Sniðganga staðreynda um Seyðisfjarðargöng

012Umræða um kostnað hefur verið í gangi frá því að ákvörðun um Seyðisfjarðargöng undir Fjarðarheiði til Héraðs var tekin. Launaðir pennar hafa hamast við að láta gangagerð til Héraðs líta illa út og spilað undir átök innan Austurlands um þessa gangagerð, þó svo að það hafi verið ljóst lengi að vilji meirihluta Seyðfirðinga er að grafa göng til Héraðs. Margar staðreyndir í málinu hafa verið sniðgengnar.

Skiptar skoðanir hafa gert vart við sig vegna lagningar jarðganga til Seyðisfjarðar. Nokkrir þættir virðast þó hafa farið fram hjá sumum, sem hafa tjáð sig um framkvæmdina. Við sameiningu fjögurra sveitarfélaga í eitt voru bættar samgöngur ein höfuðáherslan við sameiningu þeirra í sveitarfélagið Múlaþing. Allir hljóta að viðurkenna að með sameiningu er hvorki verið að stefna að lakari samgöngum né lengri leiðum í gegnum önnur sveitarfélög.

Fjarðarheiðin er í fjallgarði sem er sá hæsti á Íslandi og hefur þau áhrif að þegar veðraskil fara yfir hann þá sleppa þau allri úrkomunni úr sér á móti austri, sem veldur snjóflóðahættu ásamt skriðuhættu um alla firði. Svo er eina jökulmyndin í fjallgarðinum, er Fönn nefnist, milli Mjóafjarðar og Norðfjarðar. Rannsóknir um gangaleið frá Seyðisfirði um Mjóafjörð til Norðfjarðar hafa ekki farið fram og það mun taka allt að tíu ár að framkvæma þær rannsóknir, en um er að ræða jarðfræðirannsóknir og veðurfarsrannsóknir ásamt umhverfismati.

Gangaleið um Mjóafjörð er órannsökuð svo sem fyrr segir, en vitað er um stór snjóflóð úr Króardal sem er í fjallgarðinum milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar. Snjóflóð úr Króardal koma fram rétt utan við bæinn Fjörð, þar sem þau hafa tekið af mannvirki í eigu Fjarðar á fyrri tíð. Skriðuföll eru algeng rétt innan við Fjörð milli bæjanna Fjarðar og Fjarðarkots (Innri-Fjarðar). Þau hafa ítrekað eyðilagt tún þessara jarða. Skriðuföll eru þekkt á Asknesi og í hlíðunum fyrir innan. Friðheimur var byggður eftir að hús tók af við hvalstöðina í Hamarsvík innst í Mjóafirði.

Fannardalur er lítt eða ekki rannsakaður hvað snjóalög, snjóflóð og skriðuföll varðar, að sögn veðurfræðings.

Nú fyrir skemmstu varð ófært vegna snjóflóðahættu frá Norðfjarðargöngum út í Neskaupstað og því ekki hægt að koma hjálparliði til Norðfjarðar nema sjóleiðina frá Seyðisfirði, eftir að brotist hafði verið yfir Fjarðarheiði. Ekki var hægt að fljúga á þyrlu vegna veðursins og Fagridalur lokaður vegna snjóflóða og skriðufalla. Hólmanes var einnig lokað vegna snjóflóða. Fram kemur í annálum að skriðuföll hafi oft eyðilagt tún og engi á prestssetrinu forna, Hólmum.

Núna í vetur stóð til að rýma Fjórðungssjúkrahús Austurlands í Neskaupstað vegna snjóflóðahættu og spurningin er því: hvert átti að fara með fólkið? Allir vegir voru lokaðir þrátt fyrir jarðgöng og ekki hægt að fljúga. Jarðgöng til Seyðisfjarðar um Fjarðarheiði hefðu opnað leiðina að flugvellinum og tryggt leiðina að einni bestu höfn Íslands árið um kring. Auk þessa er alger nauðsyn að gera göng gegnum Austfjarðafjallgarð til Héraðs, ekki bara með ströndinni, til að efla byggð og auka öryggi íbúanna.

Vilja menn velja þann kost að leggja veg frá Seyðisfirði um Mjóafjörð til Norðfjarðar með þá hættu yfirvofandi að þegar veður gerast válynd sé hvorki hægt að komast til Seyðisfjarðar né frá? Auk þess er vegurinn mikilvægur hluti af heilbrigðiskerfinu og tenging milli samgöngumannvirkja. Með göngum til Seyðisfjarðar undir Fjarðarheiði er tryggt að hægt er að komast þangað stystu leið frá flugvellinum á Egilsstöðum og örugg sigling frá öruggri höfn á Seyðisfirði til annarra fjarða á Mið-Austurlandi. Gröfum göngin strax og tengjum þau við þá vegi sem liggja fram hjá gangamunnunum báðum megin stystu leið. Förum svo í varanlega vegagerð þegar aðalskipulagi lýkur fyrir sveitarfélagið.

Í þessu máli er mikið talað um peninga en aldrei nefnt að peningar sem aflað er á Austurlandi duga í þessa framkvæmd og meira til. Talað er um að peningarnir fari frekar til byggingar samgöngumannvirkja í Reykjavík en á Austurlandi. Samkvæmt skýrslu frá Háskólanum á Akureyri fá Austfirðingar aðeins eina krónu af hverjum fimm sem þeir afladownload í ríkissjóð. Tími til kominn að réttlæti fari að ráða í ráðstöfun fjármagns á Íslandi. Þeir fái að njóta sem afla.

Svo má benda á að leiðin til Seyðisfjarðar er einnig vegtenging Íslands við Evrópu með Norrænu inn á þjóðleið E39 í Danmörku. Með henni koma þúsundir farþega ár hvert og frakt í báðar áttir. Það hentar hins vegar ekki alltaf að nefna það. 

Björn Ármann Ólafsson
Höfundur er 4. maður á lista Miðflokksins í Múlaþingi.

MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 16. MAÍ 2023 bls.16


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband