VG og orkustefna flokksins í tómu tjóni

Ítrekað hefur verið varað við gjaldþrotastefnu VG er varðar orkumál þjóðarinnar.  Eitt af ruglinu er að selja gæði hreinnar orku sem síðan þarf að kaupa aftur til að freista þess að ná settum markmiðum. 

Það gengur ekki betur en það að á Íslandi er ríkisstjórnin búin að markaðssetja landið sem orkuöflunarsamfélag og rekur kjarnorku- og kolaver til að framleiða raforku.  Það sem upp á vantar er framleitt með gasi og olíu.  Það rímar hinsvegar illa við raunveruleikann, vegna þess að við erum heimsmeistarar í framleiðslu grænnar orku.

Einhverjir hagnast á þessu braski og það er gert með þegjandi samkomulagi stjórnvalda. 

Skilar þetta einhverju í ríkiskassann? 

Hugsanlega. 
En hvað með orðsporið? 
Bíður það ekki hnekki?
Svo á að bjarga málunum í horn með vindmyllum og sólarsellum.

Hér eftir er áhugaverð umfjöllun um gæði þeirrar orkuöflunar.

 

Viðskiptablaðið 19. ágúst 2023

Þórður Gunnarsson
https://vb.is/skodun/motsogn-orkustefnu-/

Mótsögn orkustefnu ESB

Er skynsamlegt að ætla að byggja þá grunnþörf samfélagsins sem raforku- og varmaframleiðsla er, á sífellt óútreiknanlegri veðri og vindum?

Stjórnvöld um allan heim leita nú leiða til að auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í heildarorkunotkun. Af margvíslegum ástæðum telst afar ólíklegt að notkun á jarðefnaeldsneyti muni dragast saman á næstu árum eða áratugum – heldur þvert á móti.

Hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í aukningu orkunotkunar hefur hins vegar vaxið á síðustu árum. Raunhæft er að viðhalda, efla og styðja þá þróun. Með skynsamlegri stefnumótun má auka hlutdeild endurnýjanlegrar orku enn frekar frá því sem nú er.

Evrópusambandið hefur staðið framarlega í stafni í markmiðasetningu vegna orkuskipta, þó ekki væri nema í orði (þó að aðrir hlutir hafi átt sér stað á borði á síðustu misserum). Allt frá því að rússneskt jarðgas hætti að berast til Evrópu sama mæli og áður, hefur Evrópa í auknum mæli treyst á brennslu kola til raforkuframleiðslu. Þar með var þeirri þróun sem hafði átt sér stað áratugina tvo á undan snúið við.

Að vísu hefur notkun kola aftur byrjað að dragast saman í Evrópu það sem af er yfirstandandi ári, en það er einkum vegna minni eftirspurnar raforku sökum mikilla verðhækkana. Minni kolanotkun er því ekki komin til af góðu. Alþjóðaorkumálastofnunin (IEA) greindi frá því nýverið að raforkunotkun Evrópu hefði náð 20 ára lágmarki á fyrri hluta árs 2023. Sú staðreynd er öðru fremur til marks um veikleika í efnahagsumsvifum álfunnar.

Álver í Evrópu loka

Nefna má sem dæmi að fjölda álvera hefur verið lokað í Evrópu vegna hás orkukostnaðar. Samanlögð framleiðslugeta þeirra álvera sem lokað hafa í Evrópu frá árslokum 2021 heggur nærri 1,5 milljónum tonna á ári. Evrópa þarf samt áfram sitt ál og mun þurfa að flytja málminn inn, til dæmis frá Kína eða Rússlandi. Finna má fjölmörg fleiri dæmi um rekstrarstöðvanir eða endanlegar lokanir orkukræfs iðnaðar í Evrópu á undanförnum misserum.

En aftur að orkumarkmiðum Evrópusambandsins. Þau snúa einna helst að því að hætta nánast alfarið notkun kola-, vatnsafls- og kjarnorku. Að rúmlega áratug liðnum eigi vind- og sólarorka standa að baki um tveimur þriðju allrar framleiddrar raforku.

Á undanförnum vikum hafa okkur daglega verið fluttar fréttir af miklum hitabylgjum á meginlandi Evrópu. Hrakspár um öfgar og ófyrirsjáanleika veðurfars verða sífellt voveiflegri. Hærra hitastig hefur það gjarnan í för með sér að vindstyrkur er minni en ella. Þegar hitastig er hátt, er eftirspurn raforku hins vegar öllu jöfnu mikil vegna aukinnar notkunar á loftkælingarbúnaði bygginga. Fræðileg hámarksafköst vindorkuvera eru tæplega 60% af uppsettu afli. Á heitum sumardögum lækkar það hlutfall enn frekar (vegna áðurnefndra áhrifa hitastigs á vindstyrk). Á slíkum dögum framleiða vindorkuver jafnan um einn þriðja þess raforkumagns sem uppsett afl kveður á um.

Vindur og sól

En hvað með sólarorkuna? Þrátt fyrir að sól skíni gjarnan skært á hlýjum sumardögum, þá er það mesta sem hægt er að fá úr sólarorku um fjórðungur uppsettu afli. Þetta sama hlutfall getur fallið allt niður í 10%.

Þrátt fyrir að sú sólarorka sem beinist að jörðinni á hverri sekúndu sé mörgþúsund sinnum meiri en öll sú orka sem heimsbyggðin notar hverju sinni, þá er tækni til nýtingar hennar einfaldlega ekki komin lengra en þetta. Vonandi stendur það til bóta, en ekkert bendir til þess á á þessari stundu, þó enginn viti hvað framtíðin beri í skauti sér. Svo er það auðvitað líka tilfellið, sem flestum ætti að vera kunnugt um, að sól skín ekki um nætur og er því ónothæf sem orkugjafi hálfan sólarhringinn á hálfri jörðinni hverju sinni.

Það skýtur því óneitanlega skökku við að ætla að byggja meirihluta allrar raforkuframleiðslu á orkugjöfum sem byggja á vindstyrk og sólskini. Samkvæmt gögnum frá Evrópusambandinu er um helmingur heildarorkunotkunar Evrópu vegna upphitunar eða kælingar bygginga.

Af þeirri staðreynd mætti draga þá ályktun að orkuframleiðsla, sama hvort þar ræðir um raforku eða varmaorku, ætti helst að vera óháð veðurfari hverju sinni. Ef hinn vísindalegi samhljómur er sá að loftslag jarðar fari hitnandi og að öfgar og óvissa í veðurfari muni hvort tveggja aukast, hljóta menn að spyrja sig: Er skynsamlegt að ætla að byggja þá grunnþörf samfélagsins sem raforku- og varmaframleiðsla er, á sífellt óútreiknanlegri veðri og vindum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband