5.9.2023 | 18:05
Björgum íbúum Múlaþings frá slæmum stjórnendum!
Í VÍSI þann 4.9.2023 birtist aldeilis mögnuð grein, sem veldur því að maður veltir því alvarlega fyrir sér hvort þetta sé tilviljun eða tákn frá þeim sem öllu ræður til stjórnenda í Múlaþingi.
Fulltrúi Miðflokksins í sveitarstjórn Múlaþings, hefur verið á milli tanna annara í sveitarstjórninni vegna þess að hann hefur átt það til að vitna í Biblíuna þegar honum ofbýður flumbrugangur meirihlutans í ýmsum málum og sérstaklega þegar gripið er til þess úrræðis að gera fulltrúa Miðflokksins vanhæfa í málum, sem varðar velferð sveitarfélagsins, en falla ekki að hugmyndum meirihlutans í sveitarfélaginu.
Svo vekur það sérstaklega athygli, að þrátt fyrir að myndaður hafi verið meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins, eru hin framboðin hangandi í pilsfaldi meirihlutans eins og hvert annað glingur á jólatré.
Eina undantekningin er Miðflokkurinn, sem hefur staðið sig aldeilis frábærlega við að gagnrýna meirihlutann og sýna ábyrg vinnubrögð og málefnaleg. Það gerist undir stöðugri ágjöf þvert á yfirlýst markmið meirihlutans um að stunda opna stjórnsýslu í samráði við íbúa sveitarfélagsins.
Eftirfarandi grein gæti ekki passað betur inn í umræðuna, þó hún hefði sérstaklega verið skrifuð vegna vinnubragða í Múlaþingi.
https://www.visir.is/g/20232458168d/slaemir-stjornendur-slatra-gagnsaei
"Slæmir stjórnendur slátra gagnsæi
Sigurður Ragnarsson skrifar 4. september 2023 11:30
Undanfarið hef ég lesið margar góðar bækur á sviði stjórnunar og forystu, eins og The Trillion Dollar Coach um Bill Campbell, The Subtle Art of Not Giving a f*ck, Winning" eftir Jack Welch, The Ride of a Lifetime eftir Robert Iger, forstjóra Disney, og No Rules Rules: Netflix and the Culture of Reinvention. Margt kemur upp í hugann eftir lesturinn en eitt stendur þó upp úr og það er mikilvægi gagnsæis (e. transparency) í vinnunni, og auðvitað í lífinu almennt. Gagnsæi vísar m.a. til opinna, hreinskilinna og heiðarlegra samskipta á meðal alls starfsfólks þar sem víðsýni og tillitsemi er í hávegum höfð ásamt því að hafa hugrekki til að tjá sig.
Það er auðvelt að gera ráð fyrir því að við séum tilbúin að tjá okkur opinskátt og vera óhrædd að viðra skoðanir okkar, þar á meðal að hafa hugrekki til að vera ósammála. En hugsaðu um núverandi vinnustað þinn eða þau störf sem þú hefur gegnt. Er eða var fólk hvatt til að vera opið og hreinskilið og leggja sitt af mörkum með því að opinbera ólíkar hugmyndir sínar og mismunandi skoðanir? Mig grunar að svarið sé ,,Nei... því miður." Þá spyr ég: Hvers vegna ekki? Ýmsir framúrskarandi stjórnendur, sérfræðingar ásamt fræðifólki leggja áherslu á mikilvægi gagnsæis og telja það vera eina af meginstoðunum fyrir langtíma velgengni, bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Ástæðan er sú að gagnsæi skapar t.d. traust, leiðir til betri ákvörðunartöku, hefur jákvæð áhrif á teymisvinnu sem og virkni starfsfólks, sköpun, hamingju o.s.frv. Það má segja að gagnsæi sé lykilþáttur í að byggja upp og viðhalda jákvæðri og heilbrigðri vinnustaðamenningu. Þetta snýst í raun um að veita faglega forystu. Eða ætti ég að segja að hjá slæmum stjórnendum snýst þetta um skort á faglegri forystu? Einstaklingar sem veita forystu, hvort sem um er að ræða forstjóra, framkvæmdastjóra, deildarstjóra eða hvað við köllum þennan einstakling á að vera fyrirmynd og leiðtogi. En það undarlega er að margir sem gegna þessum hlutverkum koma í veg fyrir gagnsæi eða hreinlega drepa það niður. Þessir einstaklingar halda að þeir hafi yfirleitt eða alltaf bestu hugmyndirnar og að þeir eigi að ákveða hvað sé skynsamlegast að gera. Þegar þetta er viðhorfið, hvers vegna að hlusta á aðra?
En hvernig veistu hvort að þú hafir svona stjórnanda eða stjórnendur? Líklega þarf ég ekki að útskýra því það fer ekki á milli mála, en ég ætla að leyfa mér að koma með nokkur dæmi:
- Slæmir stjórnendur bregðast t.d. við hugmyndum annarra með eftirfarandi hætti: ,,Við höfum ekki tíma fyrir þetta, við gerum þetta eins og við höfum gert áður. Mér finnst það hafa virkað vel og af hverju að breyta?"
- Slæmir stjórnendur leita ekki eftir eða biðja um skoðanir eða hugmyndir annarra heldur segja fólki frekar hvað það á að gera: Gerðu þetta... eða gerðu eins og ég segi þér... Jafnvel þótt slæmir stjórnendur segist óska eftir skoðunum hlusta þeir ekki og segja fólki hvað það á að gera.
- Það versta er að sumir slæmir stjórnendur refsa fólki sem tjáir skoðanir sínar og hugmyndir, sérstaklega ef það er ekki í samræmi við skoðanir stjórnendanna sjálfra. Hverjar eru afleiðingarnar? Það má segja að það slokkni á starfsfólki því auðvitað veldur þetta vanlíðan og margir yfirgefa fyrirtækið eins fljótt og hægt er, sem kemur auðvitað ekki á óvart.
Við þurfum að leggja áherslu á og verðlauna gagnsæi og viðhalda heilbrigðri vinnustaðamenningu þar sem fólk getur og er hvatt til að tjá mismunandi skoðanir sínar og hugmyndir. Hins vegar, ef slæmur stjórnandi eða ef slæmir stjórnendur eru alls ráðandi í fyrirtækinu þá er mjög ólíklegt að þar ríki gagnsæi. Í þessu samhengi hugsa ég oft til félaga míns Ben Lichtenwalner hjá Modern Servant Leader sem heldur því fram að í mörgum tilfellum þurfum við að bjarga fyrirtækjum okkar frá slæmum stjórnendum!
Höfundur er lektor við Háskólann á Akureyri og Heartstyles forystuþjálfari."
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.8.2023 | 00:20
VG og orkustefna flokksins í tómu tjóni
Ítrekað hefur verið varað við gjaldþrotastefnu VG er varðar orkumál þjóðarinnar. Eitt af ruglinu er að selja gæði hreinnar orku sem síðan þarf að kaupa aftur til að freista þess að ná settum markmiðum.
Það gengur ekki betur en það að á Íslandi er ríkisstjórnin búin að markaðssetja landið sem orkuöflunarsamfélag og rekur kjarnorku- og kolaver til að framleiða raforku. Það sem upp á vantar er framleitt með gasi og olíu. Það rímar hinsvegar illa við raunveruleikann, vegna þess að við erum heimsmeistarar í framleiðslu grænnar orku.
Einhverjir hagnast á þessu braski og það er gert með þegjandi samkomulagi stjórnvalda.
Skilar þetta einhverju í ríkiskassann?
Hugsanlega.
En hvað með orðsporið?
Bíður það ekki hnekki?
Svo á að bjarga málunum í horn með vindmyllum og sólarsellum.
Hér eftir er áhugaverð umfjöllun um gæði þeirrar orkuöflunar.
Viðskiptablaðið 19. ágúst 2023
Þórður Gunnarsson
https://vb.is/skodun/motsogn-orkustefnu-/
Mótsögn orkustefnu ESB
Er skynsamlegt að ætla að byggja þá grunnþörf samfélagsins sem raforku- og varmaframleiðsla er, á sífellt óútreiknanlegri veðri og vindum?
Stjórnvöld um allan heim leita nú leiða til að auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í heildarorkunotkun. Af margvíslegum ástæðum telst afar ólíklegt að notkun á jarðefnaeldsneyti muni dragast saman á næstu árum eða áratugum heldur þvert á móti.
Hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í aukningu orkunotkunar hefur hins vegar vaxið á síðustu árum. Raunhæft er að viðhalda, efla og styðja þá þróun. Með skynsamlegri stefnumótun má auka hlutdeild endurnýjanlegrar orku enn frekar frá því sem nú er.
Evrópusambandið hefur staðið framarlega í stafni í markmiðasetningu vegna orkuskipta, þó ekki væri nema í orði (þó að aðrir hlutir hafi átt sér stað á borði á síðustu misserum). Allt frá því að rússneskt jarðgas hætti að berast til Evrópu sama mæli og áður, hefur Evrópa í auknum mæli treyst á brennslu kola til raforkuframleiðslu. Þar með var þeirri þróun sem hafði átt sér stað áratugina tvo á undan snúið við.
Að vísu hefur notkun kola aftur byrjað að dragast saman í Evrópu það sem af er yfirstandandi ári, en það er einkum vegna minni eftirspurnar raforku sökum mikilla verðhækkana. Minni kolanotkun er því ekki komin til af góðu. Alþjóðaorkumálastofnunin (IEA) greindi frá því nýverið að raforkunotkun Evrópu hefði náð 20 ára lágmarki á fyrri hluta árs 2023. Sú staðreynd er öðru fremur til marks um veikleika í efnahagsumsvifum álfunnar.
Álver í Evrópu loka
Nefna má sem dæmi að fjölda álvera hefur verið lokað í Evrópu vegna hás orkukostnaðar. Samanlögð framleiðslugeta þeirra álvera sem lokað hafa í Evrópu frá árslokum 2021 heggur nærri 1,5 milljónum tonna á ári. Evrópa þarf samt áfram sitt ál og mun þurfa að flytja málminn inn, til dæmis frá Kína eða Rússlandi. Finna má fjölmörg fleiri dæmi um rekstrarstöðvanir eða endanlegar lokanir orkukræfs iðnaðar í Evrópu á undanförnum misserum.
En aftur að orkumarkmiðum Evrópusambandsins. Þau snúa einna helst að því að hætta nánast alfarið notkun kola-, vatnsafls- og kjarnorku. Að rúmlega áratug liðnum eigi vind- og sólarorka standa að baki um tveimur þriðju allrar framleiddrar raforku.
Á undanförnum vikum hafa okkur daglega verið fluttar fréttir af miklum hitabylgjum á meginlandi Evrópu. Hrakspár um öfgar og ófyrirsjáanleika veðurfars verða sífellt voveiflegri. Hærra hitastig hefur það gjarnan í för með sér að vindstyrkur er minni en ella. Þegar hitastig er hátt, er eftirspurn raforku hins vegar öllu jöfnu mikil vegna aukinnar notkunar á loftkælingarbúnaði bygginga. Fræðileg hámarksafköst vindorkuvera eru tæplega 60% af uppsettu afli. Á heitum sumardögum lækkar það hlutfall enn frekar (vegna áðurnefndra áhrifa hitastigs á vindstyrk). Á slíkum dögum framleiða vindorkuver jafnan um einn þriðja þess raforkumagns sem uppsett afl kveður á um.
Vindur og sól
En hvað með sólarorkuna? Þrátt fyrir að sól skíni gjarnan skært á hlýjum sumardögum, þá er það mesta sem hægt er að fá úr sólarorku um fjórðungur uppsettu afli. Þetta sama hlutfall getur fallið allt niður í 10%.
Þrátt fyrir að sú sólarorka sem beinist að jörðinni á hverri sekúndu sé mörgþúsund sinnum meiri en öll sú orka sem heimsbyggðin notar hverju sinni, þá er tækni til nýtingar hennar einfaldlega ekki komin lengra en þetta. Vonandi stendur það til bóta, en ekkert bendir til þess á á þessari stundu, þó enginn viti hvað framtíðin beri í skauti sér. Svo er það auðvitað líka tilfellið, sem flestum ætti að vera kunnugt um, að sól skín ekki um nætur og er því ónothæf sem orkugjafi hálfan sólarhringinn á hálfri jörðinni hverju sinni.
Það skýtur því óneitanlega skökku við að ætla að byggja meirihluta allrar raforkuframleiðslu á orkugjöfum sem byggja á vindstyrk og sólskini. Samkvæmt gögnum frá Evrópusambandinu er um helmingur heildarorkunotkunar Evrópu vegna upphitunar eða kælingar bygginga.
Af þeirri staðreynd mætti draga þá ályktun að orkuframleiðsla, sama hvort þar ræðir um raforku eða varmaorku, ætti helst að vera óháð veðurfari hverju sinni. Ef hinn vísindalegi samhljómur er sá að loftslag jarðar fari hitnandi og að öfgar og óvissa í veðurfari muni hvort tveggja aukast, hljóta menn að spyrja sig: Er skynsamlegt að ætla að byggja þá grunnþörf samfélagsins sem raforku- og varmaframleiðsla er, á sífellt óútreiknanlegri veðri og vindum?
4.7.2023 | 22:03
Beitir Múlaþing íbúa sína skoðanakúgun?
fréttin 3.júlí 2023:
Í nýlegri auglýsingu Múlaþings vegna aðalskipulagsbreytingar, virðist sveitarfélagið ákveða skoðanir íbúanna með niðurlagsorðnum:
"Hver sá sem eigi gerir athugasemdir við tillöguna fyrir tilskilinn frest telst samþykkur henni".
Framar í auglýsingunni kemur réttilega fram skv. skipulagslögum:
"Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna".
Af þessum tveim setningum virðist sem sveitarfélagið Múlaþing hafi tekið sér óumbeðið forsjárvald yfir skoðunum fólks um aðalskipulagsbreytinguna, sérstaklega þeirra sem ekki geta skilað athugasemdum vegna hagsmunaleysis.
Sveitarstjórnarfulltrúi minnihluta Þröstur Jónsson, vekur athygli á þessu í fésbókarfærslu síðastliðinn sunnudag.
Um mjög umdeilda aðalskipulagsbreytingu er að ræða vegna svo nefnds leiðarvals frá Fjarðarheiðargöngum til Egillsstaða.
Meðal annars hefur komið fram í skoðanakönnun Gallups að mikill meirihluta íbúa á svæðinu er á móti þessari aðalskipulagsbreytingu og á annað hundrað íbúa hafa mótmælt leiðarvali sveitarstjórnar skriflega. Þá hefur Skipulagsstofnun gagnrýnt leiðarvalið sem skipulagsbreytingin nær til (sjá tam. kafla 5).
Fréttin sló á þráðinn til Þrastar og spurði hann út í fésbókarfærsluna.
Þröstur segir að Leiðalvarsmálið allt vera litað af skoðanakúgun, tilraunum til þöggunar og því hefði verið þrýst í gegnum umhverfis- og skipulagsráð án nauðsynlegrar umræðu. Þetta kristallist ekki síst í auglýsingum þar sem reynt er að taka forræði yfir skoðunum íbúa.
Þröstur telur að listi Framsóknarflokks fari fram með offorsi í þessu máli, og segist hafa það á tilfinningunni að Sjálfstæðismenn sem sitja í meirihluta með Framsókn fylgdu margir hverjir Framsókn með óbragðið í munninum.
Þá segir Þröstur að meirhlutinn hefði valið svo kallaða Suðurleið sem væri skipulagslegt og umhverfislegt stórslys í sveitarfélaginu, og rýrði mjög virði Fjarðarheiðarganga sem tækifæri til kröftugrar atvinnu-uppbyggingar á svæðinu sem hefði orðið ef svo nefnd, Norðurleið hefði verið valin.
Aðspurður um kostnað við göngin segir Þröstur það rétt að um mjög dýra framkvæmd sé að ræða, og það væri ekki til framdráttar fyrir göngin að minnka þjóðhagslegt virði þeirra með röngu leiðarvali Suðurleiðar.
Þetta viti flest heimafólk sem þekkir vel til og er því andsnúið vali meirihlutans á Suðurleið, segir Þröstur að lokum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.6.2023 | 15:07
Norðurleiðin
Í gildandi skipulagi fyrir Egilsstaði er gert ráð fyrir gangamunna Fjarðaheiðganga ofan við Steinholt og vegi norðan Eyvindaár með brú við Melshorn.
Það er sú leið sem er hagkvæmust og ódýrust í framkvæmd og hefur minnst rask í för með sér. Það er sú leið sem M-listinn hefur talað ítrekað fyrir.
Vegagerðin hefur talað fyrir Dalhúsaleiðinni, sem er umtalsvert dýrari í framkvæmd og fer að miklu leyti yfir ósnortið land og mjög áhugavert byggingaland, sem yrði með grænum ósnortnum svæðum inn á milli.
Sveitarstjórn Múlaþings hefur afhent Vegagerðinni skipulagsvaldið og sýnir enga tilburði að vinna með samfélaginu í að veljabesta, ódýrasta og öruggustu leiðina fyrir íbúana.
Eftir síðustu vendingar ríkisstjórnarinnar, um frestum Fjarðaheiðaganga til 2025,gefst tækifæri til að vinda ofan af þessum áformum og hætta við auglýstar breytingar á aðalskipulagi Egilsstaða og endurskoða alla vinnu við það.
Á Egilsstöðum hefur í mörg ár verið krafa um að minnka óþarfa umferð þungaflutninga um miðbæ Egilsstaða. Ráðamenn í Múlaþings átta sig ekki á að öryggi íbúanna er í húfi.
Flest sveitarfélög vinna að því að þungaflutningar og umferð, sem ekki á beinlínis erindi inn í bæjarfélög, hafi greiða leið í jaðri byggða.
Meirihlutinn áttar sig ekki á þörfum atvinnulífsins um gott flæði um atvinnusvæðin með skriðþunga farma. Iðnaðarsvæði við Lyngáer gott og gilt, en verður þar ekki tugi ára í viðbót.
Svæði norðan Eyvindaár hentar undir blandaða byggð, s.s. verslun, orkuríka starfsemi, starfsumhverfi þungavinnuvéla og margskonar þjónustu tengda flutningastarfsemi, - að því gefnu að Norðurleiðin verði valin.
Meirihlutinn í Múlaþingi hefur ekki heildarsýn um gagnkvæmar tengingar umferðar- og samgöngumannvirkja t.d. milli Seyðisfjarðarhafnar og Egilsstaðaflugvallar
Ekki er hægt að fara í svo umfangsmiklar breytingar á skipulagi án þess að taka inn í heildarmyndina hvar ný Lagarfljótsbrú á að vera og hvar þjóðvegur eitt skuli liggja, svo lengja megi Egilsstaðaflugvöll uppfylla væntingar um meira millilandaflug.
Aðalskipulag á að vera lifandi plagg, án þess þó, að taka drastískum breytingum eftir dagsformi forseta sveitarstjórnar.
BVW.
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 20:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2023 | 12:25
Þrjár skattahækkanir fyrir hverja lækkun
Frá árinu 2007 hefur verið gerð 391 breyting á skattkerfinu. Þar er um að ræða 293 skattahækkanir en einungis 93 lækkanir. Það þýðir að fyrir hverja skattalækkun hafa skattar verið hækkaðir þrisvar sinnum.
Þetta kemur fram í nýrri samantekt Viðskiptaráðs um skattkerfið sem birt verður í dag. Þar kemur einnig fram að umræddar breytingar hafi ekki einungis verið til að breyta gildandi sköttum heldur hafa nýir verið kynntir til leiks og gamlir afnumdir. Á árunum 2009-2013 voru alls tólf nýir skattar lagðir á en aðeins einn til lækkunar, það var frítekjumark fjármagnstekjuskatts. Frá áramótum 2022 hafa tekið gildi 46 breytingar á skattkerfinu en einungis sjö þeirra voru til lækkunar. Það gera fimm skattahækkanir fyrir hverja skattalækkun.
Það er áhyggjuefni að þrátt fyrir álíka margar breytingar til hækkunar undanfarin tvö ár hafa lækkanir verið mun færri en að jafnaði, segir Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, í samtali við ViðskiptaMoggann.
Lestu meira um málið í ViðskiptaMogganum í dag.
https://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2023/05/31/thrjar_skattahaekkanir_fyrir_hverja_laekkun/
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.5.2023 | 18:22
Múlaþing 17. júní. Þjóðsönginn, nei takk
Felldu tillögu um þjóðsönginn á 17. júní
Sérstakt málefni var tekið fyrir á síðasta fundi byggðarráðs Múlaþings, en þar var fjallað um auknar fjárveitingar til fimleikadeildar Hattar til að halda utan um 17. júní-hátíðarhöldin á Egilsstöðum, en venja er að félagið sjái um dagskrána.
Þröstur Jónsson, áheyrnarfulltrúi Miðflokks í byggðarráði, lagði fram tillögu þar sem hann fór fram á að þjóðsöngurinn Ó, guð vors lands yrði sunginn að minnsta kosti einu sinni í athöfninni og þá helst við inngöngu Fjallkonunnar, enda væri það viðeigandi á þjóðhátíð landsins.
Ástæðan fyrir því að ég lagði fram þessa breytingartillögu var að þjóðsöngurinn var ekki sunginn á 17. júní í fyrra. Ég hef nú stundum gantast svolítið með það, en eftir 17. júní í fyrra fengum við eitt það mesta skítasumar sem komið hefur hér í manna minnum. Ég vildi þá setja þann varnagla að þjóðsöngurinn yrði sunginn í ár á þjóðhátíðinni og skil ekki að það skaði nokkurn mann, segir Þröstur og bætir við að ekki væri verra ef veðrið yrði skaplegt í kjölfarið.
En tillagan var felld með þremur atkvæðum og tveir sátu hjá, segir Þröstur. Ég get ekki sagt nákvæmlega hvað fór fram á fundinum, en get þó sagt að um málið urðu nokkrar umræður. Það er eins og það sé eitthvað púkó að syngja þjóðsönginn af því að guð sé nefndur. Ég veit ekki hvað á að segja annað, þótt ég vilji ekki fullyrða að það sé ástæðan.
Þröstur segir að í fyrra hafi verið spilað lagið Ísland er land þitt við inngöngu Fjallkonunnar og að það sé ágætis lag. Ég spyr þó hvenær þjóðsöngurinn sé við hæfi, ef ekki einmitt á þjóðhátíðardegi Íslendinga?
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2023/05/22/felldu_tillogu_um_thjodsonginn_a_17_juni/
Á hvaða vegferð eru stjórnendur í sveitarstjórn Múlaþings þessa dagana?
Þjóðsönginn á 17. júní. Nei takk
Kristinfræði kennsla í grunnskóla? Nei takk.
Fræðsla um Samtökin78 í Grunnskólum? Já takk.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 18:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.5.2023 | 11:04
Sniðganga staðreynda um Seyðisfjarðargöng
Umræða um kostnað hefur verið í gangi frá því að ákvörðun um Seyðisfjarðargöng undir Fjarðarheiði til Héraðs var tekin. Launaðir pennar hafa hamast við að láta gangagerð til Héraðs líta illa út og spilað undir átök innan Austurlands um þessa gangagerð, þó svo að það hafi verið ljóst lengi að vilji meirihluta Seyðfirðinga er að grafa göng til Héraðs. Margar staðreyndir í málinu hafa verið sniðgengnar.
Skiptar skoðanir hafa gert vart við sig vegna lagningar jarðganga til Seyðisfjarðar. Nokkrir þættir virðast þó hafa farið fram hjá sumum, sem hafa tjáð sig um framkvæmdina. Við sameiningu fjögurra sveitarfélaga í eitt voru bættar samgöngur ein höfuðáherslan við sameiningu þeirra í sveitarfélagið Múlaþing. Allir hljóta að viðurkenna að með sameiningu er hvorki verið að stefna að lakari samgöngum né lengri leiðum í gegnum önnur sveitarfélög.
Fjarðarheiðin er í fjallgarði sem er sá hæsti á Íslandi og hefur þau áhrif að þegar veðraskil fara yfir hann þá sleppa þau allri úrkomunni úr sér á móti austri, sem veldur snjóflóðahættu ásamt skriðuhættu um alla firði. Svo er eina jökulmyndin í fjallgarðinum, er Fönn nefnist, milli Mjóafjarðar og Norðfjarðar. Rannsóknir um gangaleið frá Seyðisfirði um Mjóafjörð til Norðfjarðar hafa ekki farið fram og það mun taka allt að tíu ár að framkvæma þær rannsóknir, en um er að ræða jarðfræðirannsóknir og veðurfarsrannsóknir ásamt umhverfismati.
Gangaleið um Mjóafjörð er órannsökuð svo sem fyrr segir, en vitað er um stór snjóflóð úr Króardal sem er í fjallgarðinum milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar. Snjóflóð úr Króardal koma fram rétt utan við bæinn Fjörð, þar sem þau hafa tekið af mannvirki í eigu Fjarðar á fyrri tíð. Skriðuföll eru algeng rétt innan við Fjörð milli bæjanna Fjarðar og Fjarðarkots (Innri-Fjarðar). Þau hafa ítrekað eyðilagt tún þessara jarða. Skriðuföll eru þekkt á Asknesi og í hlíðunum fyrir innan. Friðheimur var byggður eftir að hús tók af við hvalstöðina í Hamarsvík innst í Mjóafirði.
Fannardalur er lítt eða ekki rannsakaður hvað snjóalög, snjóflóð og skriðuföll varðar, að sögn veðurfræðings.
Nú fyrir skemmstu varð ófært vegna snjóflóðahættu frá Norðfjarðargöngum út í Neskaupstað og því ekki hægt að koma hjálparliði til Norðfjarðar nema sjóleiðina frá Seyðisfirði, eftir að brotist hafði verið yfir Fjarðarheiði. Ekki var hægt að fljúga á þyrlu vegna veðursins og Fagridalur lokaður vegna snjóflóða og skriðufalla. Hólmanes var einnig lokað vegna snjóflóða. Fram kemur í annálum að skriðuföll hafi oft eyðilagt tún og engi á prestssetrinu forna, Hólmum.
Núna í vetur stóð til að rýma Fjórðungssjúkrahús Austurlands í Neskaupstað vegna snjóflóðahættu og spurningin er því: hvert átti að fara með fólkið? Allir vegir voru lokaðir þrátt fyrir jarðgöng og ekki hægt að fljúga. Jarðgöng til Seyðisfjarðar um Fjarðarheiði hefðu opnað leiðina að flugvellinum og tryggt leiðina að einni bestu höfn Íslands árið um kring. Auk þessa er alger nauðsyn að gera göng gegnum Austfjarðafjallgarð til Héraðs, ekki bara með ströndinni, til að efla byggð og auka öryggi íbúanna.
Vilja menn velja þann kost að leggja veg frá Seyðisfirði um Mjóafjörð til Norðfjarðar með þá hættu yfirvofandi að þegar veður gerast válynd sé hvorki hægt að komast til Seyðisfjarðar né frá? Auk þess er vegurinn mikilvægur hluti af heilbrigðiskerfinu og tenging milli samgöngumannvirkja. Með göngum til Seyðisfjarðar undir Fjarðarheiði er tryggt að hægt er að komast þangað stystu leið frá flugvellinum á Egilsstöðum og örugg sigling frá öruggri höfn á Seyðisfirði til annarra fjarða á Mið-Austurlandi. Gröfum göngin strax og tengjum þau við þá vegi sem liggja fram hjá gangamunnunum báðum megin stystu leið. Förum svo í varanlega vegagerð þegar aðalskipulagi lýkur fyrir sveitarfélagið.
Í þessu máli er mikið talað um peninga en aldrei nefnt að peningar sem aflað er á Austurlandi duga í þessa framkvæmd og meira til. Talað er um að peningarnir fari frekar til byggingar samgöngumannvirkja í Reykjavík en á Austurlandi. Samkvæmt skýrslu frá Háskólanum á Akureyri fá Austfirðingar aðeins eina krónu af hverjum fimm sem þeir afla í ríkissjóð. Tími til kominn að réttlæti fari að ráða í ráðstöfun fjármagns á Íslandi. Þeir fái að njóta sem afla.
Svo má benda á að leiðin til Seyðisfjarðar er einnig vegtenging Íslands við Evrópu með Norrænu inn á þjóðleið E39 í Danmörku. Með henni koma þúsundir farþega ár hvert og frakt í báðar áttir. Það hentar hins vegar ekki alltaf að nefna það.
Björn Ármann Ólafsson
Höfundur er 4. maður á lista Miðflokksins í Múlaþingi.
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 16. MAÍ 2023 bls.16
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2023 | 11:20
Evrópukórinn kveðinn í kútinn
Samfylkingin og hliðarsjálf hans, Viðreisn, hefa haldið upp linnulausum áróðri um að ganga í ESB og taka upp EURO í stað krónunnar, þrátt fyrir skýrar upplýsingar um krónan sé okkar happapeningur. Endalaust söngl um að gera "samning um inngöngu" er ekki í boði, sama hversu oft sem sá söngur er kyrjaður breytist það ekki; það skal sótt um inngöngu á forsendum ESB, - annað er ekki í boði.
https://sigsig.blog.is/blog/sigsig/entry/2288133/#comments
"Málflutningur Evrópusinna hefur alltaf verið óheiðarlegur og byggst á blekkingum.
Að "kíkja í pakkann" er lygi. Aðildarsamningurinn er einfaldlega stofnsáttmáli Evrópusambandsins og hann hefur árum saman legið fyrir í íslenskri þýðingu.
Önnur lygi er að með inngöngu í ESB og upptöku evru muni verðtrygging hverfa af sjálfu sér eins og fyrir einhverja töfra. Hið rétta er að ekkert í reglum ESB og EMU segir til um hvaða lánsform aðildarríkin megi leyfa eða banna. Þegar ég vakti athygli sendiherra ESB á Íslandi á þessum galdramálflutningi íslenskra Evrópusinna var honum sýnilega brugðið og þvertók fyrir að fótur væri fyrir þessu, afnám verðtryggingar væri og yrði alltaf íslenskt innanríkismál.
Enn önnur lygi er meintur "kostnaður við krónuna" sem er sagður ógnarhár. Hið rétta er að það kostar íslenska ríkið ekki neitt að gefa út krónur. Þvert á móti hefur það hagnað af því. Sem dæmi kostar um 50 krónur að prenta einn tíuþúsundkall þannig að myntsláttughagnaður af hverjum seðli er 9.950 kr. Þar að auki kostar nákvæmlega ekkert að gefa út rafrænar krónur, eins og ríkið gerir með útgjöldum og bankar með útlánum.
Svo hefur aldrei verið útskýrt með hverju við eigum að borga fyrir allar þær evrur sem við hlytum að þurfa að kaupa ef við ætluðum að taka upp þann gjaldmiðil. Varla er neinn að fara að gefa okkur þær og fjarstæða að nokkur með heilu viti taki við greiðslu í krónum ef ætlunin væri að leggja þann gjaldmiðil niður. Snaróðir landsölumenn myndu þó varla setja það fyrir sig að afsala stórum hluta eigna ríkisins til að fá sína blautu evrudrauma uppfyllta."
Guðmundur Ásgeirsson
Svo mörg voru þau orð og rétt fyrir Evrópukórinn að láta nú þegar af lygaþvælu sinni, - í eitt skipti fyrir öll. (BVW)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2023 | 13:36
Opið bréf til ráðherra samgöngumála og forstjóra Vegagerðarinnar um Fjarðarheiðargöng
Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig tilvonandi gangnaframkvæmd er verðlögð og hverju er hægt að klína af aukakostnaði á svona framkvæmd.
Vegur í Seyðisfirði
Er nauðsynlegt að breyta vegi frá gangnamunna niður að bæ?
Hvað kostar þessi breyting?
Þessu fylgir mikill auka kostnaður, ekki bara við breytingu á vegi því það þarf að færa golfvöll líka með ærnum tilkostnaði.
Ég, sem vegfarandi þarna flesta daga, kaupi það ekki sem rök að vegurinn í Seyðisfirði fyrir neðan Gufufoss sé vandamál í dag. Ég er viss um að undir þetta kvitta flestir heimamenn og flutningabílstjórar sem aka þarna um reglulega.
Það efni sem út úr göngum kemur Seyðisfjarðarmeginn væri hægt að nýta í ýmislegt annað en veg yfir gofvöll. Til dæmis landfyllingar og varnargarða svo eitthvað sé nefnt.
Vegur Egilsstaðamegin
Hvers vegna vill vegagerðin hafa gangnamunnann við Dalhús sem er með dýrustu tengingu sem völ er á?
Þarna þarf að leggja veg og byggja brú yfir Eyvindarárgilið svo ekki sé minnst á hugmyndir um Norðurleið eða Suðurleið, sem ég ætla alveg að láta liggja milli hluta. Þá umræðu tel ég bara alls ekki tímabæra eins og staðan er í dag.
Hvað mælir á móti því að gangnamunninn Héraðsmegin sé hafður fyrir ofan Steinholt þar sem hann getur verið nálægt núverandi vegi og tengst inn á hann og við notum þann veg sem notaður er í dag?
Umferð í gegnum Egilsstaði er einfalt og ódýrt að leysa til að tryggja öryggi vegfarenda.
Byrjum á hringtorgi á mótum Seyðisfjarðarvegar og Fagradalsbrautar. Þetta hringtorg er hægt að staðsetja þannig að leiðin upp á Fagradal nái sem beinastri línu í gegn til að greiða fyrir umferð upp í þá brekku sem er út úr þéttbýlinu á Egilsstöðum. Þetta hægir á umferð inn í bæinn.
Þá er hægt að gera undirgöng undir Fagradalsbraut við Tjarnarbraut og Miðvang ásamt hringtorgi á gatnamót Fagradalsbrautar og Vallavegar við Söluskála N1. Á neðri hluta Fagradalsbrautar er svo í lófa lagið að taka hámarkshraða niður í 30 km á klukkustund ef þurfa þykir. Umferð á Fagrdalsbraut er ekki vandamál í dag að mínu mati og kemur ekki til með að aukast við það eitt að umferð fari undir Fjarðarheiði en ekki yfir.
Efni það sem til fellur Héraðsmegin mætti til dæmis nýta í stækkun flughlaðs og gerð akstursbrautar við flugvöllinn. Við Íslendingar eigum t.d. opinbert hlutafélag sem heitir Isavia. Þatta félag getur keypt efnið og staðið straum af kostnaði við þennan þátt ef vilji er fyrir hendi. Eða er það svo að ef félagið er ohf þá hefur ráðherra samgöngumála og réttkjörin stjórnvöld ekki lengur stjórn á eigum okkar Íslendinga?
Nei - við þurfum ekki að keyra þessu efni öllu í gegnum Egilsstaði þar sem það er vegur niður með Eyvindará að norðanverðu. Vegagerðin hefur sýnt okkur það oftar en einu sinni að það er ekki lengi verið að henda upp bráðabirgðarbrú, svo þessa leið má auðveldlega nota. Nema kannski einhver finni það út að veginn norðan Eyvindarár þurfi þá að byggja upp minnst 8 metra breiðan með vegriðum og öryggissvæðum og guð má vita hvað kostnað er hægt klína á það.
Stóra spurningin er í mínum huga: Hvers vegna er verið að klína öllum þessum óþarfa aukakostnaði á Fjarðarheiðargöng?
Hver er raunverulegur kostnaður við að gera þessi göng með nauðsynlegum tengingum við Steinholt og Gufufoss?
Er kostnaður kostnaður við þessar tengingar sem engin þörf er á strax settur á Fjarðarheiðargöng til að ekki teljist gerlegt að byggja göngin vegna kostnaðar?
Með þessu leiðum sem ég bendi á er ekki búið að loka fyrir leiðir framhjá þéttbýlinu norður eða suður í framtíðinni þegar og ef raunveruleg þörf skapast.
Færeyingar byggðu tvenn göng
Eysturoyjartunnilin, 11.238 metra löng með 3 gangnamunnum 1 hringtorgi. Sanoytunnilinn, 10.785 mera að lengd.
Áætlaður kostnaður 2016 framreiknað til dagsins í dag 54,5 miljarðar íslenskra króna fyrir bæði göngin.
Fyrsta sprenging við Eysturoyartunnilinn var í febrúar 2017 og lokasprenging í janúar 2019. Göngin voru opnuð 19. desember 2020. Þau eru 10,5 metra breið og eru 189 metra undir sjávarmáli.
Áætlaður kostnaður við 13 km Fjarðarheiðargöng er um 60 milljarðar íslenskra króna.
Hvernig getur þetta passað?
Höfundur er Agnar Sverrisson
Greinin birtist á Austurfrétt:
https://www.austurfrett.is/umraedan/opidh-bref-til-radhherra-smgoengumala-og-forstjora-vegagerdharinnar-um-fjardharheidhargoeng
7.3.2023 | 15:32
Að vera eða að ekki vera vanhæfur, þarna er efinn.
Mikið hefur gengið á og mikill pilsaþytur er í bæjarstjórn og þeim nefndum Múlaþings, þar sem ákveðinn einstaklingur hefur náð (hreðja-)tökum á þorra nefndarmanna (konur eru líka menn). Það í sjálfu sér er ekki vandamálið heldur hitt og öllu verra er að ekki má nein vitræn umræða eiga sér stað t.d. um hvað er best íbúum sveitarfélagsins í skipulagsmálum til framtíðar. Skynsemi meirihlutans hefur lent í einhverjum hrokafyllsta tætara sem sögur fara af.
Sérlega er viðkomandi fulltrúa uppsigað við fulltrúa Miðflokksins. Veira þessi virðist sérstaklega útbreidd veira innan Framsóknarflokksins, og nýtt er hvert tækifæri til að þagga niður í honum, þvert á lýðræðisleg vinnubrögð og fagleg.
Ekki er boði meirihlutans í Múlaþingi að eiga samtal við íbúa Egilsstaða um þungaumferð í bæjarfélaginu, þó meirihluti íbúanna hafi sagt sína skoðun á því máli í skoðanakönnun. Ævintýrið um Teigskóg er að endurtaka sig í boði Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins. Önnur framboð dragast í kjölsogið en aðeins er farið að örla á að örfáir séu farnir að andæfa þessu makalausa framferði meirihlutans.
Önnur sveitafélög eru að vakna til meðvitundar um að reyna að færa þungaumferðina út fyrir bæjarfélögin og er Borgarnes með tillögur í þá átt. Það er þvert á það sem gert var í upphafi þegar áherslan var lögð á umferð í gegnum bæjarfélög og mikil áhersla lögð á það í Borgarnesi. Nú stendur til að bjóða út að byggja brú við Selfoss, til að létta á umferðinni innanbæjar.
En Framsóknarskonnortan æðir stjórnlaus áfram upp í grjótgarðinn, við stjórnvölinn er skipstjóri með leppa fyrir augum.
Hver er vanhæfastur í sveitastjórn Múlaþings?
Er það fyrsti maður á lista Framsóknar?
(BVW)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)