Færsluflokkur: Samgöngur
4.7.2024 | 12:44
Þrýsta á framkvæmdir við nýja brú yfir Jökulsá á Fjöllum
https://www.austurfrett.is/frettir/thrysta-a-framkvaemdir-vidh-nyja-bru-yfir-joekulsa-a-fjoellum
Höfundur: Albert Örn Eyþórsson Skrifað: 04. júlí 2024.
Samtök sveitarfélaga á Austurlandi hefur falið framkvæmdastjóra sínum að þrýsta á um að undirbúningi og framkvæmdum við nýja brú yfir Jökulsá á Fjöllum verði fram haldið nú þegar.
Bókun þessa efnis kom upphaflega fram hjá áheyrnarfulltrúa á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings snemma í síðasta mánuði. Þar fór Hannes Karl Hilmarsson úr Miðflokknum þess á leit að ráðið samþykkti bókun um að ýtt skyldi á eftir gerð nýrrar brúar þrátt fyrir að brúin sé ekki innan marka Múlaþings.
Brúin sem um ræðir er einbreið hengibrú sem opnuð var umferð árið 1947 eða fyrir 76 árum síðan. Búið var að vinna töluvert að undirbúningi nýrrar brúar og nánast komið að útboði verksins þegar mikið krapaflóð í byrjun árs 2021 setti þær áætlanir í uppnám og þær verið á ís síðan.
Hannes Karl lét bóka að brúin sé mikilvægur hlekkur í samgöngukerfi Austurlands en þungatakmarkanir hafa lengi haft áhrif á flutninga til og frá Austurlandi með tilheyrandi tekjutapi og neikvæðu kolefnisspori enda algengt að bílar með þungan farm þurfi beinlínis að sneiða hjá núverandi brú og fara krókaleiðir með farm sinn.
Undir þetta tók umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings einum rómi og hvatti bæði samtök sveitarfélaga á Austurlandi og Norðurlandi eystra til að þrýsta á um málið. Undir þetta tók stjórn samtaka sveitarfélaga á Austurlandi á fundi sínum síðar og framkvæmdastjóri þess vinnur það nú áfram með kollegum af Norðurlandi eystra.
30.5.2024 | 16:16
Úr ódýrustu hillu almannatengsla bílastæðagjöld á innanlandsflugvöllum
ISAVIA kynnti í upphafi ársins fyrirætlanir um innheimtu á bílastæðagjöldum á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum. Af því tilefni skrifaði ég grein sem birtist á hér á Austurfrétt. Þar var fjallað almennt um starfsheimildir ISAVIA, m.a. sérstök lagaákvæði sem gilda um Keflavíkurflugvöll, en ekki aðra flugvelli. Gjaldtökunni var frestað en ISAVIA hefur nú kynnt að bílastæðagjöld verði innheimt frá 18. júní.
Kallað hefur verið eftir því að ISAVIA geri grein fyrir forsendum gjaldtökunnar. Kynning á málinu hefur verið í formi innihaldslausra fullyrðinga úr ódýrustu hillu almannatengsla, um að gjaldtakan skili betri ferðaupplifun. Full ástæða er því að rifja upp af hverju bílastæðagjöldin kunna að vera ólögmæt en einnig er velt upp álitamálum um hvenær bílastæðagjöld á vegum hins opinberra eru réttlætanleg.
Lagaheimild til töku bílastæðagjalds samþykki innviðaráðherra nauðsyn
Heimild til innheimtu bílastæðagjalds á landi ríkisins hvílir á 86. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Lögin nota heitið gjald fyrir stöðureiti. Í 4. og 5. mgr. eru eftirfarandi ákvæði:
Að fengnu samþykki ráðherra sem fer með málefni ríkisjarða og lands í eigu ríkisins er ráðherra heimilt að setja reglugerð um notkun stöðureita og gjaldtöku fyrir hana á landi í umráðum ríkisins, öðru en þjóðlendum og náttúruverndarsvæðum.
Ráðherra innheimtir gjald skv. 4. mgr. eða felur öðrum að sjá um innheimtuna með samningi. Þá getur ráðherra heimilað ríkisaðila að sjá um innheimtu gjalds fyrir notkun stöðureita sem viðkomandi ríkisaðili hefur umsjón með.
Opinbera hlutafélagið ISAVIA er óumdeilanlega ríkisaðili, samkvæmt skýrum ákvæðum 50. gr. laga nr. 123/2015 um opinber fjármál. ISAVIA þarf því heimild til innheimtu gjalds fyrir stöðureiti.
ISAVIA hefur ekki fengið heimild hjá innviðaráðherra til innheimtu slíks gjalds og samkvæmt fyrirspurn til ráðuneytisins hefur ekkert erindi um slíkt borist frá ISAVIA.
Það skal nefnt að þjónustusamningar ISAVIA um rekstur innanlandsflugvalla gera ráð fyrir að ISAVIA hafi rétt til að innheimta gjöld frá þriðja aðila vegna eigna ríkisins. Ákvæði í samningum breyta þó ekki lagaákvæðum. Þar fyrir utan er óljóst hvort ákvæðið vísi til bílastæðagjalda af almennum notendum innanlandsflugvalla, enda líklegt að slíkt grundvallaratriði hefði verið nefnt sérstaklega. Fjármála- og efnahagsráðuneytið ætti að svara því hvort gjaldtakan sé samþykkt af þeirra hálfu.
Auk þessa verður lögmæti bílastæðagjalds dregið í efa út frá jafnræðisreglum, en óútskýrt er af hverju innheimta á gjald af bílastæðum sumra flugvalla í umráðum ISAVIA. Þjónustusamningur ISAVIA gerir engan greinarmun á rekstrarábyrgð og þjónustu ISAVIA vegna bílastæða á Egilsstöðum og t.d. Ísafirði.
ISAVIA á villigötum þörf á pólitískri stefnumörkun
Ef skoðuð eru drög að samgönguáætlun 2024-2038 er hlutverk ríkisins gagnvart rekstri innanlandsflugvalla og staða þeirra í samgöngukerfinu skýr. Þar kemur fram að enginn flugvallanna er sjálfbær og njóta þeir því allir framlaga úr ríkissjóði. Jafnframt að framlög til framkvæmda og viðhalds á innanlandsflugvöllum eru greidd úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum.
Þessi staða er í góðu samræmi við hlutverk ríkisins í samgöngumálum almennt. Ný gjaldtaka ISAVIA á bílastæðum við innanlandsflugvelli væri algjör stefnubreyting í rekstri samgöngukerfis landsins. Gjaldtaka á bílastæðum við innanlandsflugvelli er ekki réttlætanleg og eðlileg ef hún byggir ekki á skýrri pólitískri stefnumörkun. Það er alls ekki hlutverk stjórnenda ISAVIA ohf. eða ISAVIA innanlandsflugvalla ehf. að taka slíkar stefnumótandi ákvarðanir.
Samkvæmt 86. gr. umferðarlaga er gert ráð fyrir að reglugerð verði sett um heimildir til innheimtu gjalds fyrir stöðureiti á landi ríkisins. Það er mikilvægt að þessi reglugerð verði sett og ríkið móti stefnu um hvar er réttlætanlegt að innheimta bílastæðagjöld. Það getur átt við þar sem bílastæðagjöld tíðkast almennt á aðliggjandi svæðum eða ef ný bílastæði eru byggð frá grunni ótengd opinberri þjónustu, t.d. við ferðamannastaði. Það má ekki ráðast af hugmyndauðgi stjórnenda stofnana og fyrirtækja sem sinna opinberri þjónustu hvar bílastæðagjöld eru tekin upp.
Líklega eru bílastæðin við Egilsstaðaflugvöll samfélagslega mikilvægustu bílastæði Austurlands, eftir bílastæðum við heilbrigðisstofnanir. Það væri grundvallarbreyting og skerðing á grunnþjónustu ríkisins ef bílastæðagjöld legðust á almenna notendur innanlandsflugs.
Það er mikil einföldun að horfa einungis á þátt ISAVIA. Meginábyrgð málsins hlýtur að liggja hjá stjórnvöldum, þar sem fjármála- og efnahagsráðherra og innviðaráðherra ráða málefninu.
29.2.2024 | 18:05
Bílastæðadrama á Egilsstaðaflugvelli
Til að auka upplifun rándýrra fargjalda frá Egilsstöðum í Mekka menningar, lista og hágæða heilbrigðisþjónustu, hefur ISAVIA komist að því að hægt er að auka á fjárhagslega vellíðan og upplifun, með því eina að skella inn aukakostnaði á farþega með því að skella á svokölluðm bílastæðisgjöldum.
Eflaust verður upplifunin mest við að leggja bílunum á ómalbikuðu bílastæðin og geta þar að auki fengið aukaupplifun, að sjálfsögðu gegn hóflegu gjaldi, að ösla drullupollana heim að flugstöðinni dragandi ferðatöskuna á eftir sér. Það sér hver heilvita maður að það kostar meira að fá slíka drulluháleista inn á hreint gólfið í flugstöðinni og einhver verður að borga þrifin.
Á fundi flugmálayfirvalda með sveitastjórn Múlaþings um þetta tiltekna mál, virtist ekki vera mikil samstaða milli fulltrúa meirihlutans og því tilefni til vangaveltna um hvort meirihlutinn sé jafnvel sprunginn. Það lá nærri í Fjarðabyggð sl. sólahring, þegar einn í meirihlutanum var á móti ríkjandi rangri hugmyndafræði og greiddi atkvæði af einskærri rökhugsun.
Slíkt mun seint gerast í Múlaþingi undir stjórn B og D, að skynsemin verði sett í öndvegi í þessu máli, sérstaklega þegar það er haft í huga að Innviðaráðherrann er í B Framsóknarflokki og staðfestir leyfin til ISAVIA og Fjármálaráðherrann er í D Sjálfstæðisflokki sem er handhafi hlutabréfsins í ISAVIA.
Rúsínan í pylsuendanum er að það þarf að stofna sérstaka innheimtudeild hjá ISAVIA til að sjá um utanumhaldið og það mun kosta meira en innkoman og því verður að fresta enn frekar öllum framkvæmdum á Egilsstaðaflugvelli.
Þetta er náttúrulega bara tær markaðsleg snilld.
29.6.2023 | 15:07
Norðurleiðin
Í gildandi skipulagi fyrir Egilsstaði er gert ráð fyrir gangamunna Fjarðaheiðganga ofan við Steinholt og vegi norðan Eyvindaár með brú við Melshorn.
Það er sú leið sem er hagkvæmust og ódýrust í framkvæmd og hefur minnst rask í för með sér. Það er sú leið sem M-listinn hefur talað ítrekað fyrir.
Vegagerðin hefur talað fyrir Dalhúsaleiðinni, sem er umtalsvert dýrari í framkvæmd og fer að miklu leyti yfir ósnortið land og mjög áhugavert byggingaland, sem yrði með grænum ósnortnum svæðum inn á milli.
Sveitarstjórn Múlaþings hefur afhent Vegagerðinni skipulagsvaldið og sýnir enga tilburði að vinna með samfélaginu í að veljabesta, ódýrasta og öruggustu leiðina fyrir íbúana.
Eftir síðustu vendingar ríkisstjórnarinnar, um frestum Fjarðaheiðaganga til 2025,gefst tækifæri til að vinda ofan af þessum áformum og hætta við auglýstar breytingar á aðalskipulagi Egilsstaða og endurskoða alla vinnu við það.
Á Egilsstöðum hefur í mörg ár verið krafa um að minnka óþarfa umferð þungaflutninga um miðbæ Egilsstaða. Ráðamenn í Múlaþings átta sig ekki á að öryggi íbúanna er í húfi.
Flest sveitarfélög vinna að því að þungaflutningar og umferð, sem ekki á beinlínis erindi inn í bæjarfélög, hafi greiða leið í jaðri byggða.
Meirihlutinn áttar sig ekki á þörfum atvinnulífsins um gott flæði um atvinnusvæðin með skriðþunga farma. Iðnaðarsvæði við Lyngáer gott og gilt, en verður þar ekki tugi ára í viðbót.
Svæði norðan Eyvindaár hentar undir blandaða byggð, s.s. verslun, orkuríka starfsemi, starfsumhverfi þungavinnuvéla og margskonar þjónustu tengda flutningastarfsemi, - að því gefnu að Norðurleiðin verði valin.
Meirihlutinn í Múlaþingi hefur ekki heildarsýn um gagnkvæmar tengingar umferðar- og samgöngumannvirkja t.d. milli Seyðisfjarðarhafnar og Egilsstaðaflugvallar
Ekki er hægt að fara í svo umfangsmiklar breytingar á skipulagi án þess að taka inn í heildarmyndina hvar ný Lagarfljótsbrú á að vera og hvar þjóðvegur eitt skuli liggja, svo lengja megi Egilsstaðaflugvöll uppfylla væntingar um meira millilandaflug.
Aðalskipulag á að vera lifandi plagg, án þess þó, að taka drastískum breytingum eftir dagsformi forseta sveitarstjórnar.
BVW.
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 20:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2023 | 13:36
Opið bréf til ráðherra samgöngumála og forstjóra Vegagerðarinnar um Fjarðarheiðargöng
Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig tilvonandi gangnaframkvæmd er verðlögð og hverju er hægt að klína af aukakostnaði á svona framkvæmd.
Vegur í Seyðisfirði
Er nauðsynlegt að breyta vegi frá gangnamunna niður að bæ?
Hvað kostar þessi breyting?
Þessu fylgir mikill auka kostnaður, ekki bara við breytingu á vegi því það þarf að færa golfvöll líka með ærnum tilkostnaði.
Ég, sem vegfarandi þarna flesta daga, kaupi það ekki sem rök að vegurinn í Seyðisfirði fyrir neðan Gufufoss sé vandamál í dag. Ég er viss um að undir þetta kvitta flestir heimamenn og flutningabílstjórar sem aka þarna um reglulega.
Það efni sem út úr göngum kemur Seyðisfjarðarmeginn væri hægt að nýta í ýmislegt annað en veg yfir gofvöll. Til dæmis landfyllingar og varnargarða svo eitthvað sé nefnt.
Vegur Egilsstaðamegin
Hvers vegna vill vegagerðin hafa gangnamunnann við Dalhús sem er með dýrustu tengingu sem völ er á?
Þarna þarf að leggja veg og byggja brú yfir Eyvindarárgilið svo ekki sé minnst á hugmyndir um Norðurleið eða Suðurleið, sem ég ætla alveg að láta liggja milli hluta. Þá umræðu tel ég bara alls ekki tímabæra eins og staðan er í dag.
Hvað mælir á móti því að gangnamunninn Héraðsmegin sé hafður fyrir ofan Steinholt þar sem hann getur verið nálægt núverandi vegi og tengst inn á hann og við notum þann veg sem notaður er í dag?
Umferð í gegnum Egilsstaði er einfalt og ódýrt að leysa til að tryggja öryggi vegfarenda.
Byrjum á hringtorgi á mótum Seyðisfjarðarvegar og Fagradalsbrautar. Þetta hringtorg er hægt að staðsetja þannig að leiðin upp á Fagradal nái sem beinastri línu í gegn til að greiða fyrir umferð upp í þá brekku sem er út úr þéttbýlinu á Egilsstöðum. Þetta hægir á umferð inn í bæinn.
Þá er hægt að gera undirgöng undir Fagradalsbraut við Tjarnarbraut og Miðvang ásamt hringtorgi á gatnamót Fagradalsbrautar og Vallavegar við Söluskála N1. Á neðri hluta Fagradalsbrautar er svo í lófa lagið að taka hámarkshraða niður í 30 km á klukkustund ef þurfa þykir. Umferð á Fagrdalsbraut er ekki vandamál í dag að mínu mati og kemur ekki til með að aukast við það eitt að umferð fari undir Fjarðarheiði en ekki yfir.
Efni það sem til fellur Héraðsmegin mætti til dæmis nýta í stækkun flughlaðs og gerð akstursbrautar við flugvöllinn. Við Íslendingar eigum t.d. opinbert hlutafélag sem heitir Isavia. Þatta félag getur keypt efnið og staðið straum af kostnaði við þennan þátt ef vilji er fyrir hendi. Eða er það svo að ef félagið er ohf þá hefur ráðherra samgöngumála og réttkjörin stjórnvöld ekki lengur stjórn á eigum okkar Íslendinga?
Nei - við þurfum ekki að keyra þessu efni öllu í gegnum Egilsstaði þar sem það er vegur niður með Eyvindará að norðanverðu. Vegagerðin hefur sýnt okkur það oftar en einu sinni að það er ekki lengi verið að henda upp bráðabirgðarbrú, svo þessa leið má auðveldlega nota. Nema kannski einhver finni það út að veginn norðan Eyvindarár þurfi þá að byggja upp minnst 8 metra breiðan með vegriðum og öryggissvæðum og guð má vita hvað kostnað er hægt klína á það.
Stóra spurningin er í mínum huga: Hvers vegna er verið að klína öllum þessum óþarfa aukakostnaði á Fjarðarheiðargöng?
Hver er raunverulegur kostnaður við að gera þessi göng með nauðsynlegum tengingum við Steinholt og Gufufoss?
Er kostnaður kostnaður við þessar tengingar sem engin þörf er á strax settur á Fjarðarheiðargöng til að ekki teljist gerlegt að byggja göngin vegna kostnaðar?
Með þessu leiðum sem ég bendi á er ekki búið að loka fyrir leiðir framhjá þéttbýlinu norður eða suður í framtíðinni þegar og ef raunveruleg þörf skapast.
Færeyingar byggðu tvenn göng
Eysturoyjartunnilin, 11.238 metra löng með 3 gangnamunnum 1 hringtorgi. Sanoytunnilinn, 10.785 mera að lengd.
Áætlaður kostnaður 2016 framreiknað til dagsins í dag 54,5 miljarðar íslenskra króna fyrir bæði göngin.
Fyrsta sprenging við Eysturoyartunnilinn var í febrúar 2017 og lokasprenging í janúar 2019. Göngin voru opnuð 19. desember 2020. Þau eru 10,5 metra breið og eru 189 metra undir sjávarmáli.
Áætlaður kostnaður við 13 km Fjarðarheiðargöng er um 60 milljarðar íslenskra króna.
Hvernig getur þetta passað?
Höfundur er Agnar Sverrisson
Greinin birtist á Austurfrétt:
https://www.austurfrett.is/umraedan/opidh-bref-til-radhherra-smgoengumala-og-forstjora-vegagerdharinnar-um-fjardharheidhargoeng
9.1.2023 | 20:09
Öxi Vegagerðin Stjórnvöld
Hvað er í gangi? Hvers vegna er alltaf höggið lengst frá stjórnstöðvunum? Hver eru áhrif á samfélagið okkar á Austurlandi, sem aflar allra mest í íslenska samfélagið per. mann allra landshluta á Íslandi?
Þetta eru spurningar sem vakna þegar fréttir berast af því að frestað er þegar auglýstum útboðum á vegaframkvæmdum á Öxi. Hönnun vegar um Öxi var lokið fyrir langalöngu síðan og sú hönnun samþykkt. Það er búið að taka Vegagerðina á annan áratug að semja við landeigendur um vegstæðið. Ég spyr, hvers konar vinnubrögð eru þetta. Er Vegagerðin kannski viljandi að reyna að tefja fyrir verkinu. Sú spurning hlýtur að vakna þegar framgangur mála er á þennan hátt. Eða er fjarlægðin frá Reykjavík það mikil að þeim finnist þetta engu máli skipta. Um Öxi fóru suma daga í júní 2004 um 400 bílar (upplýsingar frá vegagerðinni fengnar 2005). Í dag er þessi umferð allt að tvöfalt meiri þegar mest er og vex hratt þar sem þetta er aðalleið ferðamanna til Héraðs sem koma sunnan að og aðalleið íbúa Djúpavogs og nágrennis í þjónustu Múlaþings.
Stjórnvöldum er vel kunnugt um að tekjuöflun á Austurlandi er sú mesta á Íslandi. Austurland greiðir allar framkvæmdir og þjónustu á Austurlandi með því fjarmagni sem aflað er í fjórðungnum (sbr. skýrsla HA june 26th 2013 on http://www.irpa.is). Skýrsla Háskólans á Akureyri er miðuð við árið 2011. Afkoma í fjórðungnum hefur stóraukist frá þeim tíma, sem þýðir að tillag Austurlands til hítarinnar á suðvesturhorninu hefur stóraukist. Eru stjórnvöld svo blind á stöðuna og fjármál Íslands að þeir gera sér ekki grein fyrir þessu. Vegagerð á Austurlandi er langt á eftir því sem gerist og gengur á vestur hluta landsins. Flestar einbreiðar brýr og malarvegir.
Stjórnvöld verða að girða sig í brók og leyfa Austurlandi að njóta ávaxtanna af því sem þeir leggja í þjóðarbúið.
Björn Ármann Ólafsson
4.sæti Miðflokksins í Múlaþingi
20.10.2022 | 14:25
Krefjast þess að ríkið standi við fyrirheit um heilsársveg yfir Öxi.
Austurfétt er með hugleiðingu Djúpavogsbúa um svikin loforð stjórnvalda:
Nú þegar íbúar og sveitarfélagið hafa staðið við sitt er löngu tímabært að ríkið geri hið sama.
Svo hljómar niðurlag ályktunar sem samþykkt var á fjölsóttum íbúafundi sem fram fór á Djúpavogi í gær en þar krefjast heimamenn að staðið verði við gefin loforð í aðdraganda þess að sveitarfélagið Múlaþing varð til. Í aðdraganda sameiningar þeirra fjögurra sveitarfélaga sem að Múlaþingi standa skyldi bæta samgöngur í sveitarfélaginu og þar áhersla lögð á heilsársveg yfir Öxi til að auðvelda samgöngur í nýja sveitarfélaginu.
Blikur eru á lofti með verkefnið eins og Austurfrétt sagði frá fyrir nokkru síðan. Öll slík samvinnuverkefni í samgöngumálum eru nú í bið meðan innviða- og fjármálaráðuneytin endurskoða áætlanir ríkisins um fjárframlög til slíkra verkefna.
Upphaflega stóð til að heilsársvegur yfir Öxi færi í útboð haustið 2021. Það tafðist svo fram á yfirstandi ár en aftur tilkynnt um slíkt útboð í febrúar síðastliðnum og áttu framkvæmdir að hefjast fyrri hluta næsta árs. Ekkert hefur orðið af útboðinu enn sem komið er.
https://www.austurfrett.is/frettir/krefjast-thess-adh-rikidh-standi-vidh-fyrirheit-um-heilsarsveg-yfir-oexi
6.5.2022 | 11:05
Reykjavíkurflugvöllur - Lífæð Austurlands
Ekki hefur verið rætt í kosningabaráttunni mikið um hversu lífsnauðsynlegt það er fyrir okkur, sem búum á hjara veraldar hér í Múlaþingi, að hafa flugvöll í Reykjavík. Það vekur furðu að allir flokkar, sem bjóða fram í landinu undanskildum M-listanum, eru á móti veru flugvallarins í Vatnsmýri og vilja flytja hann suður á Reykjanes.
Reykjavíkurflugvöllur hefur gegnt afar mikilvægu og þörfu hlutverki við að tengja landsmenn saman, landsbyggðina við höfuðborgina, í hart nær 100 ár. Þar eru Austurlistinn, Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Vinstri græn í Múlaþingi samstíga.
Það mætti halda að þessir flokkar væru á móti sjálfum sér og íbúum landsbyggðarinnar, því allir sem hafa komið að máli eru sammála um að flutningur Reykjavíkurflugvallar mun hafa það í för með sér að flugið muni leggjast af eða í besta falli skerðast mjög.
Miðflokkurinn í Múlaþingi áttar sig á þörfinni, enda erum við flugvallavinir í öllum þeim verkum sem við tökum okkur fyrir hendur.
Landhelgisgæslan og sjúkraflugið er lífæð sjómanna og okkar, sem búum og störfum í Múlaþingi, en þrátt fyrir það hefur meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur fellt tillögur þess efnis að styðja við landhelgisgæsluna.
Enginn flokkur, að undanskildum Miðflokknum vill ræða þetta vitrænt, aðeins snúa útúr. Staðreyndir taka af allan vafa í þessum efnum.
Á laugardaginn 14. maí verður m.a. kosið um Reykjavíkurflugvöll og veru hans þar og þar með talið lífæð okkar.
Kjósum M-listann til áhrifa
Örn Bergmann Jónsson
þriðji maður á M-lista í Múlaþingi
https://www.austurfrett.is/umraedan/reykjavikurflugvoellur-lifaedh-austurlands
19.4.2022 | 13:27
Framtíð Íslands: Loftlagsmál samgöngur sjálfbærni
Á hverju byggist framtíð íslands? Augljóslega er það nýting innlendrar orku til samgangna og framleiðslu.Undanfarin ár hefur farið fram hönnun og tilraunir með svo kallað Hyperloop TT lestarkerfi bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Þetta kerfi keyrir á raforku, sem þýðir fyrir Ísland innlend orka og léttir á vegakerfinu sem þýðir að kostnaður við vegakerfið minnkar, gerir flug innanlands óþarft sem þýðir að mengun af flugi innanlands minnkar og styttir siglingu fraktskipa til Íslands þar sem siglt yrði stysta leið til landsins og vörunni sem kemur til landsins dreift með lestarkerfinu og útflutningsvörunni komið til útflutningshafnanna með lestarkerfinu.
Hvað er Hyperloop lest? Það er lestarkerfi sem fer gegnum sérhannað rör. Fer með hraða allt upp í 1000 km/klst (í tilraunum hafa þeir komist upp í 1200km/klst á löngum strikbeinum köflum). Fer þar af leiðandi hraðar en flug og nýtist bæði til mannflutninga og frakt flutninga. Ítalir stefna á að taka í notkun svona lest fyrir Vetrar-ólumpíuleikana 2026.
Það er þegar búið að gera áætlun um að setja upp Hyperloop leiðakerfi í Bandaríkjunum og Evrópu:
Nú er tími til kominn fyrir okkur Íslendinga að við þróum okkur til framtíðar og hönnum Hyperloop lestarkerfi kringum Ísland. Við ferðumst milli staða á stuttum tíma og hættum að menga með rútum, flugvélum og flutningabílum. Við flytjum alla frakt sem kemur stystu leið til íslands. Frá Evrópu til Austfjarða og frá Ameríku til Reykjaness. Dreifum fraktinni um Ísland á fljótan og öruggan hátt. Vöruflutningar á þjóðvegum minnka verulega og við styttum dreifingartíma.
Við munum komumst milli staða á Íslandi á styttri tíma, sem gerir heilbrigðisþjónustuna skilvirkari með að komast milli sjúkrahúsa og/eða sérfræðilækna á styttri tíma. Auk þess verður auðveldara að sækja ýmis konar þjónustu hvert sem er á landinu, þar sem við komumst að heiman og heim aftur á sama degi.
Þessi uppbygging kallar á að fjárfestar komi að málinu og er því gullið tækifæri lífeyrissjóða til að fjárfesta í uppbyggingu innviða á Íslandi af þessari stærðargráðu. Rekstur þessa kerfis kemur líklega til með að verða mjög arðbær og atvinnuskapandi, ekki síst fyrir menntað fólk þar sem notuð er hátækni við lestun og losun . Kerfi fyrir frakt yrði á hleðslustöðum lestanna, sem byggði á vélmennum sem þurfa þjónustu menntaðs fólks og einstaklinga með margvíslega sérhæfingu.
Kerfið verði hannað með sem beinustum línum eða langdregnum bogum. Lestunar og losunarstaðir verða ákveðnir miðað við hagkvæmustu möguleika til dreifingar. Kerfið yrði þannig að veður og vindar kæmu ekki til með að hafa áhrif á tíðni ferða. Þetta kerfi kæmi til með að auka sjálfbærni Íslands um langa framtíð.
Höfundur Björn Ármann Ólafsson, er leiðsögumaður og skipar 4. sæti á lista Miðflokksins í Múlaþingi.
https://www.visir.is/g/20222249746d/fram-tid-is-lands-loft-lags-mal-sam-gongur-sjalf-baerni
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 18:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2022 | 17:52
Egilsstaðaflugvöllur 2030?
Hvað segja Framsóknarmenn í Múlaþingi?
Hverju er Sigurður Ingi Jóhannsson ítrekað búinn að lofa með uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar?
Eru Framsóknarmenn í Múlaþingi sáttir við framgöngu formanns síns í flugvallarmálum?
Þögn Framsóknarmanna í Múlaþingi er ærandi, þegar kemur að flugmálum í sveitarfélaginu!
Hvassahraunsvöllur tilbúinn 2040? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |