Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Björgum íbúum Múlaþings frá slæmum stjórnendum!

Í VÍSI þann 4.9.2023 birtist aldeilis mögnuð grein, sem veldur því að maður  veltir því alvarlega fyrir sér hvort þetta sé tilviljun eða tákn frá þeim sem öllu ræður til stjórnenda í Múlaþingi. 

Fulltrúi Miðflokksins í sveitarstjórn Múlaþings, hefur verið á milli tanna annara í sveitarstjórninni vegna þess að hann hefur átt það til að vitna í Biblíuna þegar honum ofbýður flumbrugangur meirihlutans í ýmsum málum og sérstaklega þegar gripið er til þess úrræðis að gera fulltrúa Miðflokksins vanhæfa í málum, sem varðar velferð sveitarfélagsins, en falla ekki að hugmyndum meirihlutans í sveitarfélaginu.

Svo vekur það sérstaklega athygli, að þrátt fyrir að myndaður hafi verið meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins, eru hin framboðin hangandi í pilsfaldi meirihlutans eins og hvert annað glingur á jólatré.

Eina undantekningin er Miðflokkurinn, sem hefur staðið sig aldeilis frábærlega við að gagnrýna meirihlutann og sýna ábyrg vinnubrögð og málefnaleg.  Það gerist undir stöðugri ágjöf þvert á yfirlýst markmið meirihlutans um að stunda opna stjórnsýslu í samráði við íbúa sveitarfélagsins.

Eftirfarandi grein gæti ekki passað betur inn í umræðuna, þó hún hefði sérstaklega verið skrifuð vegna vinnubragða í Múlaþingi.

  

https://www.visir.is/g/20232458168d/slaemir-stjornendur-slatra-gagnsaei

"Slæmir stjórn­endur slátra gagn­sæi

Sigurður Ragnarsson skrifar 4. september 2023 11:30

Undanfarið hef ég lesið margar góðar bækur á sviði stjórnunar og forystu, eins og „The Trillion Dollar Coach“ um Bill Campbell, „The Subtle Art of Not Giving a f*ck“, „Winning" eftir Jack Welch“, „The Ride of a Lifetime“ eftir Robert Iger, forstjóra Disney, og „No Rules Rules: Netflix and the Culture of Reinvention.“ Margt kemur upp í hugann eftir lesturinn en eitt stendur þó upp úr og það er mikilvægi gagnsæis (e. transparency) í vinnunni, og auðvitað í lífinu almennt. Gagnsæi vísar m.a. til opinna, hreinskilinna og heiðarlegra samskipta á meðal alls starfsfólks þar sem víðsýni og tillitsemi er í hávegum höfð ásamt því að hafa hugrekki til að tjá sig.

Það er auðvelt að gera ráð fyrir því að við séum tilbúin að tjá okkur opinskátt og vera óhrædd að viðra skoðanir okkar, þar á meðal að hafa hugrekki til að vera ósammála. En hugsaðu um núverandi vinnustað þinn eða þau störf sem þú hefur gegnt. Er eða var fólk hvatt til að vera opið og hreinskilið og leggja sitt af mörkum með því að opinbera ólíkar hugmyndir sínar og mismunandi skoðanir? Mig grunar að svarið sé ,,Nei... því miður." Þá spyr ég: Hvers vegna ekki? Ýmsir framúrskarandi stjórnendur, sérfræðingar ásamt fræðifólki leggja áherslu á mikilvægi gagnsæis og telja það vera eina af meginstoðunum fyrir langtíma velgengni, bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Ástæðan er sú að gagnsæi skapar t.d. traust, leiðir til betri ákvörðunartöku, hefur jákvæð áhrif á teymisvinnu sem og virkni starfsfólks, sköpun, hamingju o.s.frv. Það má segja að gagnsæi sé lykilþáttur í að byggja upp og viðhalda jákvæðri og heilbrigðri vinnustaðamenningu. Þetta snýst í raun um að veita faglega forystu. Eða ætti ég að segja að hjá slæmum stjórnendum snýst þetta um skort á faglegri forystu? Einstaklingar sem veita forystu, hvort sem um er að ræða forstjóra, framkvæmdastjóra, deildarstjóra eða hvað við köllum þennan einstakling á að vera fyrirmynd og leiðtogi. En það undarlega er að margir sem gegna þessum hlutverkum koma í veg fyrir gagnsæi eða hreinlega drepa það niður. Þessir einstaklingar halda að þeir hafi yfirleitt eða alltaf bestu hugmyndirnar og að þeir eigi að ákveða hvað sé skynsamlegast að gera. Þegar þetta er viðhorfið, hvers vegna að hlusta á aðra?

En hvernig veistu hvort að þú hafir svona stjórnanda eða stjórnendur? Líklega þarf ég ekki að útskýra því það fer ekki á milli mála, en ég ætla að leyfa mér að koma með nokkur dæmi:

  • Slæmir stjórnendur bregðast t.d. við hugmyndum annarra með eftirfarandi hætti: ,,Við höfum ekki tíma fyrir þetta, við gerum þetta eins og við höfum gert áður. Mér finnst það hafa virkað vel og af hverju að breyta?"
  • Slæmir stjórnendur leita ekki eftir eða biðja um skoðanir eða hugmyndir annarra heldur segja fólki frekar hvað það á að gera: „Gerðu þetta...“ eða „gerðu eins og ég segi þér...“ Jafnvel þótt slæmir stjórnendur segist óska eftir skoðunum hlusta þeir ekki og segja fólki hvað það á að gera.
  • Það versta er að sumir slæmir stjórnendur refsa fólki sem tjáir skoðanir sínar og hugmyndir, sérstaklega ef það er ekki í samræmi við skoðanir stjórnendanna sjálfra. Hverjar eru afleiðingarnar? Það má segja að það slokkni á starfsfólki því auðvitað veldur þetta vanlíðan og margir yfirgefa fyrirtækið eins fljótt og hægt er, sem kemur auðvitað ekki á óvart.

Við þurfum að leggja áherslu á og verðlauna gagnsæi og viðhalda heilbrigðri vinnustaðamenningu þar sem fólk getur og er hvatt til að tjá mismunandi skoðanir sínar og hugmyndir. Hins vegar, ef slæmur stjórnandi eða ef slæmir stjórnendur eru alls ráðandi í fyrirtækinu þá er mjög ólíklegt að þar ríki gagnsæi. Í þessu samhengi hugsa ég oft til félaga míns Ben Lichtenwalner hjá „Modern Servant Leader“ sem heldur því fram að í mörgum tilfellum þurfum við að bjarga fyrirtækjum okkar frá slæmum stjórnendum!

Höfundur er lektor við Háskólann á Akureyri og Heartstyles forystuþjálfari."


VG og orkustefna flokksins í tómu tjóni

Ítrekað hefur verið varað við gjaldþrotastefnu VG er varðar orkumál þjóðarinnar.  Eitt af ruglinu er að selja gæði hreinnar orku sem síðan þarf að kaupa aftur til að freista þess að ná settum markmiðum. 

Það gengur ekki betur en það að á Íslandi er ríkisstjórnin búin að markaðssetja landið sem orkuöflunarsamfélag og rekur kjarnorku- og kolaver til að framleiða raforku.  Það sem upp á vantar er framleitt með gasi og olíu.  Það rímar hinsvegar illa við raunveruleikann, vegna þess að við erum heimsmeistarar í framleiðslu grænnar orku.

Einhverjir hagnast á þessu braski og það er gert með þegjandi samkomulagi stjórnvalda. 

Skilar þetta einhverju í ríkiskassann? 

Hugsanlega. 
En hvað með orðsporið? 
Bíður það ekki hnekki?
Svo á að bjarga málunum í horn með vindmyllum og sólarsellum.

Hér eftir er áhugaverð umfjöllun um gæði þeirrar orkuöflunar.

 

Viðskiptablaðið 19. ágúst 2023

Þórður Gunnarsson
https://vb.is/skodun/motsogn-orkustefnu-/

Mótsögn orkustefnu ESB

Er skynsamlegt að ætla að byggja þá grunnþörf samfélagsins sem raforku- og varmaframleiðsla er, á sífellt óútreiknanlegri veðri og vindum?

Stjórnvöld um allan heim leita nú leiða til að auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í heildarorkunotkun. Af margvíslegum ástæðum telst afar ólíklegt að notkun á jarðefnaeldsneyti muni dragast saman á næstu árum eða áratugum – heldur þvert á móti.

Hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í aukningu orkunotkunar hefur hins vegar vaxið á síðustu árum. Raunhæft er að viðhalda, efla og styðja þá þróun. Með skynsamlegri stefnumótun má auka hlutdeild endurnýjanlegrar orku enn frekar frá því sem nú er.

Evrópusambandið hefur staðið framarlega í stafni í markmiðasetningu vegna orkuskipta, þó ekki væri nema í orði (þó að aðrir hlutir hafi átt sér stað á borði á síðustu misserum). Allt frá því að rússneskt jarðgas hætti að berast til Evrópu sama mæli og áður, hefur Evrópa í auknum mæli treyst á brennslu kola til raforkuframleiðslu. Þar með var þeirri þróun sem hafði átt sér stað áratugina tvo á undan snúið við.

Að vísu hefur notkun kola aftur byrjað að dragast saman í Evrópu það sem af er yfirstandandi ári, en það er einkum vegna minni eftirspurnar raforku sökum mikilla verðhækkana. Minni kolanotkun er því ekki komin til af góðu. Alþjóðaorkumálastofnunin (IEA) greindi frá því nýverið að raforkunotkun Evrópu hefði náð 20 ára lágmarki á fyrri hluta árs 2023. Sú staðreynd er öðru fremur til marks um veikleika í efnahagsumsvifum álfunnar.

Álver í Evrópu loka

Nefna má sem dæmi að fjölda álvera hefur verið lokað í Evrópu vegna hás orkukostnaðar. Samanlögð framleiðslugeta þeirra álvera sem lokað hafa í Evrópu frá árslokum 2021 heggur nærri 1,5 milljónum tonna á ári. Evrópa þarf samt áfram sitt ál og mun þurfa að flytja málminn inn, til dæmis frá Kína eða Rússlandi. Finna má fjölmörg fleiri dæmi um rekstrarstöðvanir eða endanlegar lokanir orkukræfs iðnaðar í Evrópu á undanförnum misserum.

En aftur að orkumarkmiðum Evrópusambandsins. Þau snúa einna helst að því að hætta nánast alfarið notkun kola-, vatnsafls- og kjarnorku. Að rúmlega áratug liðnum eigi vind- og sólarorka standa að baki um tveimur þriðju allrar framleiddrar raforku.

Á undanförnum vikum hafa okkur daglega verið fluttar fréttir af miklum hitabylgjum á meginlandi Evrópu. Hrakspár um öfgar og ófyrirsjáanleika veðurfars verða sífellt voveiflegri. Hærra hitastig hefur það gjarnan í för með sér að vindstyrkur er minni en ella. Þegar hitastig er hátt, er eftirspurn raforku hins vegar öllu jöfnu mikil vegna aukinnar notkunar á loftkælingarbúnaði bygginga. Fræðileg hámarksafköst vindorkuvera eru tæplega 60% af uppsettu afli. Á heitum sumardögum lækkar það hlutfall enn frekar (vegna áðurnefndra áhrifa hitastigs á vindstyrk). Á slíkum dögum framleiða vindorkuver jafnan um einn þriðja þess raforkumagns sem uppsett afl kveður á um.

Vindur og sól

En hvað með sólarorkuna? Þrátt fyrir að sól skíni gjarnan skært á hlýjum sumardögum, þá er það mesta sem hægt er að fá úr sólarorku um fjórðungur uppsettu afli. Þetta sama hlutfall getur fallið allt niður í 10%.

Þrátt fyrir að sú sólarorka sem beinist að jörðinni á hverri sekúndu sé mörgþúsund sinnum meiri en öll sú orka sem heimsbyggðin notar hverju sinni, þá er tækni til nýtingar hennar einfaldlega ekki komin lengra en þetta. Vonandi stendur það til bóta, en ekkert bendir til þess á á þessari stundu, þó enginn viti hvað framtíðin beri í skauti sér. Svo er það auðvitað líka tilfellið, sem flestum ætti að vera kunnugt um, að sól skín ekki um nætur og er því ónothæf sem orkugjafi hálfan sólarhringinn á hálfri jörðinni hverju sinni.

Það skýtur því óneitanlega skökku við að ætla að byggja meirihluta allrar raforkuframleiðslu á orkugjöfum sem byggja á vindstyrk og sólskini. Samkvæmt gögnum frá Evrópusambandinu er um helmingur heildarorkunotkunar Evrópu vegna upphitunar eða kælingar bygginga.

Af þeirri staðreynd mætti draga þá ályktun að orkuframleiðsla, sama hvort þar ræðir um raforku eða varmaorku, ætti helst að vera óháð veðurfari hverju sinni. Ef hinn vísindalegi samhljómur er sá að loftslag jarðar fari hitnandi og að öfgar og óvissa í veðurfari muni hvort tveggja aukast, hljóta menn að spyrja sig: Er skynsamlegt að ætla að byggja þá grunnþörf samfélagsins sem raforku- og varmaframleiðsla er, á sífellt óútreiknanlegri veðri og vindum?


Evrópukórinn kveðinn í kútinn

Samfylkingin og hliðarsjálf hans, Viðreisn, hefa haldið upp linnulausum áróðri um að ganga í ESB og taka upp EURO í stað krónunnar, þrátt fyrir skýrar upplýsingar um krónan sé okkar happapeningur.  Endalaust söngl um að gera "samning um inngöngu" er ekki í boði, sama hversu oft sem sá söngur er kyrjaður breytist það ekki; það skal sótt um inngöngu á forsendum ESB, - annað er ekki í boði.

https://sigsig.blog.is/blog/sigsig/entry/2288133/#comments

"Málflutningur Evrópusinna hefur alltaf verið óheiðarlegur og byggst á blekkingum.

Að "kíkja í pakkann" er lygi. Aðildarsamningurinn er einfaldlega stofnsáttmáli Evrópusambandsins og hann hefur árum saman legið fyrir í íslenskri þýðingu.

Önnur lygi er að með inngöngu í ESB og upptöku evru muni verðtrygging hverfa af sjálfu sér eins og fyrir einhverja töfra. Hið rétta er að ekkert í reglum ESB og EMU segir til um hvaða lánsform aðildarríkin megi leyfa eða banna. Þegar ég vakti athygli sendiherra ESB á Íslandi á þessum galdramálflutningi íslenskra Evrópusinna var honum sýnilega brugðið og þvertók fyrir að fótur væri fyrir þessu, afnám verðtryggingar væri og yrði alltaf íslenskt innanríkismál.

Enn önnur lygi er meintur "kostnaður við krónuna" sem er sagður ógnarhár. Hið rétta er að það kostar íslenska ríkið ekki neitt að gefa út krónur. Þvert á móti hefur það hagnað af því. Sem dæmi kostar um 50 krónur að prenta einn tíuþúsundkall þannig að myntsláttughagnaður af hverjum seðli er 9.950 kr. Þar að auki kostar nákvæmlega ekkert að gefa út rafrænar krónur, eins og ríkið gerir með útgjöldum og bankar með útlánum.

Svo hefur aldrei verið útskýrt með hverju við eigum að borga fyrir allar þær evrur sem við hlytum að þurfa að kaupa ef við ætluðum að taka upp þann gjaldmiðil. Varla er neinn að fara að gefa okkur þær og fjarstæða að nokkur með heilu viti taki við greiðslu í krónum ef ætlunin væri að leggja þann gjaldmiðil niður. Snaróðir landsölumenn myndu þó varla setja það fyrir sig að afsala stórum hluta eigna ríkisins til að fá sína blautu evrudrauma uppfyllta."

Guðmundur Ásgeirsson

Svo mörg voru þau orð og rétt fyrir Evrópukórinn að láta nú þegar af lygaþvælu sinni, - í eitt skipti fyrir öll. (BVW) 


Að vera eða að ekki vera vanhæfur, þarna er efinn.

Mikið hefur gengið á og mikill pilsaþytur er í bæjarstjórn og þeim nefndum Múlaþings, þar sem ákveðinn einstaklingur hefur náð (hreðja-)tökum á þorra nefndarmanna (konur eru líka menn).  Það í sjálfu sér er ekki vandamálið heldur hitt og öllu verra er að ekki má nein vitræn umræða eiga sér stað t.d. um hvað er best íbúum sveitarfélagsins í skipulagsmálum til framtíðar.  Skynsemi meirihlutans hefur lent í einhverjum hrokafyllsta tætara sem sögur fara af.   

Sérlega er viðkomandi fulltrúa uppsigað við fulltrúa Miðflokksins.  Veira þessi virðist sérstaklega útbreidd veira innan Framsóknarflokksins, og nýtt er hvert tækifæri til að þagga niður í honum, þvert á lýðræðisleg vinnubrögð og fagleg.

Ekki er boði meirihlutans í Múlaþingi að eiga samtal við íbúa Egilsstaða um þungaumferð í bæjarfélaginu, þó meirihluti íbúanna hafi sagt sína skoðun á því máli í skoðanakönnun.  Ævintýrið um Teigskóg er að endurtaka sig í boði Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins.  Önnur framboð dragast í kjölsogið en aðeins er farið að örla á að örfáir séu farnir að andæfa þessu makalausa framferði meirihlutans.  

Önnur sveitafélög eru að vakna til meðvitundar um að reyna að færa þungaumferðina út fyrir bæjarfélögin og er Borgarnes með tillögur í þá átt.  Það er þvert á það sem gert var í upphafi þegar áherslan var lögð á umferð í gegnum bæjarfélög og mikil áhersla lögð á það í Borgarnesi.  Nú stendur til að bjóða út að byggja brú við Selfoss, til að létta á umferðinni innanbæjar. 

En Framsóknarskonnortan æðir stjórnlaus áfram upp í grjótgarðinn, við stjórnvölinn er skipstjóri með leppa fyrir augum.

Hver er vanhæfastur í sveitastjórn Múlaþings? 
Er það fyrsti maður á lista Framsóknar?

(BVW)  


Leyndarhyggja og laumuspil

Fréttatíminn 23. apríl, 2020, Enginn tók undir þetta hjá Þáverandi þingmanni Miðflokksins, Þórsteins Sæmundssonar.  Einhverjir þeirra eru nú að vakna og sjá alvarleika málins.  Þeir taka undir þetta, jafnvel farnir að gera málið að sínu.

"Okkur Íslendingum hefur gengið nokkuð illa að vinna úr ýmsum eftirmálum bankahrunsins sem varð hér fyrir rétt rúmum áratug. All erfitt hefur reynst að safna saman upplýsingum um margt það sem þá gerðist. Núverandi stjórnvöld hafa gengið nokkuð ákveðið fram í viðleitni sinni til að fela mál í leyndarhjúp. Sum gögn hafa verið læst inni til áratuga önnur er erfitt að nálgast og ýmist borið við bankaleynd eins og í tilfelli Eignarhaldsfélags Seðlabankans og Lindarhvols, persónuvernd líkt og með sölu fullnustueigna Íbúðalánasjóðs (nú HMS), ellegar að um viðskiptaleyndarmál sé að ræða eins og um málefni Landsvirkjunar.

Ein af fremstu skyldum Alþingis og þar með alþingismanna er að sinna eftirlitsskyldu með framkvæmdavaldinu og stofnunum ríkisins. Þingmenn hafa einkum þrjár leiðir til að vekja athygli á málum og/eða kalla eftir upplýsingum um þau. Það er með fyrirspurnum, með því að biðja um sérstaka umræðu um tiltekið mál eða vekja máls á þeim undir dagskrárliðnum „Störf þingsins“.

Í nokkur ár hefur pistilritari gert nokkrar tilraunir til að fá fram upplýsingar um tiltekin mál. Það hefur gengið misilla og mjög hægt. Mig langar hér að greina frá fyrirspurnum um eitt ákveðið efni – Sölu fullnustueigna Íbúðalánasjóðs.

Á árunum eftir hrun misstu þúsundir fjölskyldna húsnæði sitt í hendur fjármálastofnana. Þær eignir voru síðar seldar ýmist ein og ein eða í „kippum“. Fjöldi einstaklinga sem missti húsnæði sitt á þessum tíma hefur verið í sambandi við þingmenn þar á meðal þann sem ritar þennan pistil í von um að fá að vita hvað varð um eignir þeirra. Einnig í von um að geta aftur eignast þak yfir höfuðið. Engin frásögn sem pistilritari hefur heyrt frá þessum aðilum lætur mann ósnortinn.

Ég sendi inn fyrstu fyrirspurn mína varðandi þetta mál snemma árs 2018. Ég fékk svar við hluta fyrirspurnarinnar rétt um ári síðar en vinnureglan er sú að fyrirspurnum þingmanna sé svarað innan hálfs mánaðar eða að beðið sé um frest til svara. Í þessu hluta svari kom fram að um 4.600 íbúðir höfðu verið teknar af fólki af Íbúðalánasjóði á árunum 2010 til ársloka 2017. Fyrir þær höfðu verið greiddar um 57 milljarðar króna. Þegar ég óskaði frekari upplýsinga þ.e. hverjir hefðu keypt var borið við persónuverndarsjónarmiðum. Boðið var upp á að svar yrði send Alþingi og þinginu látið eftir hvort það yrði birt.

Eftir að hafa innt bæði félags- og barnamálaráðherra svo og dómsmálaráðherra eftir upplýsingum um kaupendur sem eru NB opinberar upplýsingar og liggja fyrir í þinglýsingabókum alls fimm sinnum á árunum 2018 og 2019 án þess að fá svör leitaði ég liðsinnis forseta Alþingis og forsætisnefndar. Rétt er hér að þakka viðbrögð forseta Alþingis og starfsmanna þess við þeirri bón.

Í framhaldi af því var unnið minnisblað af lögfræðisviði þingsins þar sem fram kemur að persónuverndarlög gilda ekki um Alþingi. Þar kemur einnig fram að Alþingi ritstýrir ekki svörum ráðherra við fyrirspurnum, svörin eru birt í Alþingistíðindum um leið og þau berast skv. þingskaparlögum. Að síðustu kemur fram í minnisblaðinu að svör þeirra tveggja ráðherra sem um ræðir við fyrirspurnum mínum standast hvorki þingskaparlög né lög um ráðherraábyrgð.

Svo langt var gengið að ráðherrarnir skirrðust ekki við að brjóta þingskaparlög og fara á svig við ráðherraábyrgð til að viðhalda þöggun í málinu en þetta hefur félags- og barnamálaráðherra nú gert undanfarin þrjú ár. Allt virðist lagt að veði til að koma í veg fyrir að opinberað verði hverjir gerðu sér veislu úr ógæfu annarra á árunum eftir hrun.

Með rök minnisblaðs lögfræðisviðs Alþingis í farteskinu lagði ég fyrirspurn mína fram í sjöunda sinn nú í byrjun febrúar. Svar hefur ekki borist en þegar ýtt var eftir málinu nýlega var skyndilega beðið um ótímabundinn frest til að svara fyrirspurninni sem nú varðar upplýsingar um sölu fullnustueigna Íbúðalánasjóðs (nú HBS) til síðustu áramóta.

Enn er beðið svars og í ljósi reynslunnar virðist félags- og barnamálaráðherra ætla að hanga á svarinu til þingloka en þá dettur fyrirspurnin uppfyrir og þarf að endurtaka hana á næsta þingi. Hvað er þá til ráða? Einfalda svarið er að hægt er að bera fram vantraust á ráðherra sem brýtur lög um ráðherraábyrgð. Hætt er við að meirihlutinn að baki viðkomandi slái um hann skjaldborg og felli vantraustið.

Færi svo tæki sami meirihluti ábyrgð á lögbrotum viðkomandi ráðherra. Það yrði athyglisverð niðurstaða. Annar möguleiki er að stefna ráðherrunum fyrir dóm til að fá upplýsingarnar fram. Eitt er víst að einskis verður látið ófreistað til að fá niðurstöðu í þessu máli.

Höfundur:  Þorsteinn Sæmundsson þingmaður Miðflokksins"

Hvað er verið að fela?
Hverjum er verið að hygla?
Hver situr beggjamegin borðs?

Svör óskast frá þeim sem vita.


Ísland 41 –Danmörk 2 –Stjórnlaus staða

Dönum varð ljóst fyrir nokkrum árum að staðan í málefnum hælisleitenda væri orðin stjórnlaus. Og hvað gerðu Danir? Jú, þeir brugðust við undir forystu krata, sem þá höfðu yfirtekið stefnu Danska þjóðarflokksins í málefnum útlendinga.

Til upprifjunar var Pia Kjærsgaard um tíma formaður Danska þjóðarflokksins og þótti ýmsum hið versta mál þegar hún var heiðursgestur á Þingvöllum, í boði Alþingis, vegna aldarafmælis fullveldisins. Það er auðvitað svolítil kaldhæðni í því fólgin að danskir kratar hafi tekið upp stefnu Danska þjóðarflokksins, jafn mikið og sú stefna og sá flokkur var fyrirlitinn um stund.

Nú liggja fyrir nýjar tölur á upplýsingavef verndarmála um fjölda umsókna um alþjóðlega vernd á Norðurlöndum fyrir hverja 10 þúsund íbúa (samanburðarhæfar tölur). Þegar bornar eru saman tölur fyrir fyrstu 10 mánuði ársins 2022 kemur ótrúleg þróun í ljós þegar flóttafólk frá Úkraínu er ekki talið með. Fjöldi umsókna fyrir hverja 10 þúsund íbúa er hæstur á Íslandi, langhæstur.

41 umsókn barst hingað til lands fyrir hverja 10 þúsund íbúa. Sambærileg tala fyrir Danmörku er 2! Munurinn er rúmlega tvítugfaldur! Á milli Íslands og Danmerkur liggja svo hin Norðurlöndin. Svíþjóð með 14 umsóknir, Finnland með átta og Noregur með sex. Ísland í öllu tilliti með hlutfallslega langmesta fjöldann.

Hvers vegna skyldi þróunin vera þessi? Séríslenskirseglar hafa sín áhrif. Og svo eru það auðvitað skilaboðin sem stjórnvöld senda frá sér. Dönsk stjórnvöld hafa einsett sér að enginn komi til Danmerkur til að sækja um alþjóðlega vernd, heldur sæki fólk í neyð um danska vernd á nærsvæðum sínum og dönsk stjórnvöld velji úr þann hóp sem þau telja sig ráða við að taka á móti.

Í því felst engin mannvonska, heldur þvert á móti felst í því mildi að hlífa fólki við löngu og erfiðu ferðalagi, upp á von og óvon. Oft undir handarjaðri glæpagengja sem hafa gert sér neyð þess að féþúfu.

Annað sem nauðsynlegt er að ræða er að þeir fjármunir sem varið er til málaflokksins hér á Íslandi gætu gert mun meira gagn fyrir fleiri á nærsvæðum þess fólks sem finnur sig á flótta, mun meira gagn en hér heima, í einu dýrasta landi í heimi. Fjöldi þeirra sem hingað sækja alþjóðlega vernd og eru með ríkisfang í Venesúela er síðan kapítuli út af fyrir sig. Sé horft til síðustu þriggja mánaða sóttu fleiri frá Venesúela um vernd á Íslandi en hingað leituðu frá Úkraínu.

Í öðru landinu er stríð, þar sem hús og híbýli eru sprengd í loft upp, í hinu landinu er vinstristjórn. Blasir ekki við að einhvers staðar höfum við misstigið okkur? Litla-útlendingamálið leysir í öllu falli ekki þann vanda sem við blasir. Regluverk útlendingamála þarfnast heildarendurskoðunar. Sú vinna þarf að hefjast strax.

Bergþór Ólason þingflokksformaður Miðflokksins.


Fjarðarheiðargöng fyrir fáa?

Á Seyðisfirði búa um 600 manns. Þar er önnur af tveim aðal farþega-millilandagáttum landsins, eina höfnin á Íslandi með reglulegum áætlanasiglingum farþega-ferju milli Íslands og Evrópu. Auk þess fer mikill út- og innflutningur um höfnina.

Sú höfn er tengd við þjóðvegakerfið með erfiðum fjallveg um Fjarðarheiði, sem oft er farartálmi um vetur. Hinumegin við heiðina er einn af þrem varaflugvöllum landsins, Egilsstaðaflugvöllur, afar vannýttur innviður í þessu landi. Mitt á milli þessara tveggja innviða er Eyvindarárstöð, aðveitustöð Landsnets, rétt norðan núverandi þéttbýlis á Egilsstöðum. Eyvindarárstöð hefur undanfarið verið efld mjög og er nú afhendingar-öruggur tengipunktur Landsnets fyrir raforku til atvinnurekstrar. Litlu innar í dalnum er stærsta vatnsaflsvirkjun í Evrópu, Fljótsdalsvirkjun, oft rangnefnd Kárahnjúkavirkjun.

Ráðgert er að grafa lengstu jarðgöng á Íslandi undir Fjarðarheiði, 13km. Um er að ræða mjög dýra framkvæmd sem núverandi áætlun slagar hátt í 60 milljarða með tengivegum. Mörgum finnst í of mikið lagt fyrir 600 manns að greiða nær 100 milljónir á hvern íbúa Seyðisfjarðar.

Það gleymist hins vegar í þeirri umræðu að í nánasta nágrenni við göngin eru áður taldir mikilvægir innviðir þessa lands. Fjarðarheiðargöng eru ekki eingöngu ætluð til að leysa samgönguvanda íbúa beggja vegna heiðarinnar. Miklu fremur eru þau ætluð til að efla og auka notagildi annarra dýrra innviða sem eru í dag vannýttir. Auk þess auka göngin möguleika á aukinni atvinnu-uppbyggingu ef rétt er haldið á spöðunum.

Óvíst er um pólitískan vilja stjórnvalda að fara í framkvæmdir við göngin og þeim gengur erfiðlega að fjármagna þau. Auk þess er mikil pressa á aðrar dýrar samgönguframkvæmdir í landinu. Samkeppnin um fjármagn og athygli stjórnvalda er því mikil.

Það er ekki síst hlutverk sveitarstjórnar Múlaþings að halda á lofti þjóðhagslegri arðsemi af göngunum. Núverandi sveitarstjórn hefur hrapalega mistekist það verk. Í stað þess að tala upp verkefnið og hátta skipulagsmálum þannig að göngin nýtist sem best, hafa þau aðallega farið með betlistaf til ráðherra sem engu getur lofað, auk þess að skipuleggja leiðarval frá göngunum Héraðs megin án nokkurrar framtíðarsýnar í skipulags- og atvinnumálum. Um er að ræða tvær leiðir frá göngum sem þarf að velja á milli; Norður- og Suðurleið. Vegagerðin mælti með S-leiðinni fyrst og fremst út frá vegtæknilegum ástæðum og kostnaðargreiningu. Leiðarval Vegagerðarinnar er gagnrýnt í nýrri skýrslu Skipulagsstofnunar. Staðháttakunnugir heimamenn hafa líka gagnrýnt leiðarvalið harðlega. Þá er út frá náttúruverndarlögum hætt við að S-leiðinni verði „Teigsskógur 2“. Þrátt fyrir þetta hefur sveitarstjórn Múlaþings í óðagoti og án mikillar umræðu, ákveðið að fara að ráðleggingum Vegagerðarinnar og velja S-leiðina og þar með hafnað N-leiðinni.

N-leiðin á hinn bóginn tengir á stystan mögulegan hátt innviðina þrjá, flugvöll, höfn og aðveitustöð. Á það hefur verið bent af sérfræðingum að kostnaðarmat Vegagerðarinnar við þá leið er stórlega ofmetið og leiðin illa frumhönnuð. Með vali á N-leið opnast nýtt og stórt tækifæri á uppbyggingu öflugra atvinnufyrirtækja norðan núverandi byggðar á Egilsstöðum sem gætu nýtt sér þessa innviði. Stutt og greiðfær leið milli millilanda-flugvallar og hafnar í nálægð við öruggan tengipunkt rafmagns-netsins, svo ekki sé talað um vaxandi umsvið skemmtiferðaskipa sem skipta út áhöfnum og farþegum með flugi.

Mikill skortur er á ákjósanlegum iðnaðarlóðum á Egilsstöðum og því brýnt að geta boðið lóðir nærri aðveitustöðinni sem fyrst.

Ný skoðanakönnun Gallup sýnir yfirgnæfandi vilja íbúa að N-leið verði valin, eða 63,4% þeirra sem tóku afstöðu. Vonandi verður sú niðurstaða íbúa til þess að sveitarstjórn hugsi sig tvisvar um áður en hún heldur áfram á sinni vegferð og taki tillit til þessa í nýju aðalskipulagi sem brátt fer í þróun hjá sveitarfélaginu. Að taka stóra ákvörðun í trássi við vilja íbúa getur vart talist góð stjórnsýsla.

Það er mikilvægt að efla innviði og draga að fleira fólk á Austurland út frá öryggissjónarmiðum í eldvirku landi. Með því að velja N-leiðina verða Fjarðarheiðargöng ekki bara fyrir 600 Seyðfirðinga heldur 376 þúsund Íslendinga, álitlegur fjárfestingarkostur fyrir alla landsmenn.

Þröstur Jónsson sveitastjórnarfulltrúi í 1. sæti M-listans í Múlaþingi.


Egilsstaðaflugvöllur – flug og heilbrigðisþjónusta

Egilsstaðaflugvöllur er mjög mikilvægur þegar kemur að heilbrigðisþjónustu, en er lítils virði ef flugið sem um hann fer þjónustar ekki íbúa landshlutans,  flugþjónusta er léleg og óáreiðanleg.

Þetta á sérstaklega við þegar talað eru um Icelandair, versnaði við sameiningu Flugfélags Íslands og Icelandair, þó var hún ekki góð fyrir. Feld eru niður flug í tíma og ótíma, flugvélum skipt út þannig að færri komast með en hafa bókað sig, endurgreiðslur fást ekki þegar flug er fellt niður eða breytt, svo kostar offjár að fá bókun breytt þó breytingin hafi orsakast af aðgerðum Icelandair, flugbrúin fellur niður og fæst ekki notuð fyrir einstaklinginn (flugfélagið væntanlega hirðir samt greiðsluna frá ríkinu), bókaðar gistingar fást ekki endurgreiddar og bókaðir tíma á sjúkrahúsum eða hjá sérfræðingum falla niður og fást ekki aftur fyrr en mánuðum síðar.

Þetta er heilbrigðisþjónustan sem okkur er boðið uppá á Austurlandi og kostar okkur jafnvel hundruða þúsunda að fara í eina læknis vitjun, sem sjúkratryggingar endurgreiða ekki, auk þess þarf að draga það sem þeim ber að borga út úr þeim með töngum og tekur jafnvel mánuði að ganga í gegn.

Hér koma lýsingar nokkra aðila sem birtust á Facebook:

Petra Lind Sigurðardóttir· 

Örsaga af Icelandair í dag:

Maðurinn minn átti löngu pantað flug ásamt syni okkar í fyrramálið, 17. Feb. að heimsækja fjölskyldu okkar fyrir sunnan auk þess að fara í læknaferð. Í gær kemur sonur minn veikur heim af leikskólanum svo ég reyni að hafa samband við Icelandair í morgun og fá fluginu breytt og ætla að senda dóttur okkar með pabba sínum í staðinn.

Ég opnaði netspjallið kl. 9 í morgun og var í samskiptum þar til kl. 10:30 en þar bað ég um aðstoð við að bóka dóttur okkar í flug þar sem ég gat ekki gert það sjálf enda aðeins 2 ára og hefði allaf þurft að vera í fylgd fullorðins og flugfélagið býður ekki upp á að bæta við miða innan sama bókunarnúmers.

Aðstoðin sem ég fékk virtist vera að ganga eftir góðan einn og hálfan tíma og þá spyr þjónustuaðilinn á chattinu hvort hann megi bjalla þegar hann hefur lokið við að græja bókunina. Hann var í vandræðum að bóka heimferðina því flugið heim á þriðjudag var fullt en hann virtist ekki geta "strokað" sætið hjá syni mínum út og bætt dóttur minni við. Það er skemmst frá því að segja að það símtal kom auðvitað aldrei.

Ég hringdi í Icelandair sjálf rétt fyrir kl. 13 og bað um aðstoð við sama mál og lýsti þar að auki yfir vonbrigðum þess að fá ekkert símtal því ég væri orðin stressuð að ná ekki inn miða í þetta morgunflug. Nafnabreyting er að sjálfsögðu ekki í boði svo að til þess að koma dóttur minni suður í þessa 4 daga ferð borgaði ég 25 þúsund krónur, með því að nýta loftbrúnna samt sem áður.

Kl. 13:15 eða rúmum 4 klukkutímum eftir að ég náði fyrst sambandi náðist loks að græja flugmiðann.

Kl. 18 fær maðurinn minn símtal frá Icelandair þar sem honum er tjáð að verið væri að skipta út stórri vél í fyrramálið fyrir litla vél og hann spurður hvort hann geti stokkið í kvöldvél klukkan 20. Hann er á kvöldvakt á Reyðarfirði og barnið staðsett í Neskaupstað svo augljóslega gekk það ekki upp. Hann lætur vita að hann sé á leið í læknisferð og starfsmaðurinn lætur hann vita að það sé verið að forgangsraða í litlu vélina í fyrramálið og að hann verði látinn vita hvernig flugið fer.

Kl. 20:15 koma skilaboð frá Icelandair að fluginu hans í fyrramálið sé aflýst og hann hafi verið endurbókaður kl. 16:05 – skilaboðin komu eftir að hægt er að ná sambandi við Icelandair enda lokar þjónustuborðið kl. 20. Nú er fjögurra daga ferðin orðin að þriggja daga ferð, læknatíminn farinn fyrir bý og samt greiddi ég himinhátt verð til að svissa dóttur okkar eftir mikið stapp í símann og spjallið í allan dag.“

Heimir Snær Gylfason

Jæja enn eitt vesenið og bara kaos á vellinum. Bilun var valdur því að a endanum var fluginu aflýst í gærkvöldi. Heyrði á mörgum að nú tæki við önnur 3ja mánaða bið eftir læknistíma. Hjá mér að breyta vinnuplönum er lítilræði miðað við það. En þetta er mjög óþægilegt, að fá svo engin svör fyrr en miðja nótt hvað verður gert í málinu er ekki gott. Verra er að það er ekki fyrr en á hádegi í dag. Hefði verið skárra með fyrsta flugi í morgun. Loksins þegar veður er skaplegt þá er það bilun.“

Unnar Erlingsson

Öryggisþáttur innanlandsflugs fyrir okkur sem búum fjærst þjónustunni þarf meiri fókus. Má halda að við séum orðin of vön slæmri þjónustu og úrræðaleysi að við gerum lítið til að biðja um það sem réttlátt er.“

Kolbrún Nanna Magnúsdóttir

Sonur okkar átti að mæta í aðgerð í morgun aflýst alltof seint svo eina leiðin var að keyra í nótt, eða bíða með aðgerð einmitt í 3 mánuði það var líka seinkun til Akureyrar en flugið þangað en ekki austur“

Svona er ástandið dag eftir dag og ekki hægt að bjarga nokkrum hlut. Hér þarf hið opinbera að grípa inní, eða byggja heilbrigðisþjónustu á Austurlandi þannig upp að hún nýtist íbúunum. Tekjuöflun Austurlands fyrir þjóðarbúið er margfalt það sem notað er á Austurlandi, náttúruauðlindir okkar nýttar þannig að allur arðurinn af þeim fer í þjóðarhítina en ekki ein króna kemur á Austurland.

Hvar er jafnræðið í þessu landi?

Björn Ármann Ólafsson
4.maður á lista Miðflokksins í Múlaþingi


Öxi – Þáttur samgangna í heilbrigðisþjónustu – Samgöngur og önnur þjónusta

Heilbrigðisþjónusta hefur verið þjappað í Heilbrigðisstofnun Austurland (HSA) og á eitt fjórðungssjúkrahús. Ef það dugar  ekki eru sjúklingar fluttir til Akureyrar í sjúkrabíl eða sjúkraflugi, eða  til Reykjavíkur með sjúkraflugi. Þetta segir okkur að samgöngur verða að vera í lagi, vegir opnir styðstu leið á heilsugæslu eða sjúkrahús. Samgöngur eru hluti heilbrigðisþjónustu á Austurlandi.

Öxi spilar stóran þátt í þessu. Vegalengd til Egilsstaða frá Djúpavogi er 85 km um Öxi en ef þú þarft að fara um firði þá eru það 152 km eða 67 km munur. Þegar farið er á Neskaupstað eru það 152 km um Öxi en 157 km um firði. Talað er um að Öxi sé fjallvegur og því geti brugðið til beggja vona um færð. En hæsti hluti Öxi er ekki nema 10 km og bara ófært í verstu veðrum sem er ekki daglegt brauð. Akstur um firði er um annes þar sem stormar eru algengir og oft ófært þess vegna, veginum lokað. Einnig falla skriður, krapahlaup og snjóflóð á þeirri leið. Þegar neyðin kallar er því nauðsynlegt að hafa fleiri enn einn möguleika á að komast í heilbrigðisþjónustu, annaðhvort á Fjórðungssjúkrahúsið eða með sjúkraflugi til Akureyrar. Fagridalur getur oft verið ófær vegna veðurs og þá oft skriðuhlaup í leysingum og einnig sjóflóð úr Grænafjalli sem gerist nokkrum sinnum á hverjum vetri.

Önnur öryggisþjónusta sem þarf að fara um þessa vegi eins og slökkvilið, þarf að komast  þá á sem skemmstum tíma. Aðalstöðvar Brunavarna Múlaþings eru á Egilsstöðum í samvinnu við brunavarnir á Egilsstaðaflugvelli og þjóna svæðinu frá Vopnafirði til Djúpavogs. Á stöðum eins og  Djúpavogi, Seyðisfirði. Borgarfirði eystri og Vopnafirði er aðeins búnaður fyrir fyrsta undirbúningsútkall meðan liðið frá Brunavörnum Múlaþings er á leiðinni. Vegur um Öxi tryggir að alltaf er möguleiki á fleiri en einni leið milli staða til að tryggja öryggi.

Auk þessa er Egilsstaðaflugvöllur mjög mikilvægur í heilbrigðisþjónustu og aðgengi að honum þarf því alltaf að vera tryggt.

Björn Ármann Ólafsson
4.maður á lista Miðflokksins í Múlaþingi


Sigmundur Davíð og Bergþór á ferð og flugi

Miðflokkurinn á undir högg að sækja og er magnað að fylgjast með hvernig pólitískt einelti viðgengst gegn góðum málflutningi Miðflokksmanna.  Þar leiðir RÚV eineltið, ýmist með þöggun eða japplar á síendurteknu efni.

Áður hefur á þessari síðu verið fjallað um vanhæfissirkusinn í Múlaþingi gegn Þresti Jónssyni, Miðfokksmanni í sveitastjórn, rugli sem engan endi virðist ætla að taka.  Meirihlutinn er kominn í bullandi vörn með málið og Innviðaráðuneytið reynir að kaffæra bjálfaganginn í flokksmönnum sínum, með 13 blaðsíðna greinagerð til sveitarfélagsins með engri vitrænni niðurstöðu um vanhæfi Þrastar. 

Barátta Miðflokksins í skipulagsmálum er að bera árangur, en fram að þessu hefur ekki verið tekið undir beiðni flokksins að setja málið í almenna kosningu, er varðar leiðarval umferðar um bæjarfélagið. 

Iðurlega er gert lítið úr málflutningi flokksmanna og síðan snúa andstæðingarnir skyndilega við blaðinu og gera málflutning Miðflokksins að sínum.

Um þetta og margt fleira verður fjallað um á sunnudaginn. 

Vertu velkominn.

 

Auglýsing Miðflokkur 145x108mm


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband