23.4.2022 | 11:44
Dellukenningin
Óðinn í Viðskiptablaðinu fjallaði í vikunni um það sem hann kallar dellukenningu Dags og á þar við þá kenningu að þróun húsnæðisverðs í Reykjavík sé Seðlabankanum að kenna en ekki borgaryfirvöldum. Dagur hefur haldið því fram að vaxtalækkanir Seðlabankans hafi snúið offramboði á húsnæðismarkaði í umframeftirspurn sem skýri gegndarlausar verðhækkanir. Óðinn lítur málið öðrum augum.
Í pistlinum er rakið hvernig vísitala íbúðaverðs hefur hækkað og sömuleiðis hvernig vextir Seðlabankans hafa þróast og svo segir: Hvers vegna er Óð inn að þylja þetta upp. Jú. Vegna þess að kenningarsmiðir Samfylkingarinnar með Kristrúnu Frostadóttur lottóvinningshafa í fararbroddi halda því fram að vaxtalækkanir Seðlabankans skýri hækkun fasteignaverðs en ekki lóðaskortsstefna vinstrimeirihlutans í Reykjavík.
Þessi gríðarlega hækkun vísitölunnar nú, sem nemur 60% á ársgrundvelli er sönnun þess að þessi kenning hefur þann einan tilgang að kasta ryki framan í kjósendur fyrir sveitarstjórnarkosningarnar.
Og Óðinn bætir við: Kenning lottóvinningshafans og hinna vinstrimannanna er della, eins og Óðinn hefur sagt frá upphafi og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri benti svo pent á fyrir ekki svo löngu.
Dagur, Kristrún og aðrir talsmenn Samfylkingarinnar vita auðvitað að kenning þeirra er della og að stefna meirihlutans í borginni skýrir verðþróunina. En kosningar eru fram undan og þess vegna eru engar líkur á að þau viðurkenni þessa staðreynd.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)