvarðana um endurnýjanlega orku, orkunýtni og slíkra þátta. Reyndar sýnist feimnismál að tala um fjórða orkupakkann og er hann af hálfu stjórnvalda kallaður hreinorkupakkinn, kannski í fegrunarskyni.
Þriðji orkupakkinn var samþykktur á Alþingi 2. september 2019. Hann var umdeildur og lagðist ekki vel í þjóðina. Framganga stjórnvalda á þeim tíma vekur spurningar um upplýsingar af þeirra hálfu til Alþingis um lagabreytingar innan ESB á sviði orkumála.
Greining sérfræðinga á þriðja orkupakkanum
Ítarleg lögfræðileg greining af hálfu lagasérfræðinganna Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar sem fylgdi þingályktunartillögu ríkisstjórnarinnar hafði vissa sérstöðu m.a. vegna samskipta þeirra og utanríkisráðuneytis meðan á samningu álitsins stóð. Þeir lýstu tveimur leiðum en lakari kosturinn að þeirra dómi var valinn af hálfu stjórnvalda.
Megintillaga Friðriks Árna og Stefáns Más var að Ísland færi fram á undanþágu frá tveimur tilgreindum reglugerðum í orkupakkanum í heild, m.a. á þeirri forsendu að á Íslandi fari ekki fram raforkuviðskipti milli landa. Reglugerðirnar ættu því ekki við um aðstæður hér á landi.
Hin tillagan var að setja lagalegan fyrirvara við samþykkt pakkans. Á fundi utanríkismálanefndar í ágúst 2019 sagði annar höfunda þetta næstbesta kostinn, sem skilja verður sem lakari kostinn af tveimur. Viðurkenndir lögfræðingar sögðu hinn lagalega fyrirvara haldlausan að þjóðarétti og aðeins til heimabrúks.
Viðvaranir lögfræðilegra ráðunauta
Lögfræðilegir ráðunautar ríkisstjórnarinnar sögðu í álitsgerð sinni erlendri stofnun falið a.m.k. óbeint ákvörðunarvald um skipulag, ráðstöfun og nýtingu mikilvægra íslenskra orkuauðlinda. Þeir sögðu að hér ræddi um meira valdframsal af hálfu Íslendinga en dæmi væru um í 25 ára sögu EES-samningsins. Þeir líktu þeirri ákvörðun sem fyrir lá við að erlendri stofnun væri falið ákvörðunarvald um heildarafla á Íslandsmiðum.
Lögfræðilegir ráðunautar ríkisstjórnarinnar vöruðu við hættu á samningsbrota- og skaðabótamáli sem gæti risið ef aðili sem legði sæstreng að landinu fengi synjun Orkustofnunar við beiðni um tengingu við íslenskt raforkukerfi. Staða Íslands yrði ekki vænleg í slíku máli.
Efni umdeildra reglugerða
Umdeildasta reglugerðin í þriðja orkupakkanum (nr. 713/ 2009), sem lögð var fyrir Alþingi, kvað á um stofnun orkustofnunar Evrópu, ACER, sem hefði vald sem gæti að dómi lögfræðilegra ráðunauta ríkisstjórnarinnar falið í sér a.m.k. óbein áhrif á skipulag, nýtingu og ráðstöfun verðmætra íslenskra orkuauðlinda.
Önnur reglugerð sem ráðunautar ríkisstjórnarinnar gerðu fyrirvara við er um raforkuviðskipti yfir landamæri (nr. 714/2009).
Brottfallnar reglugerðir
Svo bar við að báðar þessar reglugerðir voru felldar brott af hálfu ESB með nýjum reglugerðum sem er að finna í fjórða orkupakkanum.
Þegar ríkisstjórnin aflaði samþykkis Alþingis 2. september 2019 fyrir að taka í íslensk lög Evrópureglugerðir nr. 713 og 714 frá 2009 hafði hin fyrri eins og sjá má í lagasafni ESB misst gildi sitt tveimur mánuðum áður frá og með 4. júlí 2019. Löglærðir sérfræðingar verða að skýra réttaráhrif og lögfylgjur þessa. Hin síðari féll brott í lok árs 2019.
Lögleiðing brottfallinnar reglugerðar
Eftir standa áleitnar spurningar. Vissi ríkisstjórnin ekki af því að nýjar reglugerðir kváðu á um brottfall hinna umdeildu reglugerða þriðja orkupakkans og að sú nr. 713 um evrópska orkustofnun og valdheimildir hennar var þá þegar fallin úr gildi? Óvarlegt sýnist að gera ráð fyrir að ekki hafi í ráðuneytum legið fyrir vitneskja um þetta atriði.
Hvaða skýringar eru á því að ríkisstjórnin upplýsti ekki Alþingi um brottfall reglugerðanna og gildistöku nýrra áður en lagt var fyrir löggjafarþingið að samþykkja í atkvæðagreiðslu 2. september 2019 að veita þegar brottfallinni Evrópureglugerð nr. 713 lagagildi á Íslandi? Lögleiðing brottfallins orkupakka Enda þótt oftlega hafi verið óskað upplýsinga um væntanlegan fjórða orkupakka í umræðum um þriðja orkupakkann upplýsti ríkisstjórnin ekki Alþingi nema í almennum atriðum um fjórða pakkann. Hvaða skýringar eru á því að ríkisstjórnin upplýsti ekki Alþingi fyrir afgreiðslu þriðja orkupakkans um að fjórði orkupakkinn lægi þá þegar fyrir, hefði hlotið samþykki æðstu stofnana Evrópusambandsins og hefði þá þegar a.m.k. að umtalsverðu leyti leyst þann þriðja af hólmi?
Ólafur Ísleifsson, hagfræðingur og fv. alþingismaður.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 5.11.2022
4.11.2022 | 20:28
Þegar lítil þúfa veltir þungu hlassi
Mikil fjárfestingarþörf er til uppbyggingar innviða í Múlaþingi. Takmarkaðir fjármunir eru til ráðstöfunar og því afar mikilvægt að fjárfestingum sé forgangsraðað rétt. Þegar kemur að forgangsröðun viljum við hjá M-listanum líta fyrst til þess sem er okkur dýrmætast, þ.e. barnanna okkar, grunnskóla, tónskóla, leikskóla og fleira.
M-listinn bókaði á 51. fundi Byggðaráðs Múlaþings, þann 19 apríl 2022 undir lið 4, sem varðar fjárfestingu í viðbyggingu og viðgerðir Safnahússins á Egilsstöðum:
Þröstur Jónsson lagði fram eftirfarandi bókun:
Tel að forgangsraða verði framkvæmdum við húseignir sveitarfélagsins grunnskólum og tónlistarskólum í vil. Aðbúnaður barna í Múlaþingi vegur mun þyngra en geymsla muna liðinna forfeðra okkar. Leitað verði samninga ef með þarf við ríkið að fresta öðrum en bráðnauðsynlegum framkvæmdum við Safnahúsið svo hraða megi nauðsynlegum framkvæmdum við grunnskóla og tónlistaskóla í sveitarfélaginu eins og mest má verða.
Ástæður þessa voru að við metum svo að það sé langt um mikilvægara að verja fjármunum í uppbyggingu skóla (á Seyðisfirði og Djúpavogi) heldur en húsnæði yfir koppa og kirnur forfeðra okkar.
Í fyrstu fannst mér ég tala fyrir daufum eyrum og til þess hefur verið vitnað að sveitarfélagið verði að standa við gerðan samstarfssamning við ríkið sem hefur komið með myndarlegt framlag til uppbyggingar menningarhúss/safnahúss sem að mestu hefur farið í lagfæringar á Sláturhúsinu umdeilda. Skv. þeim samning á sveitarfélagið að klára sitt framlag fyrir árslok 2023.
Ég tel hins vegar að það ætti að vera auðsótt fyrir sveitarfélagið að fara fram á það við ríkisvaldið að fresta okkar mótframlags-framkvæmdum við safnahúsið á grundvelli forgangsröðunar fyrir grunnskólana okkar og jafnvel tónskóla. Þar ætti ríkisvaldið að gæta sanngirni sem sjálft hefur nú slegið framkvæmdum í Múlaþingi á frest tam. Axarvegi.
Bókun og málflutningur okkar í þessum efnum hefur samt greinilega sáð fræjum hjá öðrum í sveitarstjórn, því á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings í síðustu viku (24. október) er meðal annars svo bókað við lið 1 er fjallar um fjárhagsáætlun 2023-2032:
Ráðið beinir því jafnframt til byggðaráðs að leita leiða, meðal annars með samtali við ríkisvaldið, til þess að færa framkvæmdir við Safnahúsið á Egilsstöðum aftar í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins svo flýta megi framkvæmdum við grunnskólann á Seyðisfirði og björgunarmiðstöð á Djúpavogi.
Bókun þessi var samþykkt einróma á fundi umhverfis og framkvæmdaráðs.
Við getum ekki annað en fagnað því að upphaflega bókun okkar og málflutningur, hefur orðið til þess að sennilega verður að þessari forgangsröðun og frestun framkvæmda (annarra en bráðnauðsynlegra) við safnahúsið.
Sannast hér máltækið oft veltir lítil þúfa þungu hlassi.
Þannig mun M-listinn halda áfram af rökfestu og skynsemi að berjast af veikum mætti fyrir hag íbúa í Múlaþing.
Þröstur Jónsson
Sveitarstjórnarmaður í Múlaþingi.
https://www.austurfrett.is/umraedan/thegar-litil-thufa-veltir-thungu-hlassi
3.11.2022 | 13:27
Stjórnmálaályktun Flokksráðsfundar Miðflokksins
Flokksráðsfundur Miðflokksins haldinn á Hótel Valaskjálf Egilsstöðum ályktar:
Flokksráðsfundur Miðflokksins þann 29. okt. telur núverandi aðstæður kalla á ríkisstjórn sem bregst við stórum og aðkallandi úrlausnarefnum fremur en að hafa að markmiði að viðhalda völdum. Aðstæður nú kalla á pólitíska stefnu og forystu. Ákvarðanir skulu teknar af kjörnum fulltrúum með tilliti til gefinna loforða og þarfa samfélagsins í stað þess að embættismenn eða aðrir taki þær ákvarðanir.
Flokkráðsfundur Miðflokksins ályktar:
- Um málefni hælisleitenda og öryggi á landamærum. Miðflokkurinn hefur einn flokka varað við afleiðingum þess að Ísland sé nánast auglýst í útlöndum sem besti ákvörðunarstaður hælisleitenda. Afleiðingar stefnuleysis í málaflokknum blasa nú við. Fjöldahjálparstöðvum, sem í raun eru flóttamannabúðir, hefur verið komið upp og opinberar stofnanir eru í samkeppni um húsnæði við borgara í húsnæðisleit. Nú þegar þarf að afnema öll séríslensk ákvæði úr regluverki útlendingalaga. Þau ákvæða virka sem segull á fjölda umsókna um alþjóðlega vernd á Íslandi og gera okkur erfiðara fyrir að gera vel við þá sem eru í mestri neyð. Ísland má ekki verða andlag sölustarfsemi glæpagengja sem gera sér neyð fólks að féþúfu.
- Um löggæslu Miðflokkurinn leggur sem fyrr mikla áherslu á eflingu löggæslu. Skipulögð glæpastarfsemi hefur haslað sér völl á Íslandi, ofbeldisbrotum fjölgar og þau verða sífellt alvarlegri. Stórfelld fíkniefnabrot eru fleiri og stærri en verið hefur. Miðflokkurinn vill bæta úrræði lögreglu og tryggja að um leið og rannsóknarheimildir séu efldar sé eftirlit með aðgerðum lögreglu með þeim hætti að gagn sé af.
- Um heilbrigðismál. Miðflokkurinn telur að forvarnir séu grundvöllur að öflugu heilbrigði þjóðarinnar. Eitt af höfuðbaráttumálum flokksins er gjaldfrjáls skimun fyrir alla. Miðflokkurinn telur ríkjandi biðlistaómenningu óþolandi. Miðflokkurinn vill að nú þegar verði gengið til samninga við einkareknar sjúkrastofnanir þar sem það á við til þess að vinna bug á biðlistum. Miðflokkurinn vill að horfið verði frá samþjöppun þjónustu og hún færð nær notendum þjónustunnar.
- Um aldraða Miðflokkurinn vekur athygli á stefnu sinni í öldrunarmálum - ,,Frá starfslokum til æviloka. Þar er lögð til samfelld einstaklingsmiðuð þjónusta við aldraða. Þar er einnig kveðið á um aukna heimaþjónustu og búsetuúrræði sem brúi bilið milli heimilils og hjúkrunarheimila. Jafnframt minnir Miðflokkurinn á stefnu flokksins sem gengur lengra en nokkur önnur við að draga úr skerðingum vegna annarra tekna lífeyrisþega.
- Um öryrkja Miðflokkurinn vill að nú þegar verði staðið við fyrirheit til öryrkja, meðal annars varðandi skerðingar á bótum. Jafnframt verði núverandi örorkumat endurskoðað með tilliti til mismunandi þarfa öryrkja.
- Um landbúnaðarmál og fæðuöryggi Miðflokkurinn vísar til framkominnar þingsályktunartillögu flokksins um stóreflingu innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar. Mikilvægara er nú en nokkru sinni fyrr að tryggja fæðuöryggi og aðgengi landsmanna að heilnæmum afurðum. Neysla heilnæmrar fæðu bætir heilsu, eykur lífsgæði og er öflug forvörn. Miðflokkurinn hafnar öllum áætlunum Matvælaráðherra um samdrátt í innlendri kjötframleiðslu og takmörkunum á notkun áburðar til ræktunar lands.
- Um byggðamál Miðflokkurinn vísar til stefnu sinnar ,,Ísland allt. Þar er á skýran hátt lýst hvernig efla megi byggð hvarvetna á Íslandi og tryggja að tækifæri landsmanna verði hin sömu óháð búsetu. Nauðsynlegt er að landsbyggðin komist í arðbæra sókn úr þeirri langvarandi kostnaðarsömu vörn sem hún hefur verið í.
- Um fjármál ríkisins Miðflokkurinn gagnrýnir harðlega þann vöxt sem hefur orðið í opinberum útgjöldum á liðnum árum. Miðflokkurinn vill að horfið verði frá gamaldags skattastefnu núverandi ríkisstjórnar sem m.a. viðheldur verðbólgu með árlegum hækkunum á ýmsum gjöldum sem bitna helst á þeim sem minnst mega sín. Miðflokkurinn geldur enn varhug við svokölluðum ,,grænum sköttum sem bitna á fólki og fyrirtækjum og draga úr framtaki og framförum.
- Um nýtingu orkuauðlinda. Á tímum þegar orkuskortur ríkir í heiminum og orkuverð er í hæstu hæðum er ekki rétt að hafna vinnslu á auðlindum í efnahagslögsögu Íslands. Miðflokkurinn vill að þegar verði gefin út rannsóknar- og vinnsluleyfi til öflunar á gasi og olíu sem líkindi eru til að finnist í lögsögu Íslands. Einnig þarf að nýta allar orkulindir til lands og sjávar til atvinnuuppbyggingar ásamt orkuskiptum. Miðflokkurinn áréttar þá skoðun að Landsvirkjun verði í eigu ríkisins og að orkupakkar Evrópusambandsins henti ekki íslenskum aðstæðum.
- Um einföldun regluverks Núverandi ríkisstjórn er eins og flestum er kunnugt kerfisstjórn sem þvælist fyrir fólki og fyrirtækjum og gerir þeim erfiðara fyrir við að vaxa og dafna. Óþolandi flækjustig fylgir því að hefja atvinnurekstur og þróa hann áfram. Afgreiðslutími erinda eftirlitsstofnana er iðulega of langur sem verður ítrekað til tafa og tjóns. Miðflokkurinn vísar til þingsályktunartillögu sinnar um einföldun regluverks.
- Um menntamál Ríkisstjórnin skilar auðu í menntamálum eins og víðar. Miðflokkurinn vill að nú þegar verði gerðar alvöru ráðstafanir til að efla iðn- og tækninám. Hundruð hafa ekki fengið inni í iðnnámi meðan skortur er á iðnmenntuðu fólki í nánast öllum greinum. Miðflokkurinn vill að lestrar- og móðurmálskennsla verði stórefld nú þegar. Miðflokkurinn leggur áherslu á gæði námsgagna fyrir öll börn og að þeim séu tryggð jöfn tækifæri í stafrænni þróun, fjölbreytni námsgagna og aðgang að þeim. Miðflokkurinn vill tryggja menntun fyrir alla og að skólinn sé öruggur staður fyrir öll börn.Koma þarf í veg fyrir gengisfellingu iðnnáms með því að verja löggildingu og koma í veg fyrir að einstaklingar án réttinda gangi í störf fagmanna.
- Ferðamál. Síaukinn ferðamannastraumur veldur miklu álagi á viðkvæma náttúru Íslands. Miðflokkurinn leggur til að gjald verði lagt á alla farmiða til Íslands með það að markmiði að standa straum af nauðsynlegri uppbyggingu og verndaraðgerðum.
- Um samgöngumál. Miðflokkurinn leggst gegn veggjöldum sem munu stuðla að mismunun milli landsmanna. Miðflokkurinn styður áframhaldandi veru Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri sem er hvorttveggja í senn nauðsynleg tenging landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins og varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll. Miðflokkurinn minnir á að hlutverk flugvallarins er mikilvægara nú en áður vegna óheppilegrar samþjöppunar sjúkrastofnana og sérfræðiþjónustu á Höfuðborgarsvæðinu.
Þau mál sem Miðflokkurinn hefur frá stofnun sett á oddinn eru nú flest í miðju umræðunnar. Hvort sem horft er til útlendingamála, orkumála, fæðuöryggis eða tjáningarfrelsis einstaklingsins, hafa sjónarmið og stefna Miðflokksins aldrei verið mikilvægari en einmitt núna. Það munar um Miðflokkinn.
Öflugt atvinnulíf er forsenda þess að hægt sé að styðja við og efla þau velferðarkerfi sem eru landsmönnum svo mikilvæg. Án öflugrar verðmætasköpunar verður okkur sniðinn þrengri stakkur en annars væri hvað útgjöld til velferðarmála varðar.
Skynsamleg nýting auðlinda landsins verður að vera í forgangi til að íslenskt samfélag vaxi, dafni og eflist. Ísland allt!
31.10.2022 | 12:24
Flokksráðsfundur Miðflokksins á Egilsstöðum
Flokkráðsfundur Miðflokksins var haldinn laugardaginn 29.10 sl. að viðstöddum kjarna flokksins. Mikil stemming var meðal fundarmanna og samhugur.
Miðflokkurinn virðist vera að ná flugi aftur eftir slaklegt gengi undanfarið og ítrekað verður vart við að þeir sem áður gerðu lítið úr málflutningi Miðflokksins og töluðu hann niður, hafa í ríkara mæli tekið undir það sem hann hefur haft fram að færa og gert að sínu. Þetta hefur oft verið nefnt að skreyta sig með stolnum fjöðrum.
Ræða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar var ýtarleg og farið yfir sviðið vegna Covid-19, þar sem stjórnvöld gátu í skjóli faraldursins, nýtt sér að þjóðin sameinaðist að baki hennar í baráttunni við faraldurinn og gat ýtt öðrum úrlausnarefnum á undan sér. Ríkisstjórnin er verkfælin og situr sem fastast og heldur traustataki í ráðherrastólana og virðist það vera þeirra stóra markmið í stjórn landsins, - ekki endilega að vinna landi og þjóð gagn.
Formaðurinn benti á að ekki fari saman orð og athafnir stjórnenda landsins. Til hvers eru þessir flokkar í ríkisstjórn?
Sjálfstæðisflokkurinn hefur ítrekað barist fyrir að lækka ríkisútgjalda, að minnka báknið, að koma á frelsi til athafna, að vinna með lög og reglur og að koma á skipulagðri innflytjandastefnu. Allir eru meðvitaðir um árangur Sjálfstæðisflokksins.
Framsóknarflokkurinn skreytir sig á ýmsan hátt. Með byggðarstefnu, enga gjaldtöku í samgöngum, að hlúa að landbúnaði og atvinnu yfirleitt. Skynsemishyggjan hefur vikið fyrir hugmyndum 101Reykjavík og flokkurinn er færist nær því að vera í atvinnumiðlun en að vera í pólitík.
VG virðist heillum horfinn og vinnandi fólk á þar ekki lengur Hauk í horni. Flokkurinn virðist horfinn frá að standa vörð um fullveldismálum, skilur ekki orkuöflun í samhengi við orkuskipti og að afla orku, sem leiðir til fjölgun starfa. Vatnsorkan virðist ekki flokkast sem græn orka hjá VG og landbúnaðinn styður hann sannanlega ekki.
Formaðurinn fór yfir atvinnumálin og sérstaklega benti hann á sóun í matvælageiranum í boði stjórnvalda, sem tekst ekki að aðlaga matarsóun að raunveruleikanum né stilla saman verknámið og skólana til að koma á móts við ungmenni, sem eru að sinna kalli um fjölgun í stétt iðnaðarmanna.
Heilbrigðiskerfið þarfnast endurskoðunar og virðist eingöngu vera í vörn, lítið þokast í átt til forvarna, sem mundi minnka verulega álagið á Landspítalann.
Sigmundur Davíð fjallaði um rétttrúnaðinn í samfélaginu og þá múgsefjun sem ítrekað á sér stað og gagnrýnislaus í fjölmiðlun, sem oft á sér stað þegar slúður á samfélagsvefum er tekið og fjölfaldað sem frétt og reynist oft, þegar að er gáð, innistæðulaust og rætið innlegg óvandaðs málshefjanda.
Senn líður að ögurstund í íslenskum stjórnmálum og Miðflokkurinn verður tilbúinn
Kosnir voru formenn í nefndir flokksins og var framboð umfram eftirspurn, - lúxusvandamál.
a) Formaður nefndar um innra starf var kjörinn Ómar Már Jónsson
b) Formaður málefnanefndar var kjorinn Þorgrímur Sigmundsson
c) Formaður upplýsinganefndar var kjörin Ingibjörg Hanna Siurðardóttir
Stjórnmálaályktun var samþykkt og veður innlegg á næsta flokksþingi.
Nálgast má frekari upplýsingar á midflokkurinn.is jafnóðum og tími vinnst að setja það inn um málefni flokksins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2022 | 15:33
Miðflokkurinn á ferð og flugi
Flokksráðsfundur er nú haldinn á Egilsstöðum. Á föstudagskvöldið fyrir fund, gafst fulltrúum kostur á að fara óvissuferð um Fljótsdalshérað. Stoppað var í Hallormsstaðaskóla og boðið upp á kaffi, vöfflur og heimagerðar sultur úr heimabyggð. Skólameistarinn Bryndís Fiona Ford flutti fulltrúum magnað erindi og dró ekkert undan um kerfislægan, íþyngjandi vanda, sem er manngerður og þar fer ekki saman hljóð og mynd hjá stjórnvöldum.
Á Skriðuklaustri voru jafnframt hlýjar móttökur með snafs og réttum úr héraði að hætti Elísabetar Þorsteinsdóttir. Í fjarveru forstöðumanns fór Ólöf Sæunn Valgarðsdóttir yfir sögu staðans og gerði það á eftirminnilegan hátt.
Ekki var ferðin endaslepp því hún endaði í Vök-Baths, þar sem fulltrúar létu líða úr sér ferðaþreytuna við að koma sér austur. Létt spjall í afslappandi umhverfi setti punktinn á eftir áhugaverðan dag.
24.10.2022 | 21:11
Um leiðarval að Fjarðarheiðargöngum
Austurfrétt 24.10.2022
Á fundi sveitarstjórnar Múlaþings þann 14. september síðastliðinn var ákvörðun umhverfis- og framkvæmdaráðs um leiðarval vegna Fjarðarheiðarganga Héraðsmegin staðfest.
Var þar með samþykkt að vegur að Fjarðarheiðargöngum liggi um þá leið sem Vegagerðin hefur kynnt sveitarfélaginu og kölluð er hin nýja suðurleið. Aðrar forsendur þessarar ákvörðunar eru meðal annars að vegtenging um Melshorn haldi sér á aðalskipulagi og að um þá leið verði Borgarfjarðarvegur tengdur við hringveginn í fyllingu tímans. Jafnframt er lögð áhersla á að sett verði ný vegtenging frá Selbrekku inn á Fagradalsbraut.
Aðdragandi þessarar ákvörðunar er drjúgur, eins og kemur fram í umhverfismatsskýrslu framkvæmdanna. Árið 2020 lagði Vegagerðin til við starfshóp á vegum bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs að jarðgangamunninn yrði við Dalhús. Rök fyrir þeirri staðsetningu eru meðal annars að þannig næst meiri ávinningur fyrir samfélagið á Austurlandi í heild auk þess að með þessari staðsetningu næst jafnframt stytting á jarðgöngunum.
Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs féllst á þessa tillögu Vegagerðarinnar en þar með var ljóst að gildandi aðalskipulag Fljótsdalshéraðs þyrfti að breyta enda er í gildandi aðalskipulagi gert ráð fyrir að gangnamunninn sé við Steinholt. Vegagerðin vann fyrst tillögu að matsáætlun fyrir umhverfismat og var hún kynnt í október 2020. Í framhaldi var gerð umhverfismatsskýrsla sem var kynnt með tillögu Vegagerðarinnar um aðalvalkost í apríl síðastliðnum. Þessi gögn má kynna sér á vefsjá Vegagerðarinnar um framkvæmdina https://fjardarheidargong.netlify.app/.
Samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana þarf Vegagerðin að færa rök fyrir vali sínu á aðalvalkosti í umhverfismatsskýrslu. Með hliðsjón af þeim þáttum sem þar voru til skoðunar lagði Vegagerðin til að farin verði svonefnd suðurleið Héraðsmegin og að einnig verði ný veglína Seyðisfjarðarmegin.
Í umhverfismatsskýrslu koma suðurleið og miðleið betur út en norðurleið hvað varðar umferðaröryggi, kostnað, þjóðhagslegan ávinning og áhrif á náttúrufar, landnotkun, fornleifar og samfélagsleg áhrif. Vegagerðin telur því mestan ávinningin koma fram með því að fara suðurleið.
Matið sýnir einnig að allir valkostir fela í sér rask innan verndarsvæða og á vistgerðum, þ.e. birki og votlendi, sem njóta verndar skv. 61. gr. Náttúruverndarlaga. Því er gert ráð fyrir mótvægisaðgerðum sem felast í uppgræðslu og endurheimt vistgerða.
Sú aðalskipulagsbreyting sem nú er unnið að á sér því umtalsverðan aðdraganda. Vinnslutillaga fyrirhugaðra breytinga á aðalskipulagi var kynnt íbúum 14. júlí sl. og var frestur til að senda inn athugasemdir til 25. ágúst.
Það er mikilvægt að fá fram afstöðu íbúa og annarra hagsmunaaðila til þeirra valkosta sem fjallað er um í umhverfissmatsskýrslu framkvæmdanna (suðurleið, miðleið og norðurleið) og var það gert með opnum fundum þar sem kjörnir fulltrúar og starfsfólk sveitarfélagsins og Vegagerðarinnar voru til viðtals og sátu fyrir svörum um framhaldið. Fáar athugasemdir komu frá íbúum á þessum kynningartíma.
Í kjölfar þessa ferlis tók sveitarstjórn ákvörðun um leiðarvalið og er nú unnið að gerð endanlegrar tillögu til breytinga á aðalskipulaginu í samræmi við þá ákvörðun. Sú tillaga kemur síðan til sveitarstjórnar til afgreiðslu þegar hún verður orðin fullunnin síðar í vetur.
Það er ljóst að sveitarfélagið þarf síðan einnig að horfa á þessa skipulagsbreytingu í stærra samhengi. Þar má vísa til þess við horfum til þess hvernig ný veglína getur átt samleið með stækkun flugvallar sem og legu nýrrar Lagarfljótsbrúar. Enda berum við þá von í brjósti að skammt sé í þær framkvæmdir.
Við teljum að með hinni nýju suðurleið myndist tækifæri til að færa Lagarfljótsbrúnna innar og best væri að ná þjóðveginum inn fyrir þéttbýlið án þess að aftengja það um of. Horfandi til möguleika á lengingu flugbrautarinnar, það er til suðurs eins og gert er ráð fyrir í gildandi aðalskipulagi, teljum við að ná megi því markmiði að koma þungaumferð út fyrir þéttbýlin okkar hér við fljótið án þess að missa snertiflöt við bæinn, þannig að vegurinn liggi einkum að og um svæði fyrir verslun, þjónustu og iðnað.
Það má fastlega gera ráð fyrir því að þegar Seyðfirðingar og Fjarðarbúar koma í Egilsstaði til að sinna sínum erindum munu þeir áfram fara um miðleið. Umferð um hana mun hinsvegar minnka verulega því sú umferð sem ekki á beint erindi í Egilsstaði mun fara um suðurleið.
Suðurleiðin skapar möguleika á beinni tengingu af þjóðvegi inn á iðnaðarsvæðið á Miðási sem er gríðarlega mikilvægt og grunnforsenda þess að við náum því markmiði að þungaflutningar verði sem mest utan bæjarmarkanna. Til að ýta enn frekar undir þetta markmið má einnig beita ýmsum takmarkandi umferðarstýringum með þetta fyrir augum þó að tekið verið tillit til innanbæjarflutninga. Sú útfærsla bíður betri tíma og mögulegt er að til þess þurfi ekki að koma rætist sú ósk okkar að þungaflutningar leiti í akstur um beina og breiða þjóðvegi frekar en að fara um miðbæinn.
Sú gagnrýni hefur komið fram að betra hefði verið að hugsa til framtíðar hvað varðar stækkun byggðar áður en veglína yrði ákveðin. Í því sambandi er rétt að benda á að í gildandi aðalskipulagi er töluvert rými til stækkunar þéttbýlis sem ekki er búið að fullnýta og skerðist á engan hátt við þetta leiðarval. Það verður síðan eitt af verkefnunum við gerð nýs aðalskipulags að ákveða næstu skref í stækkun þéttbýlisins. Fjölmargir góðir valkostir standa til boða hvað það varðar og gildir þá einu hvaða leið hefði verið valin fyrir þessar framkvæmdir.
Við erum þess fullviss að þessi ákvörðun sveitarstjórnar að samþykkja tillögu Vegagerðarinnar verði okkur öllum til heilla og að við munum innan skamms sjá vinnu við Fjarðarheiðargöng hefjast.
Höfundur er forseti sveitarstjórnar og formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings
https://www.austurfrett.is/umraedan/um-leidharval-adh-fjardharheidhargoengum
Þröstur Jónsson, bæjarstjórnarfulltrúi M-listans, bregst við á Facebook síðu sinni:
Drottinn blessi Múlaþing.
Þessari andvanafæddu grein verður klárlega svarað.
Enda hef ég málfrelsi í fjölmiðlum....ennþá.
En Jónína og Co reyndu að þagga niðir í mér með því að skáka mér út af borðinu með tilhæfulausri vanhæfiskröfu sem ég kærði til ráðuneytis, sem í kjölfarið skoðsr nú hvort þurfi að taka stjórnsýslu Múlaþings til rannsóknar.
Sjá umfjöllun um vanhæfi hér að neðan þann 7.7.2022.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.11.2022 kl. 19:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.7.2022 | 22:38
Múlaþing. Á að hengja bakara fyrir smið eða skjóta sendiboðann?
Meirihlutinn í Múlaþingi eru í sérkennilegri vegferð gegn heilbrigði umræðu og ákvarðanatöku og var það tilefni greinar í Austurfrétt. Er meirihlutinn í Múlaþingi að fara á skjön við stjórnarskrá Íslands og þverbrjóta grein hennar um tjáningar- og skoðanafrelsi?
Harðar deilur um hæfi fulltrúa í umræðum um veglínur frá Fjarðarheiðargöngum
Austurfrétt Höfundur: Gunnar Gunnarsson Skrifað: 06. júlí 2022.
Tveir fulltrúar Miðflokksins í ráðum Múlaþings voru í gær ákvarðaðir vanhæfir vegna ættartengsla af meirihluta ráðum í málum sem snúa að veglagningu frá Fjarðarheiðargöngum á Héraði. Fulltrúarnir eru ósammála og hafa ákveðið að leita réttar síns hjá innanríkisráðuneytinu. Minnihlutinn gagnrýndi málsmeðferðina við umræður í sveitarstjórn.
Málið kom fyrst upp á sveitarstjórnarfundi fyrir viku þar sem vakin var athygli á mögulegu vanhæfi Þrastar Jónssonar, fulltrúa Miðflokksins. Þröstur er bróðir Gunnars Jónssonar, bónda og skráðs eiganda Egilsstaðabýlisins en mögulegar veglínur liggja bæði um land þess sem og Dalhúsa, sem býlið á hluta í.
Þröstur er einnig áheyrnafulltrúi í byggðaráði. Þar var hann ákvarðaður vanhæfur í atkvæðagreiðslu í gær. Þriðji bróðirinn, Sveinn, sat fund umhverfis- og framkvæmdaráðs í gær sem áheyrnarfulltrúi Miðflokksins og var einnig ákvarðaður vanhæfur.
Deilur hafa verið um veglínurnar. Væntanlegur munni Fjarðarheiðarganga verður í landi Dalhúsa en þaðan liggja vegir annað hvort beint í Egilsstaði, norður fyrir þéttbýlið eða suður fyrir. Fulltrúar Miðflokksins hafa talað fyrir Norðurleiðinni meðan samstaða hefur virst meðal annarra fulltrúa í sveitarstjórn um Suðurleiðina, sem Vegagerðin mælir með. Allar leiðirnar liggja að einhverju leyti um land Egilsstaðabýlisins.
Um vanhæfi
Um vanhæfi fulltrúa í sveitarstjórnum og ráðum er fjallað í 20. grein sveitarstjórnarlaga. Er þar talað um að fulltrúar teljist vanhæfir til að fjalla um mál sem varði náið venslafólk sem þeir séu skyldir í beinan legg, eins og í þessu tilfelli. Síðan er bætt við um að vanhæfið eigi við ef ætla megi að viljaafstaða fulltrúans mótist af einhverju leyti þar af. Tekist er á um þessa túlkun.
Samkvæmt lögunum er ætlast til þess að fulltrúar veki sjálfir máls á vanhæfi, án tafar. Sé vafi um vanhæfi eru greidd um það atkvæði. Má fulltrúinn þá ekki hafa áhrif á meðferð eða afgreiðslu málsins með neinum hætti og skal ávallt yfirgefa fundarsal.
Ströng túlkun á líkum á vanhæfi
Á sveitarstjórnarfundinum lá fyrir álit lögfræðings Múlaþings, Jóns Jónssonar, á hæfi Þrastar. Í áliti sínu tekur lögfræðingurinn tvö dæmi. Annað er úrskurður ráðuneytis um hæfi fulltrúa í Mýrdalshreppi frá 2009, oft notað sem dæmi fyrir sveitarstjórnarfólk. Þar átti fulltrúi tvær jarðir sem tengdust veglínum sem meta þurfti inn á aðalskipulag. Ráðuneytið taldi að landareign ein og sér við meðferð almenns máls sem aðalskipulags ylli ekki vanhæfi. Hins vegar gæti verðmætarýrnun eða aukning eignanna ráðið viljaafstöðu og þar með valdið vanhæfi, þótt ekki lægi fyrir hve mikil hún væri.
Hitt dæmið var úrskurður Úrskurðarnefndar í umhverfis- og auðlindamálum frá 2020 um hæfi fulltrúa hjá Reykhólahreppi í máli Teigsskógar. Var þar horft til þess að um væri að ræða fámennt sveitarfélag og framkvæmd sem skipti alla íbúa þess máli. Hagsmunir fulltrúar í því máli voru ekki taldir það ríkir að þeir kölluðu á vanhæfi.
Í áliti sínu segir lögfræðingur Múlaþings að val á veglínum geti falið í sér umtalsverða fjárhagslega hagsmuni fyrir landeigendur á svæðinu, fyrir utan önnur áhrif framkvæmda. Lögfræðingurinn segir ekki verið að ræða almennt skipulag heldur einstakar veglínur og umfangið sé slíkt að það geti haft einhver áhrif á afstöðu skyldmenna Þrastar. Eins geti þátttaka fulltrúar í afgreiðslunni valdið efasemdum út á við vegna tengslanna. Lögfræðingurinn telur því nokkrar líkur á að Þröstur teldist vanhæfur. Mögulegt vanhæfi Sveins sé á sömu forsendum.
Samkvæmt gögnum sem Austurfrétt hefur undir höndum óskaði Björn Ingimarsson, sveitarstjóri, eftir álitinu þann 22. júní síðastliðinn og það barst daginn eftir. Á fundinum þann 29. júní var málinu frestað, eftir miklar umræður og gagnrýni og leitað álits lögfræðings Sambands íslenskra sveitarfélaga. Sá svarar degi síðar að lögmaður sveitarfélagsins hafi náð vel utan um máli en bætir við að Mýrdalsmálið gefi efni til að Múlaþing beiti fremur strangri túlkun í sínu máli.
Skammur fyrirvari
Á sveitarstjórnarfundinum í síðustu viku sagðist Þröstur fyrst hafa heyrt af því rúmum sólarhring fyrir fund að fyrir lægi álit um hæfi hans. Hann kvaðst hafa mætt til fundar með forseta sveitarstjórnar, sveitarstjóra og lögmanninum með sinn eigin lögmann sem lagt hefði fram aðra túlkun og að meira væri gert úr málinu en efni væru til.
Þröstur sagði blóðtengsl ein ekki duga til vanhæfis, heldur yrði hann að hafa verulega hagsmuni af tengslunum. Þeir væru ekki til staðar, hann væri til dæmis ekki lögerfingi af jörðunum. Hann varaði við að málið gæti gefið hættulegt fordæmi. Hægt væri að ræða vanhæfi í ýmsum öðrum málum þar sem tengingar fulltrúa veittu oft dýrmæta þekkingu við umræðurnar.
Fulltrúar minnihlutans sögðust aðeins hafa verið látnir vita af mögulegu vanhæfi kvöldið áður og gagnrýndu harðlega hversu langur tími hefði liðið frá því álitið lá fyrir þar til annars vegar Þresti sjálfum var tilkynnt um það, hins vegar þeim.
Það er með ólíkindum að Þröstur hafi heyrt af þessu fyrst í gær. Ég skil ekki hvað fólki gengur til að ræða málið ekki fyrst við hann heldur fela lögmanni að vinna álitið, sagði Helgi Hlynur Ásgrímsson, fulltrúi Vinstri grænna. Hann gagnrýndi einnig að keypt hefði verið vinna af lögmanni sem starfi á einkastofu og selji sveitarfélaginu vinnu sína samkvæmt tímaskýrslu frekar en leita beint til Sambands sveitarfélaga.
Ég er rasandi bit yfir þessu. Mér finnst fyrir neðan allar hellur að þeir aðilar sem álitið fjallar um fái ekki að vita af þessu fyrr. Síðan er búinn að vera oddvitafundur, minnihlutafundur, meirihlutafundur. Þessi vinnubrögð eru ekki til neinnar fyrirmyndar, sagði Eyþór Stefánsson, Austurlista.
Opnun ormagryfju?
Eyþór benti einnig á að fulltrúar sem tengdust ættinni hefðu áður ekki talist vanhæfir í umfjöllun um skipulagsmál Egilsstaðaþorps þótt býlið nánast umlyki það. Sjálfur var Gunnar bæjarfulltrúi á árunum 2006-2020, þar af áratug í meirihluta. Ég velti fyrir mér hvaða ormagryfju við kunnum að vera opna ef ef þeir sem hafa tengsl við Egilsstaði mega ekki hafa skoðun á skipulaginu á Egilsstöðum. Ívar Karl Hafliðason, Sjálfstæðisflokki, sagði mikilvægara að horfa fram á við og gera hlutina rétt héðan í frá frekar en hugsa um fortíðina.
Bæði Eyþór og Helgi Hlynur bentu einnig á að Þröstur hefði haft uppi hvað harðasta gagnrýni á Suðurleiðina innan sveitarstjórnarinnar. Að úrskurða hann vanhæfan nú, þegar málið hafi verið til meðferðar í tvö ár, líti út eins og verið sé að þagga niður í gagnrýni. Þeirra mat væri að afstaða Þrastar markaðist ekki af tengslunum. Ég held að Þröstur hafi fengið brautargang inn í sveitarstjórn vegna þessa máls. Það er mjög alvarlegt ef við ætlum að þagga niður í þeirri rödd, sagði Helgi Hlynur.
Ásrún Mjöll Stefánsdóttir, fulltrúi VG, spurði út í hvers vegna Þröstur hefði ekki fengið að vita af álitinu fyrr og hvers vegna frekar hefði verið leitað til lögmanns sveitarfélagsins fremur en Sambandsins. Björn svaraði að almennt hefði verið leitað til lögmanns sveitarfélagsins í álitamálum, það væri ekki nýtt. Ekki væri nýtt að vanhæfi fulltrúa vegna fjölskyldutengsla væri rætt og þeir þyrftu að víkja. Björn sagði sér hafa borist umræða um mögulegt vanhæfi og hann þá lagt til að fá álitið. Að lokinni kynningu á því fyrir meirihlutanum hafi honum verið falið að ræða við Þröst. Það hafi hann reynt tveimur dögum fyrir fundinn en þeir ekki náð saman.
Nauðsyn að fá vissu
Þröstur, sem aðrir fulltrúar minnihlutans, sögðu lögfræðiálitið loðið og enga skýra niðurstöðu að finna í því. Fulltrúar meirihlutans vöruðu við mögulegt vanhæfi gæti valdið því síðar meir að ferlið yrði ógilt. Slíkt gæti reynst bagalegt á sama tíma og verið sé að reyna að herða á gangnagerðinni. Þeir sögðu einnig að málið væri nú komið á annað stig, af kynningarferli yfir í að taka þyrfti bindandi ákvarðanir og það yrði þar með viðkvæmara. Við viljum vera viss um að ekkert geti komið aftan að okkur um að málsmeðferð sveitarfélagsins sé ekki eins og vera ber, sagði Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar og oddviti Framsóknarflokks. Þótt blóðið sé ekki alltaf þykkt er almennt litið svo á að einhver tengsl geti haft áhrif, bætti hún við.
Fulltrúar meirihlutans sögðu engan skemmtun að þurfa að taka þessa ákvörðun. Þeir höfðu ásökunum um að verið væri að þagga niður gagnrýni, þeir gerðu sér vel grein fyrir alvarleika þess að hindra hæfan fulltrúa til umræðu með vanhæfisákvörðun, nokkuð sem Þröstur hafði eftir sínum lögmanni að væri enn alvarlegra en að vanhæfur fulltrúi tæki þátt. Meirihlutinn benti hins vegar á að Þröstur ætti rétt á að kalla til varamann sem fylgt gæti eftir stefnu Miðflokksins.
Það er ótrúlegt hve stór orð falla hér, um að við í meirihlutanum séum að leggja upp eitthvert leikrit. Það er ekki í gangi. Því fer fjarri að það sé það sé óskhyggja okkar að Þröstur sé vanhæfur, sagði Berglind Harpa Svavarsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins sem jafnframt lét þess getið að ýmsar ábendingar Þrastar í umræðum hefðu bætt málsmeðferðina. Það breytti því þó ekki að fara þyrfti að lögum. Helgi Hlynur svaraði því að stór orð væru eðlileg. Þótt fólki gangi gott eitt til þá er þetta léleg framkvæmd.
Leita úrskurðar ráðuneytis
Við umræðurnar bar Eyþór upp tillögu að umræðu yrði frestað. Sex greiddu atkvæði með henni, fimm sátu hjá. Í kjölfarið var sem fyrr segir leitað álits lögfræðings Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það lá fyrir þegar umhverfis- og framkvæmdaráð annars vegar og byggðaráð hins vegar funduðu í gær. Á fundum þeirra beggja greiddu atkvæði Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Austurlista atkvæði með vanhæfi bræðranna Þrastar og Sveins en fulltrúar VG sátu hjá.
Í bókunum bræðranna segir að ráðin hafi kosið þá vanhæfa, þrátt fyrir aðvörun lögfræðings sambandsins um að túlka skuli lög um vanhæfi strangt (þröngt). Þeir lýsa því yfir að þeir muni leita úrskurðar innanríkisráðuneytisins eða eftir föngum dómstóla og þar til endanleg niðurstaða fáist sé eðlilegt að fresta allri frekari málsmeðferð. Ábyrgð þeim sem töfum sem það geti valdið á verkinu sé alfarið þeirra sem greitt hafi atkvæði með vanhæfinu.
Í bókun Þrastar tekur hann enn fremur fram að ekkert hafi komið fram í hans tilfelli sem sýni að afstaða hans kunni sérstaklega að mótast af blóðböndunum, sem ein og sér dugi ekki til vanhæfis. Þá telur hann það til vansa að kosningu um vanhæfi hans hafi verið frestað á opnum sveitarstjórnarfundi en fari fram á lokuðum fundi byggðaráðs.
Hjá byggðaráði var vanhæfið afgreitt þegar tekin var til umræðu bókun heimastjórnar Seyðisfjarðar til sveitarstjórnar Múlaþings um að hraða ákvörðun leiðarvals frá gangamunna Héraðsmegin svo framkvæmdir tefjist ekki. Bókunin var lögð fram til kynningar. Örn Bergmann Jónsson, varafulltrúi, sat liðinn í stað Þrastar.
Á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs lá fyrir vinnslutillaga um breytingu á aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs vegna ganganna. Samþykkt var samhljóða að auglýsa og kynna tillöguna, með því skilyrði að Vegagerðin leggi fram upplýsingar um tilfærslu á suðurleið sem kynnt hafi verið kjörnum fulltrúum á fundi í síðustu viku og henni bætt inn í tillöguna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.5.2022 | 20:59
Stefnuskrá Miðflokksins í Múlaþingi
Sveitastjórnarkosningar 2022
Margur er knár þó hann sé smár
Fulltrúar Miðflokksins hafa verið mjög virkir í sveitastjórn Múlaþings, þrátt fyrir að aðrir flokkar hafi gert það sem í þeirra valdi stóð að gera fulltrúum flokksins erfitt fyrir að vinna að framfararmálum sveitarfélagsins. Miðflokkurinn hefur undanfarið haft frumkvæði að ýmsum framfaramálum.
- Lagt var til að H.E.F. veitur, sæu um að kaupa varmadælur og gegn hóflegri greiðslu að afhenda þær á köldum svæðum þar sem hitaveitu nyti ekki við.
- Skorað var á Landsnet að rafmagn í sveitarfélaginu yrði það tryggt að bjóða mætti það fyrirtækjum sem þyrfti á tryggri, meiri og stöðugri orku að halda.
Til að þoka framfaramálum áfram má treysta á Miðflokkinn, því þurfum við á stuðningi þínum að halda.
Byggðamál
- Við ætlum áfram að leggja mikla áherslu á sveitarfélagið allt og að allir vinni saman sem ein heild en ýtt verði undir sérstöðu hvers samfélags eða svæðis.
- Við munum gera kröfu um að verkefnum á vegum þess opinbera, verði vistuð í Múlaþingi.
- Við munum mótmæla kröftuglega áformum Vinstri Grænna um að sameina Landgræðsluna og Skógrækt ríkisins, með því meginmarkmiði að leggja niður starfsemi Skógræktar ríkisins á Egilsstöðum.
- Við ætlum að láta styrk svæðisins liggja í fjölbreyttum búsetumöguleikum innan sama atvinnu, þjónustu-, afþreyingar- og markaðssvæðis. Langtímamarkmið okkar er að svæðið verði öflugasti landshlutinn þegar kemur að bestu búsetuskilyrðum fyrir fjölskyldufólk og fjölbreytt hátekjustörf.
- Við ætlum að ná fram meiri skilvirkni nefnda og ráða á vegum sveitarstjórnar. Miðflokkurinn vill vinna gegn ákvarðanafælni og töfum í meðferð sveitastjórnar á einstökum málum.
- Miðflokkurinn leggur áherslu á að plægja akurinn fyrir nýja starfsemi.
- Við viljum taka upp ásýndarverðlaun fyrir snyrtilegustu sveitabæina og í þéttbýli fyrir snyrtilegustu götuna.
Fjármál, atvinnumál og íbúaþróun
Almennt þarf að leita allra leiða til að auka tekjur sveitarfélagsins, sem eru of lágar í dag, til að standa undir ásættanlegri þjónustu við íbúa og framkvæmdum. Eina lausnin er langtímaáætlun sem gerir ráð fyrir að fjölga íbúum sveitarfélagsins og skapa eftirsótt störf með nýsköpun.
- Hagstofa Íslands spáir hægfara fólksfjölgun í sveitarfélaginu næstu árin.
- Mikilvægt er að búa til hvata til að fá nýtt fólk í sveitarfélagið. Sveitarfélagið þarf áhugasamt og viljugt fólk, fjölbreytta atvinnustarfsemi og réttar fjárfestingar til uppbyggingar. Með markmið okkar að leiðarljósi finnum við tækifærin bæði hér á landi, sem og í öðrum löndum. Slíkar aðgerðir miði meðal annars að því að ungt fólk í sveitarfélaginu þurfi ekki að flytjast brott til að fá störf við hæfi.
- Laxeldi er komið til að vera á Íslandi. Djúpivogur er leiðandi á því sviði. Við viljum vinna með þeim fyrirtækjum sem starfa við fiskeldi í að ná fram sínu besta í sátt við umhverfið og atvinnulífið í kring.
- Við ætlum að ráða atvinnumála- og markaðsfulltrúa til verka.
- Við ætlum að blása til sóknar fyrir dreifbýlið, þannig að landbúnaðurinn gleymist ekki og horft verði til framtíðar í þeim efnum. Bændafjölskyldur eru stoð í fæðuöryggi landsins og verður að tryggja að svo verði áfram.
- Við hvetjum Vegagerð ríkisins til að semja við bændur um að halda við girðingum með þjóðvegum í Múlaþingi.
- Tekjupóstar sveitarfélaga eru að mestu háðir útsvari og fasteignasköttum. - Við ætlum að kanna möguleika á rekstri arðvænlegra fyrirtækja í eigu sveitarfélagsins sem ekki eru í beinni samkeppni við einkafyrirtæki á svæðinu.
- Við ætlum að þrýsta á að stjórnvöld breyti úreltum lögum og hugsunarhætti, sem mismuna dreifbýli og þéttbýli að nauðsynjalausu. Dæmi: Flutningskostnaður raforku, verðlagning flugvélaeldsneytis og opinber störf.
- Miðflokkurinn mun þrýsta á að hvergi verði hvikað frá áformum um ljósleiðaravæðingu á svæðinu öllu.
Skipulags og umhverfismál
- Við ætlumst til að rammaskipulag sé unnið til langs tíma. Þannig er sköpuð alvöru framtíðarsýn fyrir sveitarfélagið. Dæmi: Ákvörðun staðsetningar á íbúðabyggð, atvinnustarfsemi og meginlínur samgangna.
- Við munum leggja áherslu á að ávallt verði nægjanlegt framboð lóða jafnt fyrir einstaklinga og fyrirtæki, stór og smá.
- Vegna hugmynda um stækkun Egilsstaðaflugvallar ætlum við að gæta þess að ekki verði þrengt að honum.
- Við ætlum að láta aðalskipulag ýta undir sérstöðu hvers svæðis fremur en draga úr henni.
- Aðal- og deiliskipulagi utan Eyvindarár verði breytt í atvinnusvæði og flugvallartengda starfsemi. Íbúðabyggð og þjónusta tengd henni verði á Suðursvæði.
- Við ætlum að gera tímasetta langtímaáætlun um uppbyggingu, umhirðu og verndun grænna svæða. Við ætlum að gæta þess að ásýnd samfélaga sveitarfélagsins, þéttbýlisstaða og dreifbýlis, verði þróuð með fagfólki, landlagsarkitektum og garðyrkjufræðingum.
- Við ætlum að bæta umhverfisstjórnun. Við erum fylgjandi sameiginlegri mengunarlausri sorpbrennslustöð fyrir allt landið. Okkur þykir það siðferðilega rangt að fara fram á það að sorpi frá Íslandi verði eytt í öðrum löndum. Eyðingin getur átt sér stað við óviðunandi aðstæður - jafnvel í þriðja heims ríkjum með tilheyrandi vandamálum fyrir íbúa viðkomandi svæðis.
- Sorphirða í sveitum hefur ekki verið nægjanlega markviss. Við viljum bæta þá þjónustu og koma þessum málum í fastar skorður og meiri skilvikni. Koma skal upp flokkunarsvæðum þar sem gámar verði fyrir timbur, járn og dýraleyfar.
- Við viljum hvetja til aukinnar landnýtingar undir ræktun og auka sjálfbærni sveitarfélagsins t.d. með repjurækt til manneldis.
- Við leggjum til að það verði reist moltustöð á Austurlandi í samstarfi sveitarfélagana í fjórðungnum, með það að markmiði til að selja moltu til íbúanna.
- Við ætlum að gæta meðalhófs í umhverfismálum við uppbygginu á atvinnustarfsemi. Náttúra og umhverfi okkar skal höfð að leiðarljósi en þess gætt að ekki sé þrengt að eðlilegri þróun atvinnustarfsemi.
Samgöngumál og ferðaþjónusta
- Horft skal til langrar framtíðar þegar kemur að stofnæðum og þjóðvegum. Haga skal skipulagi þannig að stofnæðar og þjóðvegir minnki ekki lífsgæði íbúa með því að leggja vegi í gegnum íbúðabyggðir.
- Þrýst verði á ríkisvaldið að velja leið norðan Eyvindarár um Melshorn og valin svonefnd norðurleið.
- Við krefjumst þess að staðið verði við gefin loforð um heilsárs vegtengingu um Öxi.
- Við viljum bæta vetrarþjónustu við sveitir og jarðir í Múlaþingi, sem hafa mátt sæta því að mæta afgangi í snjóruðningi. Við teljum að samningar við íbúa um verktöku, muni leysa þann vanda.
- Við krefjumst þess að ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar verði gerð út frá Egilsstaðaflugvelli.
- Við ætlum að láta markaðsfæra hafnirnar þrjár markvisst sem eina heild. Dæmi: Fyrir farþegaskip og millilandaskip.
- Við munum gera kröfu um landtengingu skemmtiferðaskipa og Norrænu í Seyðisfjarðahöfn.
- Við ætlum að auka áherslu á að Seyðisfjarðarhöfn verði höfn fyrir alþjóðavöruflutninga í tengslum við alþjóðaflugvöllinn á Egilsstöðum.
- Við köllum eftir því að alþjóðaflugvöllurinn á Egilsstöðum verði betur nýttur miðað við aukna þjónustuþörf á svæðinu.
- Við munum vinna að því að laga aðgengi að Skessugarði með því að leggja veg og bæta merkingar. Jafnframt þarf að vinna að því að gera Héraðssand að aðdráttarafli og útivistarsvæði. Leggja þarf veg þangað og koma upp bílastæðum.
- Góðar samgöngur er forsenda fyrir þróun sveitarfélagsins. Miðflokkurinn styður einkaframkvæmdir í samgöngumálum megi þær verða til þess að koma framkvæmdum af stað sem annars muni bíða um langan aldur með tilheyrandi óhagræði og vandamálum.
- Við viljum flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni, hann er anddyri landsbyggðar að sjúkrastofnunum, stjórnsýslu, háskólum og þeirri þjónustu og menningu, sem allir landsmenn taka þátt í að fjármagna.
Skólamál
- Við ætlum að samþætta tækniþróun við kennslu milli allra skóla.
- Við sjáum fyrir okkur að sveitarfélagið ýti undir samvinnu og sköpun í skólastarfi þar sem samstarf skóla byggist upp innan frá.
- Við ætlum að gera samfelldan skóla- og frístundadag barna að markmiði í hverjum byggðarkjarna fyrir sig.Hreyfingu og öðrum tómstundum verði þá sinnt eftir að venjulegu skólastarfi lýkur.
- Við ætlum að setja fram skýrar línur hvað varðar forvarnarmál og hafa öfluga stjórn í þeim efnum.
- Við ætlum að byggja ódýrar og hagkvæmar þjónustubyggingar og nýta sömu teikningar við uppbyggingu t.d. vegna grunn- og leikskóla þegar kemur að nýframkvæmdum. Hús í eigu samfélagsins eiga ekki að bera það með sér að vera minnismerki um fyrri ráðamenn.
- Við viljum að skólamötuneyti í sveitarfélaginu hafi, eins og við verði komið, matvörur úr heimabyggð til að styrkja matvælaframleiðslu í Múlaþingi.
- Við hvetjum fyrirtæki í því, fyrir sig og samfélagið, að taka þátt í starfskynningu námsfólks.
- Við viljum menntun heim í hérað. Við ætlum að vinna að því að núverandi fyrirkomulag sveinsprófa verði endurskoðað með það að markmiði að færa próftökuna til sveitarfélagsins (í dag þurfa nemendur að sækja nám til Reykjavíkur).
- Við ætlum að auka vægi Menntaskólans á Egilsstöðum fyrir sveitarfélagið allt.
- Til lengri tíma litið viljum við að Háskóli Austurlands verði staðsettur í sveitarfélaginu.
Íþrótta- og tómstundamál
- Sköpunargleðin kemur innan frá. Við ætlum að hvetja íbúa sem hafa áhuga á uppbyggingu tómstundastarfs og jaðarsports í sveitarfélaginu að koma með hugmyndir til úrbóta. Við teljum að þau sem lifa og hrærast í þessum málum séu betur til þess fallin en stjórnsýslan.
- Við teljum að almennt eigi sveitarfélagið að greiða leið tómstunda og jaðarsports þegar leitað er til þess um aðstöðu og félögin sjálf hafi frumkvæði að uppbyggingu.
- Við hjá Miðflokknum gerum okkur grein fyrir því að framtíð nýs sveitarfélags liggur í æsku Austurlands. Því viljum við að sjálfsögðu hlúa að henni sem best við getum og liður í því er að huga að forvörnum og allri umgjörð sem kemur þessum flokki við.
- Við ætlum að styrkja félagasamtök sem standa að forvarnarstarfi sem við best getum og vera þeim til halds og trausts.
- Við ætlum að bæta upplýsingaflæði og samstarf við ungmennaráð á hverjum stað, þannig að sjónarmið unga fólksins skili sér á sem flesta staði í sveitarfélaginu.
- Tvö af sveitarfélögunum eru hluti af heilsueflandi samfélagi, verkefni á vegum Embættis Landlæknis. Við leggjum til að sveitarfélagið allt tæki þátt í þessu verkefni.
Heilbrigðisþjónusta
- Við mótmælum harðlega að sparnaður og hagræðing bitni jafn harkalega á einstaklingum á landsbyggðinni og raun ber vitni.
- Afnema skal skömmtunarkerfi á landsmenn um endurgreiðslu Sjúkratrygginga Íslands, vegna ferðakostnaðar.
- Við ætlum að koma upp greiningarstöð á Heilsugæslunni á Egilsstöðum.
- Leitað skal leiða til að fjármagna kaup á sneiðmyndatæki. Nauðsynlegt er að nýjasta tækni við fjarlækningar standi íbúum til boða.
- Við munum leggja sérstaka áherslu á bætta þjónustu í geðheilbrigðismálum.
- Við munum gera kröfu um úttekt heilbrigðisráðherra á því hvar best sé að byggja nýtt hágæðasjúkrahús fyrir Austurland, ekki síst vegna endurtekinnar umræðu um að leggja niður Reykjavíkurflugvöll. Þar verði tekið mið m.a. af eftirfarandi:
- Um heppilega staðsetningu.
- Um greiðar landsamgöngur.
- Um góðan flugvöll.
- Um gæði innviða.
- Um möguleika til uppvaxtar og mennta.
- Um íbúatölu og fjölda ferðamanna.
- Um fjölbreytt atvinnutækifæri.
Matvælaframleiðsla í Múlaþingi
- Við viljum hvetja til nýtingar heita vatnsins í gróðurhús með því að markaðssetja heitu svæðin.
- Við viljum hvetja til að skoða bleikjurækt og nýta affalsvatn úr gróðurhúsum til þeirra nota.
- Við munum veita ívilnun til þeirra sem vilja byggja upp starfsstöðvar og nýta heita vatnið.
- Við viljum stuðla laxeldi í sjó í sátt við íbúa og að fengnum niðurstöðum ítarlegra rannsókna.
- Við viljum að rannsóknarstöð, vegna náttúrulegar áhrifa fiskeldis, verði byggð upp á Seyðisfirði til að meta áhrif á náttúruna.
Menning og listir
- Miðflokkurinn leggur áherslu á að styðja við listir og skapandi greinar. Má þar nefna þá viðburði sem sveitarfélögin eru nú þegar þekkt fyrir. Það er aldrei ofsagt hvað starf íbúa sem hafa lagt sitt af mörkum til að auðga mannlífið með listsköpun hvers konar er mikilvægt. Má þar nefna tónlistarviðburði og leiklist auk þeirra sköpunar sem á sér stað í myndlist.
- Miðflokkurinn ætlar að gera handverki íbúa hátt undir höfði. Í handverki og handbragði liggur menningararfur okkar og sköpun. Þeir sem stunda handverk hvers konar eiga skilið stuðning
Orkumál
Orka landsins er ein af stoðum innviða samfélagsins og á að vera í eigu samfélagsins og á kostnaðarverði.
- Við munum krefjast eðlilegra fasteignagjalda fyrir stíflumannvirki og uppistöðulón.
- Hrein orka og uppruni hennar verði eingöngu vottuð af yfirstjórn þess sveitarfélags sem mannvirki vegna orkuöflunar eru.Við munum krefjast þess að endurgjald vegna slíkra vottorða renni beint í viðkomandi sveitasjóð.
- Við munum krefjast þess að sama orkuverð sé í þéttbýli og dreifbýli.
- Við teljum að vindmyllur séu ekki sá orkugjafi, sem passar núna inn í okkar samfélag, hvorki á sjó eða landi.
- Við höfnum því að flytja raforku um sæstreng frá Íslandi.
- Við viljum hraða, sem frekar er unnt, byggingu Hamarsárvirkjunar.
- Við viljum að H.E.F. veitur, verði Orkuveita Múlaþings og fari að versla með raforku. Með Orkupakka 3 þarf að bregðast við svo íbúar Múlaþings verði ekki ofurseldir fjárglæframönnum og/eða fyrirtækjum, sem eru að sölsa undir sig orkukosti landsins. Slík fjandsamleg yfirtaka mun hækka orkuverð til íbúa Íslands.
--- o O o ---
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2022 | 08:34
Vegurinn frá Seyðisfjarðargöngunum undirbúningur Vegagerðarinnar sannleikurinn um leiðina gegnum Egilsstaðabæ.
Nú þegar liggur fyrir að grafa göng undir Gagnheiði frá Seyðisfirði til Héraðs, taka þarf ákvörðun um legu vegarins frá göngunum. Vegagerðin hefur skotið upp þremur möguleikum, en mælir sérstaklega með einni leið, svokallaðri suðurleið og rökstuðningurinn byggir að hluta til á illa unnu umhverfismati.
Norðurleiðin er áætluð af Vegagerðinni meðfram Eyvindarárgilinu sem er versta leiðin þegar farið er norður eftir. Ef farið er ofar og komið á núverandi Seyðisfjarðarveg ofan Steinholts er farið að mestu eftir gömlum jökulruðningum sem er mjög gott undirlag undir veg. Auk þessa fara byggðalínur til fjarða um þetta svæði og vegurinn kemur til með að liggja ofan þeirra. Hagsmunir Landsnets og Vegagerðarinnar gætu farið saman þegar kemur að aðgengi að línunum um þjóðvegakerfið.
Land það sem vegurinn liggur um er að mestu í eigusveitarfélagsins Múlaþings. Talað er um verndarsvæði um Miðhúsaskóg, en það ætti að vera umsemjanlegt vegna fordæmis gagnvart Landsneti, vegna lagningu nýrrar línu um svæðið.Góð tenging næðist milli samgöngumannvirkja, sem er Seyðisfjarðarhöfn ogEgilsstaðaflugvöllur. Auk þess sem umferð frá Mjóeyrarhöfn á Reyðarfirði færi í öllum tilvikum utan þéttbýlisins á Egilsstöðum.
Suðurleið er áætluð af Vegagerðinni beint frá göngum yfir Eyvindarárgil að núverandi þjóðvegi númer eitt. Hugmynd þeirra er svo að leggja nýjan veg um Prestakershöfða og síðaní suður undir bæði Grímsár- og Haugalínur og suður fyrir byggðina gegnum framtíðar svæðifyrir byggð á Egilsstöðum í átt að Þórsnesi. Land það sem vegurinn á að liggja um er í einkaeign og ósamið við landeigendur, sem gæti tekið langan tíma.
Á þessu landi eru stærsta vaxtarsvæði Blæaspar á Íslandi, sem er eina tegund trjáa á Íslandi utan Birkis, sem hefur vaxið á Íslandi frá því land byggðist og finnst nánast hvergi á landinu annars staðar. Ekki erminnst einu orði á þetta í umhverfismati Vegagerðarinnar. Vegagerðin kannaði heldur ekki afstöðu Egilsstaðabúa til umferðar um miðbæ Egilsstaða né heldur gegnum íbúðabyggðina, en umferð mun aukast þar mjög á næstu árum.
Ég tel áætlun Vegagerðarinnar um umferð vanáætluð, hún muni verða mun meiri, þar sem byggð mun stækka og ferðamennskan aukast umfram áætlanir á næstu árum. Auk þessa þá vildi Umhverfisstofnun auglýsa verndarsvæði þarna um leið og Miðhúsaskóg, en landeigendur lögðust gegn því og því fékkst það ekki í gegn. Þetta þýðir að nýtt nákvæmt umhverfismat þarf að fara fram og mun taka langan tíma og gæti endað í að ekki yrði leyft að leggja þjóðveg um svæðið.
Hvað þýðir þetta svo. Það þýðir að það mun taka mjög langan tíma fyrir Vegagerðina að fá land undir veg á suðurleið ef nokkurn tíma. Vegagerðin mun leita eftir bráðabirgðaleyfi til að tengja Seyðisfjarðarveginn við núverandi veg um Hálsinn niður gegnum Egilsstaði. Þar sem samningar við landeigendur og umhverfismat muni taka langan tíma og þýðir að þá munivegurinn liggja niður gegnum Egilsstaðabæ næstu áratugi.
Ef vegurinn liggur um svokallaða norðurleið mun ekkert af þessu koma til og meginhluti þungaumferðar mun fara utan við bæinn, sem þýðir að öryggi barna á leið í skóla verður meira.
Höfundur Björn Ármann Ólafsson
Í 4.sæti á framboðslist Miðflokksins í Múlaþingi
2.5.2022 | 13:32
Seyðisfjörður 1. maí
Árla morguns 1. maí var stefnan tekin á Seyðisfjörð. Veður hefði mátt vera skárra en hlýjar móttökur í Golfsskálanum á Seyðisfirði bætti það upp. Þrátt fyrir að vera nokkuð snemma á ferðinni voru sprækir karlar komnir á staðinn að leysa heimsmálin, hita kaffi og leggja drög að afrekum dagsins á golfvellinum.
Vigdís spjallaði létti við heimamenn og bauð þeim að
fá barmmerki Miðflokksins sem flestir þáðu með þökkum.
Eftir að þessi hressi hópur hafði verið kvaddur með
virktum,var haldið í skoðunarferð um bæinn
og staðnæmst við skriðusvæðið, þar sem Vigdís var frædd um hreinsunarstarfið eftir skriðurnar í desember 2020.
Magnað er að sjá hvað hefur gengið vel að laga landið og fegra ásýnd þess eftir hörmungarnar. Vigdís lét í ljós mikla aðdáun á því hvað vel hefði til tekist fram að þessu og hve samstíga heimamenn og hefðu verið að ganga í hreinsunarstarfið og æðrulausir.
Eftir skoðunarferðina var komið við í Herðubreið og snædd frábær kjúklingasúpa í boði AFLs starfgreinasambands og kaffi á eftir. Hafið þökk fyrir það.
Rætt var við gesti og að lokinni ánægjulegri stund á Seyðisfirði var lágt á Fjarðarheiðina á ný.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)